13.12.1950
Neðri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

90. mál, sala Vatnsleysu í Viðvíkursveit

Frsm. ( Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 152, um heimild fyrir ríkisstj. til að selja prestssetursjörðina Vatnsleysu í Skagafirði, hefur verið til athugunar hjá landbn., og mælir n. eindregið með því, að það verði samþ. Þannig stendur á þarna, að Jósef Björnsson fyrrverandi skólastjóri og kennari á Hólum í Hjaltadal bjó þarna langan aldur og gerði miklar umbætur á þessari jörð. Þegar hann fluttist burt, var ekkert af hans börnum, sem vildi halda þar áfram búskap. Niðurstaðan varð sú, að jörðin var seld ríkinu. Síðan varð jörðin prestssetur, því að presturinn vildi heldur sitja þar en á Viðvík, því að húsakostur var þar betri. Nú hefur verið ákveðið af kirkjumrh., að prestssetrið skuli verða flutt að Hólum, sem auðvitað er mjög æskilegt, og þá er ekki nein ástæða til, að ríkið eigi þessa jörð. Og þá vill svo vel til, að sonur Jósefs, Hólmjárn ráðunautur, óskar að kaupa jörðina og flytjast þangað og byrja þar búskap. Vænti ég, að hv. þdm. geti orðið n. sammála um að samþ. frv. þetta eins og það liggur fyrir.