13.12.1950
Neðri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

87. mál, lögtak og fjárnám

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er því miður ekki vel að mér í þessum l., sem snerta lögtök, en ég verð að segja, að mér finnst óviðfelldið, að við skulum sífellt vera að samþ. l., sem herða á þeim rétti. sem ríkið hefur til að innheimta sína skatta. Það er kannske ekki mikið við þessu að segja, meðan tiltölulega vel gengur hjá fólki, næg atvinna og afkoma sæmileg. Þá er ekki nema eðlilegt, að ríki og bær gangi ríkt eftir innheimtu og hafi allmikinn rétt til þess. Hins vegar hafa allar lagabreyt., sem orðið hafa nú upp á síðkastið viðvíkjandi l. um fjárnám og lögtök og rétt til töku skatta af kaupgjaldi, gengið út á að auka rétt ríkisins gagnvart einstaklingunum. Mér finnst þetta vera komið að þeim takmörkum, sem leyfileg séu, þegar ríkið lætur einstaklingana ekki njóta meiri réttar en það gerir nú. Ef ríkið sæi hverjum manni fyrir vinnu, hefði það miklu meiri siðferðislegan rétt til að vera strangt í kröfum og setja strangari l. um innheimtu skatta, en í þess stað næstum því meinar ríkið mönnum að vinna og setur alls konar hömlur gegn því, að menn geti skapað sér atvinnu, heldur gerir þeim á allan hátt sem erfiðast fyrir, og það ríki á ekki sömu siðferðislega kröfu til strangrar innheimtu. Nú er gengið út frá að gera þetta auðveldara fyrir þann, sem innheimtir. Það kann vel að vera, að þetta þýði á vissan hátt minni kostnað fyrir gerðarþola, en hitt er víst, að þetta er meira „summeriskt“ fyrir hið opinbera. Nú á ekki að koma til einstaklingsins og gera honum ljóst, hvað um er að vera. Ég hefði mikla tilhneigingu til, ef á að herða á ákvæðunum um lögtök og fjárnám, að undanskilja meira en gert er frá lögtaki brýnustu nauðsynjar manna. Það liggur nú mjög mikið í valdi hins opinbera, hversu nærri er gengið, þannig að mér finnst, að ef verið er að breyta þessum l. frá sjónarmiði hins opinbera sem skattheimtanda, þá ætti um leið að gera nokkra breyt. á þessum l. um lögtök á þann hátt að tryggja betur en mér finnst nú gert, að ekki sé gengið að brýnustu nauðsynjum manna. Þær undanþágur, sem nú eru í l., eru miðaðar við lífskjör, sem til allrar hamingju eru yfirleitt breytt nú til hins betra. Það er eðlilegt, að nú sé meira undanskilið lögtaki en gert var með þeim l., miðað við þau bágu lífskjör, sem menn áttu áður við að búa. Eitt var það, að ekki mætti taka af handverksmanni hans brýnustu tæki. Mér finnst, að þar ætti að undanskilja stærri tæki en áður var gert.

Ég hefði mjög viljað mælast til þess, að sú n., sem þetta hefur til meðferðar, athugaði þetta nokkuð milli 2. og 3. umr. Þetta er stjfrv. og í síðari d., og er því engin hætta í sambandi við tafir. En mér finnst, þegar sífellt er verið að auka þær kröfur, sem gerðar eru til skattgreiðenda, um leið og sífelldlega er verið að gera ráðstafanir til að gera mönnum erfiðara fyrir um að greiða skattana, þá eigi líka að undanskilja frá lögtaki meira en nú er gert. Þyrfti þá að bæta einni gr. inn í og breyta þannig til. Enn fremur þyrfti í þessu sambandi að athuga, hvernig nú er innheimtur skattur með því að draga af kaupgjaldi. Það er gengið það langt hvað eftir annað um frádrátt af kaupi upp í skatta, að mönnum er ekki skilið eftir fyrir allra brýnustu nauðsynjum.

Fátt eitt er nýmæli í þessu nema síðasta málsgr. í 2. gr., að hið opinbera hafi rétt til að ganga að sparisjóðsinneignunum og ráðstafa þeim. Ég veit ekki, hvort þetta er sanngjarnt. Að vísu mætti segja. að í sumum tilfellum, t.d. með þá, sem efni hafa, væri eðlilegt, að ríkið vildi fá greidda peninga. En hvernig stendur á, að ríkið ætlar að ganga að sparisjóðsinnstæðum þeirra einstaklinga, sem lítið eiga, frekar en að taka af þeim ýmsa búshluti? Það er því í sumum tilfellum heppilegra að hafa sparisjóðinn en búshlutina. Þeir fara oft fyrir lítið og oft reynist erfitt að selja þá, en fyrir sparisjóðsinneignirnar geta menn t.d. keypt mat. Ég held, að þetta sé varhugavert ákvæði, — að vísu hefur því verið breytt frá hinu upprunalega stjórnarfrv. En ég held, að rétt væri að nefndin athugaði, hvort 5000 króna lágmarkið ætti ekki að vera hærra.

Það hefur verið brýnt fyrir fólki núna undanfarið, að það legði inn sparifé sitt. En ég efa, að heppilegt sé, að sú almenna hugsun kæmist inn hjá fólki, að þetta fé sé ekki öruggt og það opinbera geti hvenær sem er gengið að því, en það hefur nú stolið helming af sparisjóðsinnstæðum landsmanna með undanfarandi gengislækkun: — Ég held í fyrsta lagi, að það sé órétt gagnvart fátæklingum að gera þetta og ópraktískt í öðru lagi.

Ég vil spyrja, hvort við þetta hafi ekki verið gerðar neinar aths. af hálfu þeirra stofnana, sem láta sig mál okkar hér miklu skipta, bankanna, eða hvort álits þeirra hafi ekki verið leitað. Við vitum, að bankarnir hafa viljað vera lausir við, að þeir þyrftu að gefa upp sparifjárinnstæðurnar, og þetta hafa þeir gert vegna þess, að þeir hafa verið hræddir um, að það mundi þýða flótta frá sparifjárinnlögum. Þetta er mjög slæmt, vegna þess að spariféð er ódýrasta veltuféð. Og ég er hræddur við allar ákvarðanir, sem raska því öryggi, sem smærri sparifjáreigendur hafa haft.

Ég skal ekki neita þeim rökum, sem skattheimtendur færa fram, því að þau liggja í augum uppi. Og sumir þeir, sem eru efnaðir, trassa greiðslur. En þegar í hlut eiga hinir smærri, sem oft líta allt öðruvísi augum á þetta fé en hinir, en hafa samt hangið í að hafa fé sitt í sparisjóðum, þá held ég, að það sé dálítið hæpið, að farið sé þannig að gagnvart þeim.

Ég hefði gjarnan viljað vera með í því að flytja brtt. við till. á þingskjali 257, en áður vildi ég heyra undirtektir nefndarinnar og hvort hún hefði rætt þetta og hefði þá rök, sem mér hefði yfirsézt í þessu sambandi.