13.12.1950
Efri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

8. mál, gjaldaviðauki 1951

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þegar fjárlfrv. var til 2. umr., gat ég þess, að ekki væri hægt að telja ráðlegt að reikna með því, að ríkissjóður gæti staðið undir meiri útgjöldum en gert var ráð fyrir á frv. Þetta var þá dregið í efa, og fannst mér ég sýna fram á það, að slíkt væri ástæðulaust. Síðan hefur farið fram ný athugun á þessu, miðuð við 1. des., og sýnir sú athugun það sama og áður. Er ljóst af niðurstöðum þeirrar athugunar, að tolltekjurnar munu bregðast mjög. Ég get ekki séð, að verðtollurinn muni fara fram úr 60 millj., en hann var áætlaður 78 millj. og hér áætlaður 73 millj. Þegar þessar 70 millj. eru áætlaðar, er gert ráð fyrir 10 millj. kr. tekjum í des., og er það helmingi meira en í nokkrum öðrum mánuði, en hann hefur numið 5 millj. mánaðarlega síðan gengisbreytingin var gerð, en það gerir 60 millj. í 12 mánuði. Hann virðist því ekki ætla að standast, og hið sama er að segja um söluskattinn. Ef litið er á aðrar tekjuhorfur, þá eru einkasölurnar einu tekjustofnarnir, sem líklegir eru til þess að gefa umframtekjur, en þær munu þá líka ganga upp í þann greiðsluhalla, sem frv. gerir ráð fyrir að verði meiri. Horfurnar eru því ískyggilegar. Eins og ég benti á við 2. umr. fjárlfrv., þá er um fleiri en eina leið að velja við 3. umr. önnur er sú, að hætta að greiða almennar launauppbætur og greiða áfram laun miðað við vísitöluna 115, og mín persónulega skoðun er, að það eigi að gera. En eins og nú er ástatt, er enginn grundvöllur fyrir launahækkanir, en þær gætu orðið að tjóni, því að þær hlytu að koma fram jafnharðan, eins og nú er ástatt, í auknu verðlagi, svo að þetta yrði allt ein hringrás, auk þess sem framleiðslan yrði lífminni en ella. Nú hefur sú leið ekki orðið ofan á, heldur hin, að lagt er til, að greidd verði uppbót um 7 vísitölustig, í 122 stig, en þá er um það tvennt að velja, að annaðhvort verða fjárl. afgr. með greiðsluhalla eða afla verður nýrra tekna. Til viðbótar þessum auknu launagreiðslum er óhjákvæmilegt að breyta framlaginu til trygginganna og greiða sams konar uppbætur á lífeyrisstyrk og á laun, og þá verður að veita meira til trygginganna en það fé, sem gert var á fjárlfrv. og miðaðist nánast við vísitöluna 115, og mér telst svo til, að það megi ekki vera minna en 1,5 millj. Þá yrði einnig um leið að auka framlag til sjúkratrygginganna, og mætti gera ráð fyrir í þann kostnað um 200 þús. Þá eru þarna 5 millj. í launauppbætur og 1,7 millj. til trygginganna, eða um 7 millj. Enn fremur þarf að bæta öðru við. T.d. þarf að taka 1 millj. til áburðarverksmiðjunnar, sem taka á að byggja á næsta ári. Þarna eru þá 8 millj., og eitthvað fleira kemur til greiðslu á. Af þessu sjá menn, að þær brtt., sem hér liggja fyrir, og þau frv., sem liggja fyrir hv. Nd., miðast við það að vega upp á móti þessum gjöldum. Fyrir Nd. liggur nú frv. um að hækka söluskatt úr 6% í 7%, og reiknast mér svo til, að það muni gefa 5 millj. kr. í auknar tekjur. Fyrir sömu d. liggur frv. um að auka nokkuð viðauka á vörutolli, og ég reikna með, að það gefi 4,5 millj. kr. í auknar tekjur. Þetta er ekki há upphæð, því að margt af því, sem þarna kemur til greina, er undanþegið, svo sem þungagjald af benzíni og fleiri vörutegundum. Þessi viðauki er 17% á þær vörur, sem til greina koma. Þá er gjald af súkkulaði og sælgætisvörum og gosdrykkjum, 20% viðauki á núverandi toll, og er áætlað, að það gefi 1,3 millj. Þá er 20% viðauki á stimpilgjald, sem áætlað er, að gefi 900 þús., og 75% á afgreiðslugjöld skipa, sem gefa mun 800 þús. Er þetta gert til þess, að þau verði jafnhá og hjá erlendum aðilum. En þetta er áætlað samtals 9,5 millj. En frv. gerir ráð fyrir auknum útgjöldum, sem ég veit, að nema munu 10-11 millj. Þetta, sem ég hef sagt í sem fæstum orðum, er ekki annað en það, sem ég áleit, að hv. þm. ættu kröfu á að vita, og segi því frá því öllu strax, þó að aðeins nokkur hluti þess sé til umr.