13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

8. mál, gjaldaviðauki 1951

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan segja fáein orð til þess að skýra afstöðu mína gagnvart þessu frv. Ég verð að segja, að þetta kom mér, eins og fleirum, — ég heyrði það á ræðum manna hér í hv. d. — að vissu leyti dálítið á óvart, að til þessa ráðs yrði nú að taka. En það verður að trúa þeim aðilum, sem með fjármálin fara í hvert sinn, til þess að leggja ekki til hærri gjöld en þeir álíta forsvaranleg. Það er vitað, að hér hefur oft á undanförnum þingum staðið styrr út af því, að þingið einatt verður í bobba með afgreiðslu fjárlaga, og þá ekki sízt vegna þess, að krafizt hefur verið fjárframlaga, sem eigi hefur verið hægt að ráða við, nema með auknum sköttum og auknum tollum af ýmsu tagi. Á þeim tíma, sem ég fór með fjármálin, olli þetta miklum drætti í afgreiðslu fjárlaga, og má þar nefna fiskábyrgðina og dýrtíðarútgjöldin í sambandi við hana. Það nýja viðhorf olli ríkisstj. miklum áhyggjum og orsakaði drátt á afgreiðslu fjárl. Vitaskuld sætti fjármálastj. fyrir það ámæli, sem hún kannske hefur að einhverju leyti átt skilið, en að miklu leyti var afleiðing þess ástands, sem ríkti og að sumu leyti hafði skapazt fyrir aðgerðir Alþ. sjálfs. Mér þótti þá sízt gaman að verða hvað eftir annað að leggja til hækkun á gjöldum, til þess að geta mætt þeim útgjöldum, sem sýnt var, að þurfti til þeirra hluta, sem þá varð að snúast við. Þegar svo gengisbreytingin var gerð, vonaði ég fyrir mitt leyti — og ég fylgdi henni með þá von í brjósti —, að þar með gæti þingið nú stöðvað sig á þeirri braut að þurfa árlega að bæta við skatta og gjöld. Nú virðist svo sem sú von hafi ekki rætzt enn þá a.m.k. að fullu. Og þess vegna er það, að þótt ekki sé til þess hugsað að gera ráð fyrir tekjum til þess að greiða með fiskinum, eins og við höfum áður gert, þá hefur hæstv. fjmrh. ekki séð sér annað fært en fara fram á við þingið nýjar hækkanir á ýmsum tollum og sköttum. Og ég býst við, að eins og okkur í þessari hv. d. eru þetta vonbrigði, muni hæstv. ráðh., sem hefur yfirstjórn fjármálanna með höndum, geta sagt það sama. Ég get sagt það hreinskilnislega, að mér hraus hugur við þau árin, sem ég stóð í hans sporum, að þurfa sífellt að leggja til hækkandi álögur í sambandi við lausn þeirra dýrtíðarmála, sem við blöstu þá á hverjum vetri.

Þetta frv. er nú búið að ræða og skýra það, hvað liggur til grundvallar. Skal ég ekki vefengja þá þörf. En því verra er að þurfa að taka í lög þessar nýju hækkanir á tollum, að sagan er með því ekki fullsögð að því er bátaútveginn snertir. Hans vandamál, sem á undanförnum árum átti að leysa með þeim álögum, sem þingið í hvert sinn lögleiddi, og leystust, að svo miklu leyti sem þau voru leyst, eru ósnert af þessu frv. Það mátti heita, að engin stöðvun yrði á útveginum. Nú blasir við erfitt viðhorf fyrir bátaútveginn, og hef ég ekki heyrt eða séð hilla undir lausn þess með hinum nýju álögum. Að þessu leyti er sagan í þetta sinn ekki nema hálfsögð. Þingið getur að vísu afgr. fjárl. á lögboðinni tíð, fyrir nýár. En þau eru afgr. án þess að tekið sé tillit til þess afar alvarlega ástands, sem ríkir nú hvað bátaútveginn snertir á komandi vertíð. Ég drep á þetta af því, að það stendur í beinu sambandi við afgreiðslu þessa máls og við forsögu fjármálastj. hér á Alþ. undanfarin ár. Ég lái síður en svo fjmrh., þó að hann leitist við, eftir því sem hann hefur þingfylgi til, að sjá fjárhag ríkisins borgið. Þess er sízt minni þörf nú en áður, og raunar meiri, vegna þess að undanfarin ár hefur sá maður, sem með fjármálin hefur farið, hvergi nærri haft þann stuðning hjá hinu háa Alþ. sem skylt er, að sá embættismaður hafi í viðleitni sinni til að halda fjárhag ríkisins nokkurn veginn í horfi. Hæstv. ráðh. sagði réttilega, að hann teldi fulla þörf á því — og hann stefnir að því — að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaus. Og ég tel mér skylt, meðan ég styð ríkisstjórnina, að hlíta leiðsögn hæstv. ráðh. í þessu efni. Ekkert síður fyrir það, þó að ég ætti ekki því láni að fagna að hafa sama heilbrigða þingfylgið til heilbrigðra athafna í þessu efni, sem núv. fjmrh. hefur. Þvert á móti átti ég, sem hafói fjármálastjórnina á hendi á hinum erfiðu fiskábyrgðarárum, við það að búa, að jafnvel minn eigin flokkur lagði í bakið á mér eftir að fjárlög voru afgr., með því að samþ. margra milljóna króna útgjöld og leggja mér þá skyldu á herðar að greiða utan fjárlaga. Það var óforsvaranlegt tiltæki, og dreg ég minn flokk engan veginn undan fullri sök í því efni. Þykir mér rétt að taka fram við þetta tækifæri, hvað það er, sem fjmrh. hefur stundum átt við að búa. Þegar því þetta óvænta frv. kemur fram og ég heyri rökstuðninginn fyrir því, þ.e. vissir tekjuliðir hafa brugðizt, þykir mér of viðurhlutamikið, þó að mér falli það þungt, eins og þegar ég varð að gangast fyrir auknum álögum. — of viðurhlutamikið að leggja á móti fjármálastjórn ríkisins með því að torvelda framgang þessa máls. Því að ég er sannfærður um það, að þingið hefur langt um of lengi vegið í þann knérunn að afgr. ekki fjárl. á réttan hátt. Er full ástæða til að taka fyrir slíkt. Og sem flokksmaður Sjálfstfl. fagna ég því, ef þingið getur stutt núverandi fjmrh. í því að halda svo á málum, að honum endist betur liðveizla þeirra, sem styðja hann, heldur en mér gerði þann tíma, sem ég átti sæti í hans embætti.

Þetta vildi ég taka fram um leið og ég vildi segja það, að þegar við nú samþ. þessa nýju tekjuliði, tel ég mjög íhugunarvert, hvort ekki sé rétt við afgreiðslu fjárlfrv. út úr þinginu endanlega að lita eitthvað meira til þarfa bátaflotans heldur en gert hefur veríð hingað til.

Ég skal, herra forseti, ekki tefja umr. um þetta úr hófi fram. En mér fannst rétt að láta þessar aths. fylgja frá mér, til þess að byggja fyrir það, að haldið yrði, að ég fylgdi ennþá hækkuðum útgjöldum svona í hugsunarleysi, eftir afnám fiskábyrgðarinnar og þrátt fyrir lögfesta gengislækkun. En ég hafði ekki búizt við að þurfa að fylgja slíkum ráðstöfunum á þessu þingi, eftir gengislækkunina. Sjálfstfl. hefur gengið í samvinnu við samstarfsflokk sinn. með það fyrir augum að styðja að því, að fjármál ríkisins kæmust í sem bezt horf. En það verður því aðeins gert, að hver þm. geri skyldu sína í því að styðja fjármálastj. á hverjum tíma í hennar viðleitni við sitt starf. Og með þeim formála, sem ég nú hef haft, mun ég fylgja þessu máli út úr deildinni.