13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

8. mál, gjaldaviðauki 1951

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég er á móti þessu frv., en frá öðru sjónarmiði en sumir aðrir. Og ég kveð mér hljóðs af því, að ég vil ekki láta halda síðar meir, að ég sé þeim sammála. Ég er á móti því af því, að ég tel hægt að ná þeim jöfnuði í fjárl., sem þarf að nást og á að nást, á allt annan og miklu skynsamlegri hátt en hér er gert ráð fyrir. Það er með þeirri einföldu aðferð að hætta að greiða niður vörur innanlands. Það hefur verið gert illu heilli og til mikillar bölvunar fyrir alla, sem hlut áttu að máli. Líka fyrir þá, sem fengu vörurnar ódýrari. Það er fleygt í þetta 25 milljónum og á að heita til að halda við vísitölunni. Þessu á að hætta, og þá kemst jöfnuður á fjárl. En á þennan hátt næst hann ekki. Það eru til takmörk, og ég held, að við séum komnir að þeim, a.m.k. með þeim aðferðum, sem við höfum haft, og eigum að hætta að greiða niður. Þar á eftir á að lækka launin eða festa þau þar sem þau eru. Þá er kominn jöfnuður á fjárl. Þá þarf ekki að hugsa um viðbótartekjur.