27.10.1950
Efri deild: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

5. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjárhagsnefnd hefur nú athugað þetta frv. og borið það saman við l., sem áður giltu um þetta efni frá fyrra ári og undanfarin ár, og virðist upptakan í þetta frv. rétt. Enn fremur hefur n. athugað l. nr. 98 frá 9. júlí 1941, en ákveðið er svo í síðustu gr. þessa frv., að þau l. falli úr gildi við gildistöku þessa frv. Athugun á þeim l. frá n. var einkum í því fólgin að ganga úr skugga um, hvort yfirleitt væri óhætt að fella þessi lög með öllu úr gildi, það hefur verið sett reglugerð samkvæmt þeim, og athugaði n., hvort hún þurfi að vera í gildi áfram. En það er skemmst frá að segja, að ákvæði þessara l. eru fallin úr gildi þegar eða komin inn í önnur lög, nema eitt atriði, sem komið er inn í frv., sem búast má við að verði samþ. hér á Alþ., og virðist þá óhætt að fella þau l. úr gildi.

N. er því öll sammála um það, að formsins vegna sé ekkert við það að athuga að samþ. þetta frv., en öðru máli er að gegna um efni þess, þar sem einn nm., hv. 4. landsk., vill fella frv. að mestu leyti niður, halda aðeins 3. gr., eftir því sem mér skilst á hans nál. M.ö.o., hann vill fella niður þann tekjuauka, sem í frv. felst og gilt hefur undanfarin ár. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en við 4 nm. lítum svo á, að það sé á engan hátt fært að skerða svo tekjur ríkissjóðs, að þessi viðauki fái ekki að haldast, og því er það okkar till., meiri hl., að frv. verði samþ. óbreytt. Ég hygg, að það þurfi ekki fleiri orð um það. Fjárlagafrv. og allar ástæður ríkissjóðs sýna það, að ríkissjóður má ekki missa þær tekjur, sem hann hefur haft, nema því aðeins að aðrar tekjur jafnmiklar komi í staðinn, eða þá að stungið sé upp á það miklum sparnaði, sem nemi tekjurýrnuninni, og sýnt fram á, að hann sé framkvæmanlegur. En hvorugt liggur fyrir frá hv. 1. landsk., og fæ ég því ekki vel skilið, hvað hann hugsar sér. En væntanlega kemur það fram þegar hann gerir grein fyrir sínu nál.