27.10.1950
Efri deild: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

5. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, hefur n. ekki orðið sammála um þetta frv. Ég skila hér sérstöku nál., og mín afstaða kemur greinilega fram í nál. á þskj. 69. Ég legg til, að felld sé niður 1., 2. og 5. gr. frv., þ.e.a.s. þær gr., sem fela í sér ákvæðin um tollahækkanir þær, sem hér um ræðir og eru framlenging á tollahækkunum, sem lagðar voru á fyrir 2 árum; en hins vegar legg ég til, að 3. gr. verði samþ., sem aðeins er framlenging á ákvæði l. um dýrtíðarráðstafanir frá 1941, sem er heimild um niðurfelling eða lækkun á aðflutningsgjöldum á þeim vörum, sem þar greinir.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa afstöðu mína. Ég hygg, að hún sé af fyrri umr. öllum hv. dm. kunn. Ég var andvígur þessum tollahækkunum, sem hér um ræðir, þegar þær voru fyrst lagðar á. Þá urðu allmiklar umr. um málið, og ég hélt því fram, að þessar tollahækkanir væru ekki annað en afleiðing þeirrar heildarstefnu, sem fylgt hefur verið, það væri þess vegna ekki hægt að taka afstöðu til þessa máls án þess um leið að taka afstöðu til allrar stefnu ríkisstj., það væri ómögulegt að taka afstöðu til þessa máls út af fyrir sig. Ég er enn sömu skoðunar og tel aðeins, að það hnigi enn sterkari rök undir hana nú en þá, en ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka þær umr., sem þá fóru fram hér í þessu sambandi. Þegar þessar tollahækkanir voru lagðar á fyrst, var það talin bráðabirgðaráðstöfun, eins og raunar hefur verið um öll tollalög, sem samþ. hafa verið um margra ára skeið, þau hafa verið talin neyðarúrræði, sem gripið væri til til bráðabirgða, af því fyrst og fremst að krónan væri skráð á röngu gengi. Ef menn líta á umr., sem þá fóru fram, þá geta menn séð, að þetta var höfuðröksemdin, að krónan væri skráð á röngu gengi. Síðan hefur krónan verið skorin niður rösklegar en nokkur impraði þá á. En bráðabirgðaráðstöfunin var ekki látin niður falla og tollar lækkuðu ekki, heldur hækkuðu. Loks vil ég taka fram, að enda þótt allt væri með felldu að því er snertir þá stefnu, sem fylgt hefur verið og leitt hefur til þess, að þessir tollar eru á lagðir, þá er ég þeirrar skoðunar, að til svo óhóflegra hátolla á almennar neyzluvörur sem hér um ræðir eigi seinast að grípa af öllu.