20.11.1950
Neðri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

5. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frumvarp þetta til laga um bráðabirgðabreyting á lögum nr. 62 frá 1939, um tollskrá o.fl., 5. mál Ed., hefur verið tekið fyrir í fjhn., en hún hefur ekki orðið sammála um það. Meiri hlutinn leggur til, að frv. verði samþykkt, en minni hlutinn, hv. 2. þm. Reykv., leggur til að fella 1., 2. og 4. gr., en samþykkja 3. gr.

Frv. þetta er til framlengingar á lögum nr. 2 1950. Hér er þó gert ráð fyrir tveimur breytingum frá þeim lögum:

1. Að álag á verðtoll samkv. B-lið 1. gr. sé lækkað úr 65% í 45%, en það er gert í samræmi við 10. gr. laga nr. 22 1950, um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl.,

2. Að felld verði niður lög nr. 98 1941, um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna, en það, sem enn er notað af þeim heimildum, sem felast í þeim lögum varðandi aðflutningsgjöld, verði tekið inn í þetta frv., en það eru ákvæðin í 1. og 2. lið 3. gr. laganna frá 1941, skv. auglýsingu nr. 2 1950, og eru þau ákvæði tekin upp í 3. gr. þessa frumvarps. Lög nr. 98 1941 voru sett á styrjaldarárunum, og voru þau fyrst og fremst miðuð við ástand, sem þá ríkti, og ráðstafanir, sem þá þótti rétt að gera. Er ekki ástæða til, að lagaákvæði þessi, að undanteknum- ákvæðum 1. og 2. liðar 3. gr. varðandi aðflutningsgjöld og 3. liðar varðandi tollvörugjald af kaffibæti — en ákvæði 3. liðar varðandi kaffibæti eru tekin upp í frv. um breytingu á tollvörugjaldslögunum, sem lagt er fram með þessu frv. — verði látin gilda lengur, og er því lagt til, að þau verði felld niður.

Meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það er lagt fyrir.