13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

5. mál, tollskrá o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins, út af till. hæstv. fjmrh. um hækkun á vörumagnstollinum úr 200% í 250% og með hliðsjón af þeim upplýsingum og rökum, sem fram komu í ræðu hans, lýsa yfir andstöðu minni og Alþfl. gegn þeirri brtt., sem fyrir liggur nú, og gegn þeim boðuðu brtt., sem að nokkru leyti hafa verið lagðar fram í þessari hv. d. og einnig í hv. Ed. Ég skal um leið taka fram, að það gladdi mig að heyra yfirlýsingu hæstv. ráðh. um það, að ríkisstj. sæi sér ekki annað fært en að hlíta gildandi fyrirmælum gengisl. um greiðslu uppbóta vegna hækkaðrar dýrtíðar. En hæstv. fjmrh. lýsti yfir því, að sú hækkun á vísitölunni, sem þegar væri vituð, væri 7 stig hvað snertir kaupgreiðsluvísitölu og mundi kosta ríkissjóð fram yfir það, sem áætlað er í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj., um 5 millj. kr. Ég lýsi ánægju minni út af því, að ríkisstj. hefur hætt við þær meira eða minna fastar hugleiðingar um það að brjóta eða virða að vettugi þau loforð, sem voru gefin launamönnum öllum í löggjöfinni um gengislækkun með greiðslu á uppbótum eftir hækkandi dýrtíð. Ég lýsi einnig ánægju minni yfir því á vissan hátt, að hæstv. fjmrh. hefur látið undan síga af þeim þunga, sem hann vafalaust hefur orðið var við varðandi almannatryggingalöggjöfina, svo að það er þó gert ráð fyrir, að þar verði gerðar nokkrar endurbætur hvað snertir greiðslu bótanna til samræmis við vísitölu, meir en fyrirhugað var í fjárlagafrv. Og þær auknu bótagreiðslur mundu kosta ríkissjóð að sjálfsögðu eitthvert fé, og reiknaði hæstv. fjmrh. með því, að sú breyt., sem hann og hæstv. ríkisstj. vildi ganga inn á, bæði varðandi tryggingarnar sjálfar og sjúkrasamlögin, mundi nema 1,7 millj. kr. — Ég lýsi ánægju minni út af þessu út af fyrir sig, svo langt sem það nær, að þessi réttlætismál hafa verið viðurkennd, að greiða eigi bæturnar eftir gildandi kaupgjaldsvísitölu, þó að ég telji ekki varlega áætlað að telja það 122 stig, sem eigi að greiða uppbæturnar eftir, því að það uggir mig, að svo gæti farið, þegar búið væri að samþykkja hin stóru skattafrv. hæstv. ríkisstj., að vöruverð hækkaði verulega, þegar kæmi fram á árið 1951. Og eftir gildandi gengislækkunarlöggjöf á að reikna út þessa vísitölu árið 1951. Ég tel líka, að það þurfi að fara hærra í uppbótargmeiðslum en að miða við 122 stig.

Ég verð líka að lýsa yfir, að skref hæstv. ríkisstj. er ekki nema hálft í áttina til sanngirni og réttlætis gagnvart tryggingamálunum, því að það hefði þurft að gera endurbætur á almannatryggingalöggjöfinni, sem nokkurn veginn einróma var komið gegnum hv. Ed. á síðasta þingi frv. um, og vitað er, að meginhluti þjóðarinnar mundi telja til stórbóta, ef gerðar væru þær endurbætur. Og vissulega er þörf á að gera þær. Ég vil því að þessu leyti gera þennan fyrirvara um viðurkenningu mína til hæstv. ríkisstj. og fjmrh. varðandi þessi tvö atriði, að í sambandi við tryggingalöggjöfina álít ég, að ekki sé gengið nærri eins langt og þyrfti að gera, og ég álít líka of lágt áætlaða launauppbótina til opinberra starfsmanna, að miða við 122 stig til greiðslu á árinu 1954. — Þetta tek ég fram, áður en ég vík að frv., sem fyrir liggur, eða brtt.

Ég vil þá víkja nokkuð að þeim þegar boðuðu og sýndu brtt. frá hálfu hæstv. ríkisstj. varðandi verulega hækkun á tollum og sköttum. Það er eitt í röksemdafærslu hæstv. fjmrh., sem ég fyrir mitt leyti get alls ekki fallizt á, enda kom það greinilega í ljós af hálfu Alþfl. við 2. umr. fjárl. Og það var það, að það væru ekki of lágt áætlaðir ýmsir tekjuliðir á fjárlagafrv. Ég hygg, að fulltrúi Alþfl. í fjvn. hafi sýnt fram á það með skýrum rökum, eftir þeirri reynslu, sem fyrir liggur frá árinu 1949 og fram til mánaðamóta október og nóvember þ.á. að ýmsir tekjuliðir á fjárlagafrv. væru áætlaðir allt of lágir. Nú segir að vísu hæstv. fjmrh., að við nýrri athugun, sem hann hafi látið fram fara sérstaklega á vissum tekjuliðum, þá sé útlitið jafnvel verra en hann hefði búizt við áður. Nú dettur mér ekki í hug að rengja þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. flytur hér og áreiðanlega eru réttar, svo langt sem þær ná. En þær snertu aðeins ákveðna, takmarkaða tekjuliði á fjárlagafrv. Og má vera, að reynslan, sem var af þessum liðum fram til síðustu mánaðamóta, hafi verið verri en bæði ég og hæstv. fjmrh. höfðum búizt við. Þó tók hann fram, að það væri að vísu eftir sá mánuðurinn sem hann lét í skína að mundi gefa töluvert auknar tekjur, þar sem búizt er við einhverjum innflutningi enn á þessu ári. (Fjmrh.: Það er búið að reikna með því. ) En ég vil líka benda á, að það er vafalaust, að það hafa ekki brugðizt — ef nota mætti það orð í þessu sambandi — á sama hátt þær tekjuvonir, sem voru gerðar viðkomandi áfengis- og tóbakssölu. Nú var sýnt fram á það við 2. umr. fjárl., að það mætti áætla hagnað af áfengissölu 6 millj. kr. hærri en gert er á fjárlagafrv., og 7 millj. kr. hærri hagnaðinn af Tóbaksverzlun ríkisins heldur en á fjárlagafrv. er gert ráð fyrir. Og skynsamlegt hygg ég að áætla, að tekjur af þessum tveimur liðum muni verða um 13 millj. kr. meiri en gert er ráð fyrir á fjárlagafrv. — Nú reiknar hæstv. fjmrh. með því, að þau auknu útgjöld, sem hann gerir ráð fyrir að komi fram yfir það, sem gert er ráð fyrir á fjárlagafrv., þannig, — og þar eru stærstu liðirnir, annars vegar uppbætur á laun opinberra starfsmanna og hins vegar hækkun á útgjöldum almannatrygginganna, — að alla liðina áætlar hann samtals um 40 millj. kr. Og þá er þetta samt ekki nema tíu þrettándu af þeim auknu tekjum, sem búast má við að falli í skaut ríkissjóði af þeim einkasölum, sem ég áðan nefndi. Ég hef líka ríka ástæðu til að ætla, að sumir tekjuliðir, sem hæstv. ráðh. nefndi ekki, svo sem innflutningsgjald af benzíni og gjald af innlendum tollvörutegundum, bifreiðaskattur o.fl., muni reynast hærri en gert er ráð fyrir á fjárlagafrv. — Allt ber þetta að sama brunni, nefnilega það sýnir, hve óþarft er að leggja á þjóðina nú nýja tolla og skatta til þess að fullnægja þeirri réttlætiskröfu, sem stjórnin hefur nú svignað undan að vissu leyti, um auknar uppbætur á laun opinberra starfsmanna og svolitla réttarbót í samhandi við almannatryggingarnar.

Af þessum ástæðum erum við Alþfl.-menn á móti þessum till. hæstv. ríkisstjórnar.

Ég þarf ekki að ítreka það, að það er svo víðs fjarri, að það, sem rétt er að þjóðinni sem jólagjöf, sé í samræmi við þau fyrirheit, sem ríkisstj. gaf henni í sambandi við setningu gengislækkunarlöggjafarinnar, — í sambandi við það mikla mál, sem það var kallað hér á hæstv. Alþ. á sínum tíma. En þó að því sé sleppt og haldið sé sér bara við staðreyndir fjárl. og skynsamlega áætlun á tekjuliðum fjárl. fyrir 1951, miðað við óbreytta löggjöf að öllu leyti, þá ætla ég, að það sé allsendis óþarfi að hækka það mikið skatta og tolla eins og hæstv. ríkisstj. leggur til. Þess vegna er Alþfl. andvígur þessu og telur, að með þessu móti sé hæstv. fjmrh. — sem er ágætur búmaður og er sýnt um fjármál — að safna í kornhlöðu. En því, sem þannig er safnað, með óþörfum en þungbærum tollum og sköttum, er safnað af heilu holdi þjóðarinnar. Og fjöldi manna má sízt við því, eins og nú standa sakir.

Ég reikna með því sem gefnu og þekki það frá fyrri og síðari tímum, að gagnslaust sé að eyða löngu máli í að andæfa þessum till. hæstv. ríkisstj., þar sem sjálfsagt eru stjórnarfl. búnir að koma sér saman um þetta, og þeir hafa mikinn meiri hl. Alþ. Ég vildi aðeins af hálfu Alþfl. láta falla þessi ummæli nú á þessu stigi. Og ég vil líka segja, að mér þykir leitt, að þessar stórfelldu nýju skattaálögur skuli koma svona rétt áður en til þingfrestunar kemur, og það virðist ekki tími né nægilegt tækifæri til að safna þeim gögnum, sem nægja til þess að rökstyðja afstöðu stjórnarandstöðunnar eða Alþfl. til þessa máls. — En þetta læt ég nægja á þessu stigi til andmæla þessari till. út af frv. á þskj. 5.