13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

5. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af því, sem komið hefur fram frá hv. form. flokkanna beggja. Fyrst, út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, vil ég taka fram, að það er rétt, að æskilegra væri, að það þyrfti ekki að leggja fram till. til breyt. á skattal. eins og hér er gert. En það eru þær ástæður, sem hv. þm. vita, að það hefur verið og er verið að íhuga allar leiðir til þess að komast hjá að þurfa að hækka skattana. Og ástæðan til þess, að þetta frv. kemur svo seint fram, er, að beðið hefur verið með að koma fram með það, til þess að sjá, hvort afkoma þessa árs yrði ekki þannig, að hægt væri að sleppa því. Menn voru þannig í lengstu lög að vona, að afkoman mundi verða sú, að það mundi ekki þurfa að leggja á meiri skatta. En svo fór ekki. — Það er líka rétt, að það þyrfti að komast hjá því að leggja fram brtt. um verulega efnisbreyt. á máli á síðasta stigi málsins. Samt sem áður hefur þetta verið hlutskipti mitt nú og annarra líka, sem í sömu sporum hafa staðið, sem neyðzt hafa til að bera fram brtt. á þennan hátt. En slíkt er alls ekki æskilegt. Það er neyðin, sem rekur menn til þess að vinna þannig.

Um það, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, um það, sem hann taldi, að það kæmi fram af því, að stefnan væri skökk í fjármálapólitíkinni, að þörf væri fyrir þessa hækkun tolla, en ef hún væri rétt, þyrfti þess ekki, — þá get ég ekki nú rætt þetta í einstökum atriðum. Það er kjarninn í öllu málinu, hvort hægt hefði verið að hafa aðra stefnu í fjárhags- og viðskiptamálunum, svo að þjóðinni hefði vegnað betur en raun ber vitni nú. Er þetta mjög umdeilt mál. En ég tek fram, að ríkisstj. hefur gert það, sem ég tel að í hennar valdi hafi staðið til að greiða fyrir atvinnu- og viðskiptamálunum. Og það virðist ætla að verða árangurinn, að framleiðslutækin verði notuð þetta ár, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika, og að framleiðslan seljist öll, þegar til kemur. Og þetta út af fyrir sig er nokkuð mikill árangur. Hvort hægt hefði verið að koma meiru fjöri í þetta, það mætti lengi um það ræða. Ríkisstj. hefur nú til alvarlegrar athugunar að gera verulegar breyt. frá því, sem verið hefur, einmitt viðkomandi verzlunar- og fjárhagsmálum. En ég get ekki gefið neinar yfirlýsingar um það í dag, hvað afgert verður í þeim efnum eða hver verður árangurinn. En þó. að ríkisstj. hafi þetta til athugunar, þá þykir mér ekki annað hlýða en að afgr. þessi fjárl. eftir því, sem ástandið er í þessum efnum í dag. Og fram hjá því verður ekki hægt að komast. Og verða þessi fáu orð að nægja til þess að svara því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði.

Um það, sem hv. 8. landsk. þm. tók fram, þar sem hann lýsti afstöðu Alþfl. með tilliti til tekjuöflunar, um leið og hann lýsti ánægju flokksins yfir því, að ákvörðun hefði verið tekin um að greiða uppbót á laun og fé til trygginganna, um það, sem hv. þm. sagði, vil ég taka fram, að það er byggt á misskilningi hv. þm., að tekjustofnar ríkisins að óbreyttum l. séu þannig, að þeir geti staðið undir því, sem nú er ráðgert að veiði bætt á fjárl. Það væri betur, að þetta væri búmennska af minni hendi og aðeins sérlega varlega farið. En ég verð að hryggja hv. þm. með því, að þær upplýsingar, sem ég gaf síðast, eru réttar, og þær áttu ekki aðeins við um verðtollinn. — Ég verð að bæta því við, að þegar litið er á tekjurnar í heild á þessu ári, sem af er og áætlaðar tekjur í des., þá get ég ekki séð, að tekjur ríkissjóðs á þessu ári í heild sinni muni fara fram úr áætlun. Og það þýðir verulegan greiðsluhalla, því að það vita allir, að það hljóta að verða einhverjar greiðslur umfram tekjur eftir fjárl. á þessu ári, hversu sem menn leggja sig fram. Það verður því miður greiðsluhalli í ár. Og ég get ekki séð, að af þessu sé hægt að draga aðra ályktun en þá, að það væri alveg óforsvaranleg bjartsýni að gera ráð fyrir, að á næsta ári gætu þessir tekjustofnar staðið undir meiru en gert er ráð fyrir á fjárlagafrv. — Ég vil ekki deila um þetta, en bendi á, að hér er að endurtaka sig sama sagan eins og gerðist í vor. Þá var haldið fram, að óþarft væri að framlengja söluskattinn og að hægt hefði verið að hafa tekjuvonir ríkisins 30–40 millj. kr. meiri en gert var. En það hefði þýtt nú, ef svo hefði verið ráðið, að við hefðum staðið með um 40 millj. kr. greiðslu. halla í árslok. Það er algerlega óhrekjanlegt. Þess vegna vil ég alvarlega vara við þessari bjartsýni hv. þm. og benda á, að það á enga stoð í veruleikanum að treysta svo mjög á þessa tekjustofna sem hv. 8. landsk. þm. gerir. — Ég get vel trúað, að óþægilegt er fyrir flokkana, sem eru í stjórnarandstöðu, að vera með till. um tollahækkanir. Maður skilur það. Hins vegar er óhjákvæmilegt að leggja áherzlu á, að þetta, sem hér er lagt til að gera, er ekki gert af öðru en brýnni nauðsyn. — Ég skal þá líka taka fram viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um launabæturnar og áætlunina þeim viðkomandi, að ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um meiri launabætur en miðað við 122 stig. Og þess vegna er þessi áætlun miðuð við það, sem stjórnin hefur tekið ákvörðun um að greiða.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þessi mál. Þau eru hv. þingmönnum kunn. En ég vil taka það fram, að það var ekki fyrir dónaskap, að ég verð nú að vera fjarverandi ofurlitla stund frá umr., heldur af því, að ég þurfti að koma á framfæri upplýsingum um frv. í hv. Ed. En einhverjir af ráðh. verða hér áfram til að hlýða á það, sem hv. þm. kunna að taka fram um þetta mál umfram það, sem þegar hefur verið gert. Og hér er á eftir annað mál, sem er þáttur í þessu sama.