13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

5. mál, tollskrá o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér um vöruskiptaverzlun, og vék í því sambandi að vöruskiptunum við Austurríki. Ég er að vísu ekki vel kunnugur, en þó nokkuð, þessum málum, en ég veit þó, að vöruskiptin hafa verið óhagstæð fyrir innflutninginn að sumu leyti, því að hveitiverðið hefur verið hátt. En fiskverðið er einnig hátt, og það ber að gæta að því og taka það með í reikninginn. Mér er líka kunnugt um það, að þeir, sem hafa annazt þessi vöruskipti, hafa kvartað undan því, að þeir fengju ekki að ráða því, hvaða vörur þeir keyptu inn með þessum vöruskiptum, og að þeir væru neyddir til að kaupa vörur á óhagstæðu verði af fjárhagsráði. Ráðherrann minntist á vöruskiptin við Ungverjaland, er 1000 tonn af fiski voru seld gegn greiðslu í hveiti, og hugðist sýna fram á það með dæmi sínu, að þessi viðskipti hefðu gefizt illa. Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki rétt, sem komið hefur fram bæði hér og í blöðum, að það hafi verið keypt hveiti fram að þessum tíma á sama verði og þetta hveiti er á, sem kemur sem greiðsla fyrir þennan fisk? Er það ekki rétt, að það hveiti, sem hægt hefur verið að fá í Bandaríkjunum. hafi verið á svipuðu verði og mjög lítið lægra? Og er það líka rétt, að áður hefðum við getað fengið ódýrara hveiti í Kanada fyrir frjálsa dollara? Og stendur það til boða enn að fá hveiti með allmiklu lægra verði frá Kanada en er á ungverska hveitinu, eða hefur verðinu verið breytt þar líka? Og er þá nokkur kostur að kaupa þetta lægra hveiti fyrir frjálsa dollara á annan hátt en selja fisk til Bandaríkjanna með lægra verði en við fáum fyrir hann með vöruskiptunum? Er hægt að afla þessara dollara á annan hátt? Og hefur hæstv. ráðh. gert sér ljóst, að þetta fiskverð, sem við fáum með vöruskiptunum, er svo hagstætt fyrir frystihúsin, að þau fá jafnvel uppbót á þann fisk, sem er seldur til Bandaríkjanna, svo að þau geti staðið undir framleiðslukostnaðinum? Ég held, að það sé nauðsynlegt að láta þetta koma fram, og þar sem ég veit, að hæstv. ráðh. er kunnugt um þessa hluti, þá legg ég þessar spurningar fram.