14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

105. mál, friðun arnar og vals

Bjarni Ásgeirsson:

Ég minntist á það í gær, að ég mundi koma með brtt. við 3. umr. þessa máls, en ég bjóst ekki við, að málið yrði tekið fyrir í dag, og þess vegna hef ég brtt. skriflega. — Ég hef haft fregnir af því, að viðkoma valsins sé orðin mikil og engin hætta á því, að hann yrði aldauða, þótt hann væri ekki alfriðaður fyrst um sinn. En málið er þó fremur lítt athugað nú, og mun því rétt, að valurinn verði friðaður fyrst um sinn. Það er ekki nema rétt, að sérfróðir menn verði látnir kynna sér mál þetta til hlítar, og þess vegna ber ég fram þá brtt., að í stað þess að friða valinn til 1960, þá verði hann nú friðaður um 2 ára skeið. Á þessum 2 árum ætlast ég til að viðkoma fuglsins verði rannsökuð, og ef sú rannsókn gæfi til kynna, að ekki væri þörf að friða hann, a.m.k. ekki allt árið, þá væri hægt að leyfa að drepa hann að þessum 2 árum liðnum, og gæti það þá gefið öðrum fuglum, eins og rjúpunni, einhvern frið. — Og ætla ég nú að leyfa mér að afhenda hæstv. forseta brtt. mína.