14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

105. mál, friðun arnar og vals

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ekki skal ég efast um, að hv. 1. þm. Árn. muni hafa nokkuð fyrir sér í því, að fálkinn sé allfrægur fugl og ekki sízt hér á Íslandi, og er ekki farið fram á það hér að gera neinar ráðstafanir til þess að útrýma honum. Brtt. mín er því ekki flutt í þeim tilgangi, heldur til þess, að hægt væri að ganga úr skugga um, hvort þær fregnir væru réttar, sem ég fekk hér síðast í gær frá sjónarvottum. Og til þess að tími gefist til að rannsaka þetta, vil ég láta friða fálkann enn um skeið, en hætti við að bera fram till. um að ófriða valinn, til þess að þeir menn, sem til þess eru kjörnir að athuga það og önnur náttúrufyrirbrigði, gætu kynnt sér það á næstu tveimur árum, hvort þessi fuglategund er í hættu fyrir því að gereyðast; því að lengst af hefur valurinn ekki verið friðaður og hefur lifað af. — Hitt er rétt hjá hv. 1. þm. Árn., að valurinn er frægur fyrir harðfylgi, dirfsku — og ég man ekki, hvað hv. þm. tiltók það þriðja, ég held grimmd, og hafi hann sagt það, þá er það rétt, og ef mætti líkja nokkrum fugli við eitthvert dýr, sem heldur sig við jörðina, þá mætti líkja valnum við minkinn. Og þykir mér hv. 1. þm. Árn. gera nokkuð upp á milli þessara tveggja barna fósturjarðarinnar. En ég hefði haldið, að þær skráveifur; sem minkurinn gerði, bæði á fuglum og öðru, nægðu, þó að ekki væri verið að hyllast til þess að fá fleiri varga í þau vé og harðari með því að stuðla að óþarflegri offjölgun á valnum.

Hins vegar, viðkomandi því, að hv. 1. þm. Árn. minntist á, að ég vildi sýna rjúpunni litla linkind, þá ætla ég að trúa hv. 1. þm. Árn. fyrir því, þegar um minkinn er að ræða, að það er víst enginn maður meðal þjóðarinnar, sem hefur lagt meira fram til höfuðs minknum heldur en ég. Meðan ég var landbrh., gerði ég margvíslegar ráðstafanir til þess að eyða mink, bæði með því að veita verðlaun úr ríkissjóði fyrir að eyða mink o.fl., svo að ég held, að ég sé ámælislaus af því, að ég vilji miskunna mig yfir minkinn. Hins vegar hef ég ekki getað fallizt á þann skilning hjá þessum hv. þm. og öðrum, að halda, að með því yrði villiminkum útrýmt, að ráðizt væri á og banað þeim fáu minkum, sem eru hér í landinu undir lás og loku, rétt eins og það væri svo óslítanlegt taugasamband milli villiminkanna og þessara alidýra, að um leið og minkarnir í búrunum væru drepnir, þá dæju allir þeir minkar, sem úti um byggðir og óbyggðir landsins hafast við og drepa rjúpu og annað sér til lífsframdráttar. En ég held, að hv. 1. þm. Árn. eigi að líta í miskunn til rjúpunnar, engu síður en til minkanna í búrunum.