24.10.1950
Efri deild: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

9. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er ekki hér í d., en mig langar til að bera fram fyrirspurn í sambandi við þetta mál.

Eins og hv. dm. er kunnugt er tekjuskattur á lagður með þrennu móti: Samkv. l. um tekju- og eignarskatt, samkv. l. um stríðsgróðaskatt og samkv. lögum, sem hér um ræðir. Ég ætla að það sé rétt, að fyrrv. stj. hafi á sínum tíma skipað mþn. til þess að endurskoða skattal. með tilliti til þess, að þessir skattar væru sameinaðir í eitt kerfi. Ég vil því leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvað ríkisstj. hyggst fyrir í þessu efni, hvort hún gerir ekki ráð fyrir að leggja fram frv. í samræmi við þessa endurskoðun, sem gerð hefur verið á tekju- og eignarskattsl. og öðrum l.