13.12.1950
Efri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

9. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Frv. þetta eins og það hefur verið lagt fyrir þingið er um framlengingu á tekjuskattsviðauka fyrir árið 1951, og býst ég við, að allir geti verið sammála um, að tekjuþörf ríkisins hafi á engan hátt minnkað: En fjhn., sem hefur haft þetta mál til meðferðar og mælir með því, að frv. verði samþ., hefur borið fram brtt. með nál. á þskj. 366 um, að þrjár nýjar gr. bætist við. En þar sem þessar brtt. eru fram komnar í samráði við hæstv. fjmrh., þá geri ég ráð fyrir, að hann geri grein fyrir þeim.

Hv. 1. landsk. þm. var ekki kominn á nefndarfund, er málið var afgr., eða ekki fyrr en um það leyti, sem verið var að ljúka afgreiðslu þess, og skrifaði hann því ekki undir nál.