13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að svara því, sem beint var til hæstv. fjmrh. um það, hvað þessi skattur af bifreiðum væri mikill á ári, ég veit það heldur ekki. Hins vegar snertir það mig sem ráðh., sem rætt var um innflutning bifreiða. Það er alveg rétt, að innflutningur er sem stendur bannaður á fólksbifreiðum, og það er ekki líklegt, að mikill innflutningur á þeim verði á næstunni. En það er svona samt. Þetta getur alltaf breytzt, og þess vegna gæti verið óþægilegt, að ekkert stæði í lögunum um skattinn. Setjum nú svo, að Austur-Þýzkaland vildi eingöngu selja okkur bíla fyrir freðfisk. Þá gæti vel verið, að við yrðum að neyðast til að flytja inn bíla, til að geta selt freðfiskinn, jafnvel þó að þeir yrðu dýrir og verðmunur væri svipaður og á hveitinu. Þá er gott að hafa þetta ákvæði í lögum, svo að hægt sé að ná af þeim skattinum.