13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég er hér með 2 brtt., sem ég þarf að fá afbrigði fyrir. Í fyrsta lagi brtt. við brtt. á þskj. 369,2, um að síðasti málsl. 4. málsgr. falli niður.

Út af því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði um þetta, vil ég segja, að ég var ekki að draga það neitt í efa, að það væri eign ríkissjóðs, sem þessir menn innheimta, en ríkið felur þessum mönnum innheimtuna án þess að greiða neitt fyrir hana. Að mestu leyti lendir þetta á þeim, sem selur vöruna síðast til neytandans, t.d. þegar um verzlun er að ræða, þá á smákaupmanninum. Og af því að hv. þm. V-Húnv. sagði, að ég væri stundum að tala um gróða hjá verzlunarmönnum, þá vil ég segja, að ég átti ekki við smákaupmenn og kaupfélög, heldur við hærri staðina. Háttvirtur þingmaður þekkir það vel til sjálfur viðvíkjandi kaupfélögunum, að hann veit, að ekki muni vera mikill gróði á þeirra rekstri. Ég var ekki að draga það undan, að það þyrfti að innheimta þennan skatt. En eitthvað má á milli vera, ef lögreglan á að hafa tafarlausa heimild til að stöðva atvinnurekstur, svo framarlega sem ekki er búið að greiða viðkomandi skatt 30 dögum eftir að hann hefur verið innheimtur. Og þó að deila kunni að standa um skattskylduna, þá getur það eitt hæglega sett mann á höfuðið að lenda í deilu við ríkið um, hvort hann sé skattskyldur eða ekki. Ég held þess vegna, að það sé alveg misskilningur að auka svona í sífellu rétt ríkisins sem innheimtuaðila.

Þá er það í öðru lagi brtt. við sjálft lagafrv. um, að á eftir 1. gr. komi ný gr., svo hljóðandi:

„31. gr. skal þó ekki ná til þeirra bifreiða, er atvinnubilstjórar selja, enda hafi þeir átt þær a.m.k. eitt ár.“

Ég hef ekki getað hugsað nákvæmlega, af því að ég bjóst við brtt. frá meiri hl. n., hvaða skilyrði það opinbera þyrfti að setja í þessu sambandi, til þess að ekki væri hægt að misnota þetta, þannig að menn færu að kaupa bifreiðar til að selja og yrðu þannig aðeins milliliðir í viðskiptunum. Meiningin er sú, að þeir atvinnubilstjórar, sem vilja losa sig úr þessari stétt, vegna þess hve atvinnan er lítil, og eiga alla sína eign í einni fólksbifreið, verða að greiða 20% af eign sinni til ríkisins. Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að margir, sem stundað hafa þessa atvinnu, vilja gjarnan setjast að í sveit. Menn vita, hve mikið fé þarf til þess, og ef þeir nú vilja selja sinn bíl og leggja peningana í búrekstur, þá finnst mér, að ekki eigi að taka 20% af eign þeirra. Mér finnst ákaflega sanngjarnt, að þessum mönnum, sem vilja losna úr stéttinni, sé gert það þægilegt. Og með þessu, sem ég bætti við, „ ... enda hafi þeir átt þær a.m.k. eitt ár“, ætti það að vera tryggt, a.m.k. næsta ár, að menn færu ekki að kaupa bifreiðar til að selja þær aftur, enda eru nægilegar heimildir í lögum til að koma í veg fyrir það.

Ég vil mælast til, að þingmenn og ríkisstjórn íhugi, hvort þeim finnst þetta ekki sanngjarnt. Ég skal ekki segja, hve mikið af þeim tekjum, sem ríkið hefur haft af söluskattinum, hefur verið frá atvinnubílstjórum; líklega hefur það verið mjög lítið, svo að ég gæti trúað, að tap ríkisins af þessu yrði ekki mikið, en þetta væri áreiðanlega réttlætismál.

Mér finnst nú, þegar hæstv. ríkisstj. kemur á þessu eina kvöldi með álögur, sem nema 81/2 millj. kr., sé ekki of mikið, þó að hún létti þarna undir. Ég veit eiginlega ekki, hvers bifreiðastjórar í Hreyfli og Þrótti ættu sérstaklega að gjalda frá hálfu hæstv. ríkisstj. og hennar flokka, ef ekki er hægt að verða við svona litlum og sanngjörnum kröfum. Ég vil eindregið mælast til þess, að hv. þdm. geti samþ. þessar brtt.

Þá ætla ég að víkja að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði viðvíkjandi innflutningi fólksbifreiða. Ég heyri á honum, að hann er farinn að hafa áhuga á viðskiptum við A.-Þýzkaland. Ég held nú, að jafnvel þó hægt væri að gera viðskiptasamning við A.-Þýzkaland upp á að flytja fólksbifreiðar hingað, þá ætti ekki að gera það. Ég held, að fólksbifreiðar séu eitt af því fyrsta, sem ætti að setja í þann flokk vörutegunda, sem ég lagði til í því frv. mínu, sem legið hefur í 2 mánuði fyrir Alþingi og ráðh. er ekki farinn að kynna sér ennþá. Það ætti að vera eitt af því fyrsta, sem bannað væri að flytja til landsins, og ekki gera neinn möguleika á, að það væri hægt. Ég tel hins vegar víst, að í einhverju landi mætti fá bifreiðar fyrir íslenzkar vörur, og selja svo bifreiðarnar til annars lands og fá fyrir þær vörur, sem við þurfum á að halda, og það veit hæstv. ráðh., að það eru víða miklir möguleikar á slíkri verzlun, og það er slíkur þríkantur, sem er auðvelt að gegnfæra í viðskiptum, og gæti verið mjög heppilegur. En ég álít, að við eigum ekki að hafa neina smugu í lögunum, sem hægt væri að nota sem átyllu til að flytja inn bifreiðar. Það er einmitt þessi aðferð, sem ég kann ákaflega illa við, þ.e. að hafa alltaf möguleika til sífelldra undanþágna. Ef það er bannað með lögum að flytja inn bifreiðar, en í þeim lögum felst möguleiki til að veita undanþágur, þá mun sífellt verið að nöldra við ríkisstjórn og fjárhagsráð um að flytja þessa hluti inn. Og ef það eru réttir menn og rétt firmu, sem áhuga hafa á innflutningnum, þá væri kannske veitt undanþága, og þetta mundi beinlínis leiða til spillingar í þjóðfélaginu. Ef Íslendingar álita, að þeir hafi ekki efni á að flytja inn bifreiðar, þá á engar að flytja inn. Ef við álítum samt, að einhver flokkur manna þurfi að fá fólksbifreiðar fluttar inn, t.d. læknar, þá ætti jafnvel að ákveða í lögum tölu þeirra bifreiða. En þetta, að láta þessar hliðardyr standa opnar og hafa þannig möguleika til sífellds áróðurs við þá, sem með þetta hafa að gera, þ.e. ríkisstjórn og fjárhagsráð, það er ópraktískt fyrir þá sjálfa og leiðir til spillingar. Og hvað snertir þessi verzlunarviðskipti, sem hv. viðskmrh. var að minnast á, þá mundi það beinlínis gera enn þá verri aðstöðuna fyrir þeim mönnum, sem vöruskiptaverzlun ætla að gera erlendis, ef það land, sem þeir flytja vöruna til, vill selja þeim bila í staðinn, og ef þeir vita, að það er ekki bannað, fara viðkomandi menn e.t.v. að flytja þá inn. Þess vegna er miklu betra að banna það, og þannig ætti að vera með fleiri vörutegundir, sem við höfum ekki efni á að flytja inn.

Þetta var viðvíkjandi þeim athugasemdum, sem fram komu. Ég vil aðeins geta þess viðvíkjandi því, er hæstv. viðskmrh. kom inn á, hvað ég hafði sagt, þá held ég, að hann hafi ekkert vitað um það, því að hann hafi ekki hlustað á það og geti því lítið vitað, hvað ég hef sagt. Ég hef sagt, í samræmi við það mál, sem ég hef lagt fyrir og hæstv. ráðh. hefur ekki haft tíma eða áhuga á að kynna sér, að vöruskipti við A.-Þýzkaland ættu ekki að fara fram í sambandi við bíla, en allar þær vörutegundir, sem ég veit, að hægt er að fá frá A.-Þýzkalandi, eru taldar upp í grg. fyrir frv. mínu.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þennan stóra, nýja 5 millj. kr. skatt, sem hér liggur fyrir. Ég vil ekki tefja fyrir þessu máli, þó að það sé á allan hátt þannig inn komið á þingið, að segja megi, að það sé tæpast forsvaranlegt af ríkisstj. að láta afgreiða svona álögur við 3. umr. og á síðara degi hennar, að koma eiginlega við 6. umr. með þetta stórar breytingar og láta þær ganga í gegn á þennan hátt.

Ég vil svo biðja forseta að leita afbrigða fyrir þessum 2 skriflegu brtt.