13.10.1950
Sameinað þing: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

1. mál, fjárlög 1951

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 1951 er nú til 1. umr. hér á Alþingi, tel ég rétt að gera nokkurn samanburð á því og fjárlögum síðasta árs, svo að í ljós komi, hvort um stefnubreytingu er að ræða hjá hæstv. ríkisstj. frá því, sem áður var. Enn fremur er vert að líta yfir afkomu atvinnulífsins, þá þróun, sem þar er að verða, og möguleika þess til að halda uppi fjárhagsafkomu ríkissjóðs með þeirri stjórn, sem nú er á þeim málum. Skal þá fyrst víkið að efni frv. Viðvíkjandi tekjuhlið frv. er það alláberandi, að aðaltekjuliðir eru áætlaðir lægri en fyrr. Þannig er tekju- og eignarskattur áætlaður 5 millj. lægri, 35 í stað 40 áður. Vörumagnstollur 4 millj. lægri og verðtollur 5 millj. lægri. Er þetta sérstaklega athugavert með verðtollinn, sem einmitt átti að hækka stórkostlega við gengislækkunina, ef innflutningur héldist í sama horfi. Nú er það viðurkennt í greinargerð frv., að gera verði ráð fyrir a.m.k. 20% minni innflutningi en varð s.l. ár, og á því byggist þessi áætlun. Skal ég nú ekki rengja þetta, en mun síðar að því koma, hvað þeim ósköpum veldur, að árangur hinna margumtöluðu viðreisnarráðstafana frá síðasta þingi skuli vera þessi.

Tekjuáætlun síðustu fjárlaga nam 298 millj. 334 þús. kr., en tekjuáætlun frv. 287 millj. og 488 þús., eða nærri því 11 millj. kr. lægri.

Þegar athugaðir eru gjaldaliðir frumvarpsins, kemur fljótt í ljós, að á flestum rekstrarliðum er um hækkun að ræða og víða allverulega.

Kostnaður við stjórnarráðið hækkar úr 3 millj. 363 þús. kr. í 4 millj. 214 þús., eða 851 þús. kr., eða 25%.

Dómgæzla og lögreglustjórn hækkar um 2 millj. 769 þús., eða ca. 21%.

Opinbert eftirlit hækkar um tæp 200 þús. eða rúml. 21% hvað niðurstöðutölur snertir, en raunverulega miklu meira, því að margar stofnanir, er undir það heyra, færa hækkaðar tekjur á móti hækkuðum gjöldum.

Innheimta tolla og skatta hækkar um 1 millj. 180 þús., eða um 20%, og sameiginlegur kostnaður við embættisrekstur um 200 þús.

Þá vekur það einnig eftirtekt, að dýrasta ríkisstofnunin, fjárhagsráð og undirdeildir þess, sem undanfarin ár hafa kostað miklu meira fé en Alþingi, er nú tekin út af frv. Mætti e.t.v. álykta; að tilætlunin sé að leggja þessar stofnanir niður í sparnaðarskyni. Svo er þó ekki, sem fram kemur í athugasemdum við frv., þar sem sagt er, að ekki sé vitað um, hvers kostnaðar megi vænta af eftirliti með gjaldeyrisverzlun og verðlagi á næsta ári. En fullvíst megi telja, að kostnaður verði eigi meiri en leyfisgjöldin. — Svo mörg eru þau orð. Á síðustu fjárlögum var þessi kostnaður áætlaður 31/2 millj. kr., en tekinn með leyfisgjöldum, sem allur landslýður varð að greiða. Væri gott ef fyrirhugaðar breytingar gætu minnkað þennan kostnað, en eftir reynslunni mun þess tæplega að vænta.

12. gr., heilbrigðismálin, hækkar um nærri 3 millj. kr., eða rúm 18%.

14. gr., kirkju- og kennslumál, hækkar um 7 millj. 424 þús., eða ca. 20%.

16. gr. A, landbúnaðarmálin, hækkar um 4 millj. 124 þús., eða sem næst 8%.

17. gr., til félagsmála, hækkar um 123 þús., sem er smávægilegt, og 18 gr. hækkar um 4 millj. 360 þús., eða 21 %.

Þessar upphæðir, sem ég hef hér nefnt og allar eru til hækkunar á beinum rekstrargjöldum ríkisins eða stofnana þess, nema samtals rúmum 18 millj. kr., en eru þó alls ekki tæmandi. Þótt hér vegi á móti nokkur upphæð, sem greidd er í uppbætur á laun opinberra starfsmanna á þessu ári, þá heldur hér sýnilega áfram hin sama þróun og mest hefur verið umrædd hin síðustu ár og síðustu ríkisstjórnir og flokkar þeirra hafa talað djarft um að afnema.

En til þess að gefa rétta mynd ber einnig að athuga, hver útgjöld eru dregin saman, því að svo er í nokkrum atriðum. Skal það nú gert.

Á 10. gr. III., utanríkismál, er gert ráð fyrir að fella niður fjárveitingu til sendiráðsins í Moskva. Segir í athugasemdum, að stjórnin muni leggja til, að þetta sendiráð verði lagt niður. Eins og flestum mun kunnugt, var fyrst tekið upp stjórnmálasamband við Sovétríkin undir stríðslokin. Árangurinn kom fljótt í ljós. Hagkvæmir viðskiptasamningar voru gerðir við Sovétríkin bæði árið 1946 og 1947. Fyrra árið nam samningsupphæðin rúml. 74 millj. kr., en síðara árið 961/2 millj. Sendiráðið þykir dýrt, m.a. vegna þess, að þegar Íslendingar og aðrar þjóðir Vestur-Evrópu lækkuðu sitt gengi eftir vestlægri fyrirskipun, þá hækkuðu Rússar sína mynt. Eftir öllum eðlilegum viðskiptareglum ætti þetta hvort tveggja að auðvelda okkar markaðsmöguleika við þessar þjóðir. En nú ætlar hæstv. ríkisstj. að spara með því að leggja sendiráðið niður og loka þar með um ófyrirsjáanlegan tíma óllum markaðsmöguleikum í þessum fjölmennu löndum. Hún mun þykjast hafa nægilega mikla og góða markaði vísa annars staðar. Hins vegar virðist hún telja nauðsynlegt að halda uppi þremur sendiráðum á Norðurlöndum, Danmörku, Svíþjóð og Noregi, þar sem mörgum öðrum mun sýnast að eitt nægi.

Þá er á 13. gr. A, vegamál, lækkað framlag til nýrra akvega um 350 þús. kr. Og enn fremur er framlag til brúargerða lækkað um 1/2 millj. kr., úr 3 millj. í 21/2 millj., en gert ráð fyrir hækkun á fé brúarsjóðs. — Þá er framlag til hafnargerða og lendingarbóta lækkað um 745 þús., framlag til hafnarbótasjóðs lækkað um 1 millj. og framlag til ferjuhafna, sem var 150 þús., fellt niður.

Samtals er því gert ráð fyrir, að framlög til þessara verklegu framkvæmda, vega, brúa og hafnargerða, lækki um 2 millj. 785 þús., en að vísu bæti aukið fé brúarsjóði upp lækkunina á brúarfénu. Er hér vægast sagt um að ræða mjög hæpinn sparnað miðað við atvinnuhorfur á öðrum sviðum í landinu. Kostnaður við samgöngur innanlands er áætlað að lækki um rúma milljón, er byggjast mun á hækkaðri tekjuáætlun Skipaútgerðar ríkisins fram yfir hækkaðan kostnað.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að B-liður 16. gr., sjávarútvegsmál, lækki um 4 millj. 375 þús. Byggist þessi lækkun aðallega á því, að niður falli framlag samkv. lögum nr. 1 1950 um að lækka framleiðslukostnað bátaútvegsins, en það var á síðustu fjárlögum 1 millj. 700 þús., og enn fremur falli niður greiðsla á sjóveðum síldveiðiskipa, 1 millj 500 þús., sem síðustu fjárlög gerðu ráð fyrir að greitt yrði fyrir síldarvertíðina 1949. En því miður mun hæpið að telja þennan sparnað raunhæfan, miðað við útkomuna á síðustu síldarvertíð.

Þá skal að lokum minnzt á eina útgjaldalækkun, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er liðurinn til dýrtíðarráðstafana á 19. gr. Á síðustu fjárlögum voru áætlaðar til þeirra 33 millj. kr. Á þessu frv. eru þær 25; 8 millj. minni. Verður það tæplega skilið öðruvísi en svo, að hæstv. ríkisstj. telji baráttu sína gegn dýrtíðinni hafa borið svo góðan árangur, að nú þurfi fjórða parti minna fé til að halda henni niðri. Þá er heldur ekki furða þótt aðalmálgagn Framsfl., Tíminn, sem um ekkert gat talað annað fyrir nokkrum árum en verðbólgu, er nú steinhættur að minnast á þá óvætt, steinhættur að tala um verðbólgu.

Þannig lítur þá þetta frv. út í stuttu máli. Tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar lækkandi vegna vaxandi erfiðleika atvinnuveganna, minnkandi innflutnings nauðsynjavara og versnandi efnahags einstaklinga og þjóðar. Rekstrarútgjöld ríkisins, bæði vegna sjálfs stjórnarkerfisins og annarrar starfsemi, sem það hefur með höndum, hækka svo milljónum skiptir. Til þess að vega á móti þessu hvoru tveggja er leitazt við að draga úr framlögum til verklegra framkvæmda eftir því sem fært þykir og framlög til að halda niðri vöruverði lækkuð um 8 millj. kr., og eins þótt verðhækkanir á nauðsynjavörum séu nú svo örar, að með hverri viku sem líður fær fólk rýrari vöruskammt fyrir tekjur sínar.

„Viðreisn atvinnuveganna“. S.l. þrjú til fjögur ár hafa þessi orð verið kjörorð þeirra íslenzkra borgaraflokka þriggja, sem stjórnað hafa landinu, og sífellt gal um frelsi og lýðræði.

Meðan nýsköpunarstjórnin var við völd og lagði grundvöllinn að stórkostlegri framleiðsluaukningu ásamt árangursríkri öflun nýrra markaða fyrir framleiðsluna (sbr. fyrrnefnd viðskipti við Sovétríkin, sem tókst að koma á fyrir forgöngu Sósfl., meðan hann var í stjórn), gat Framsókn ekki talað um annað en dýrtíð og verðbólgu. Nú hafa þessir þrír flokkar farið með völdin nærri fjögur ár, alltaf verið að gera viðreisnarráðstafanir, alltaf verið að skapa heilbrigt ástand, alltaf verið að berjast gegn verðbólgu og dýrtíð.

Hvernig er svo ástandið í atvinnulífinu eftir fjögurra ára stjórn þessara flokka? Heimildir um það eru tiltölulega auðfengnar, en til þess að eiga síður á hættu ásakanir frá andstæðingum um að fara með rangt mál, skal ég vitna í upplýsingar eins aðalforsprakka þeirrar stjórnarstefnu, sem þessi ár hefur verið fylgt, viðskmrh. — og raunar kom allt hið sama fram í ræðu hæstv. fjmrh. Fyrir hálfum mánuði flutti þessi ráðherra útvarpsræðu, sem einnig var birt í blöðum íhaldsins og gerir þessi mál að umtalsefni. Þar gerir hann samanburð á útflutningstekjum þjóðarinnar árin 1948–49 og væntanlegum útflutningstekjum í ár. Er niðurstaðan sú, að 1948 nam útflutningurinn 690 millj. kr., miðað við núverandi gengi, 1949 404 millj. og í hæsta lagi megi áætla á þessu ári 450 millj. Þótt þessi áætlun standist, sem hæpið mun vera, er hér um að ræða 240 millj. kr. mismun, eða meira en þriðjungslækkun frá 1948. Engin trygging er fyrir því, að hér sé komið á lægsta punktinn. Fyrirsögn þessarar greinar er eftirtektarverð og hljóðar svo: „Margs konar aðsteðjandi örðugleikar, aflabrestur, verðfall afurða, þrenging markaða, verðhækkanir á nauðsynlegum innflutningi og vinnustöðvanir seinka fyrir jákvæðum árangri gengisbreytingarinnar.“

Þegar slagurinn stóð um gengislækkunina á síðasta þingi, var því óspart haldið fram af formælendum hennar, að hún væri óbrigðul viðreisn atvinnuveganna, fyrst og fremst útflutningsframleiðslunnar. Það er rétt að rifja upp aðalloforðin, sem stjórnarherrarnir gáfu þjóðinni í sambandi við hana. Hún átti að hækka fiskverðið upp í 90 aura á kg (sbr. bls. 45 í greinargerð frv.). Hún átti að hækka útflutningstekjur þjóðarinnar (sbr. bls. 46 í grg.). Hún átti að létta höftum af verzluninni, þ.e. skapa frjálsa verzlun (sbr. bls. 54). Hún átti að afnema svarta markaðinn og minnka verzlunarálagninguna og bæta þannig hag neytendanna (sbr. sömu bls.). Og síðast en ekki sízt átti hún að skapa jafnvægi á milli innlends framleiðslukostnaðar og erlends markaðsverðs og þannig að tryggja okkur sölumöguleika fyrir framleiðsluvörurnar.

Þegar sex mánuðir voru liðnir frá því að íslenzka þjóðin meðtók þessa blessun, fann hæstv. viðskmrh. sig neyddan til að koma í útvarpið og skýra fyrir þjóðinni ástæðurnar til þess, að enginn einasti maður hafði orðið var við þann blessunarríka árangur, sem lofað var, nema vera skyldi blaðamenn Framsóknar og íhaldsins og eigendur þeirra verzlunarfyrirtækja, sem í mestri náð eru hjá innflutningsyfirvöldunum og safnað gátu vöruforða síðasta tímann áður en hún var lögfest, til að selja með hinu hækkaða verði síðar. Og boðskapur ráðherrans var þessi: Þjóðin verður að vera róleg. Gengislækkunin hefur að vísu ekki náð tilgangi sínum enn þá. En það er vegna þess, að það kom aflabrestur. Íslenzkar afurðir eru að falla í verði á erlendum markaði, markaðirnir eru að þrengjast, erlendar vörur eru að hækka í verði, og svo hafa orðið vinnustöðvanir, sem hjálpa til að seinka jákvæðum árangri. — Það er vert að athuga hverja þessa viðbáru fyrir sig.

Aflabrestur. Satt er það, síldveiðin brást. Það hefur hún gert fyrr. Ég man nú ekki til þess, að það kæmi fram í umræðum um málið á þingi í fyrra, að neinn úr ríkisstj. eða flokkum hennar gerði sér von um, að gengislækkunin kæmi í veg fyrir aflabrest. En auðvitað get ég ekki fullyrt neitt um það, nema einhverjir hafi gert sér von um það undir niðri, þótt ekki væri látið á því bera.

Verðfall íslenzkra afurða. Var það ekki talinn einn aðalkostur gengislækkunarinnar, að hún gerði vörur okkar færar um að keppa á heimsmarkaði? Var ekki verið að segja okkur í vor, að nú væru að skapast stórkostlegir markaðir í Bandaríkjum Norður-Ameríku vegna þess, að nú var tvisvar búið að lækka krónuna gagnvart dollaranum? Var þetta allt saman blekking? Þarf þriðju gengislækkunina til að ná þessu marki? E.t.v. á Benjamín að koma aftur í vefur til að undirbúa hana.

Þrenging markaða. Um það atriði segir ráðherrann í kafla, sem ber undirfyrirsögnina „Bylting í markaðsmálunum“:

„Útflutningur á ísfiski, það sem af er þessu ári, er um 23 974 tonn á móti 120 þús. tonnum alls árið 1949. Getur því engum dulizt, að markaðshrun svo skyndilegt og mikið sem þetta á aðalframleiðslu lítillar þjóðar hlýtur að reyna svo á efnahagskerfi hennar, að það gnötrar á grunni.“

Og ekki er ástandið með freðfiskinn betra samkvæmt upplýsingum frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem blöðin birtu fyrir þremur dögum. Þar segir svo, að í stað 26 þús. tonna af hraðfrystum þorskflökum, sem framleidd voru 1948, hafa nú á þessu ári verið framleidd aðeins 9640 tonn, eða rúmur þriðjungur venjulegrar framleiðslu. Af þessu eru 1900 tonn útbúin og pökkuð fyrir Bandaríkjamarkað, og er útlit fyrir sölu á því þar 20% undir framleiðsluverði. Það er ekki furða, þótt fjmrh. talaði hér um gengislækkun og nýja markaði í Bandaríkjunum. Fyrir Evrópumarkað voru fryst 7710 tonn, og af þeim eru óseld enn þá 4200 tonn. M.ö.o., með því fyrirkomulagi, sem nú er á verzlunarmálunum, er aðeins von um sölu á 5400 tonnum af frystum þorskflökum í stað 25–27 þús. tonna, sem framleiðslan hefur verið. Það er ekki furða, þótt ráðherrann tali um byltingu í markaðsmálunum. En hvað var fullyrt, þegar gengislækkunin var lögfest fyrir 6 mánuðum? Þá var reynt að telja þjóðinni trú um, að við fengjum næga sölumöguleika. Byltingin varð nefnilega þveröfug við það, sem stjórnarherrarnir og fylgismenn þeirra bjuggust við.

Það, sem hér er að gerast, er nákvæmlega það sama, sem við sósíalistar höfum ætíð haldið fram, að okkur mundi verða sparkað út af mörkuðum Marshalllandanna, þegar þar væri ekki lengur þörf fyrir framleiðslu okkar, þegar fiskveiðaþjóðir Vestur-Evrópu hefðu komið sinni framleiðslu á kjöl að nýju. Þetta er einnig yfirlýst af sjálfum Íslandssérfræðingi Marshalláætlunarinnar strax árið 4949, þegar hann sagði, að framleiðsla Íslendinga mundi litla þýðingu hafa fyrir svæðið eftir 1950. Af okkar hálfu hefur margoft verið á það bent, í hvílíkum voða þjóðin væri stödd efnalega, þegar þetta kæmi fyrir, ef ekki væri haldið í og efldir eftir ýtrustu getu þeir markaðir, er búið var að ná í annars staðar. Nú leggur ríkisstj. til að loka enn betur dyrunum til viðskipta við þá þjóð, sem stærsta viðskiptasamninga og að mörgu leyti hagkvæmasta hefur gert við okkur síðan stríðinu lauk, og á það við stóra samninginn við Sovétríkin 4947, 961/2 millj., þegar ásamt fleiru var samið um sölu á 15 þús. tonnum af freðfiski, vörunni, sem við erum nú að hætta framleiðslu á, af því að Marshallsvæðið neitar svo að segja að kaupa hana.

Verðhækkanir á nauðsynlegum innflutningi var eitt atriðið í hinni stóru fyrirsögn greinarinnar, sem ráðherrann telur að hafi seinkað jákvæðum árangri gengislækkunarinnar. Vera má, að tryggustu fylgismenn stjórnarflokkanna hafi virkilega lagt trúnað á þær fullyrðingar, að verðlag mundi ekki hækka nema í hæsta lagi 11–13%, eins og stendur í álitsgerð hagfræðinganna, sem frv. fylgdi. Og hafi nokkur virkilega lagt trúnað á það, mun hann hafa komizt að raun um annað nú, a.m.k. virðist ráðherrann hafa skipt um skoðun. En hver þurfti að efast um það, að gengislækkun, sem hækkaði fob-verð innflutningsins um 73,4%, mundi hækka verðlag í landinu meira en 11–13%? Nei, það virðist liggja opið fyrir hverjum manni með heilbrigða skynsemi, að aðalverkanir gengislækkunarinnar yrðu einmitt þær, sem orðið hafa. Og svo kemur viðskmrh. og segir þjóðinni, að það sé bara eðlilegt, að jákvæður árangur hafi ekki náðst, vegna þess að það urðu allt í einu verðhækkanir á nauðsynlegum innflutningi.

Vinnustöðvanir eru síðasta atriðið af þessum fimm, sem ráðherrann nefnir, og tekur þar sérstaklega til dæmis stöðvun togaraflotans. Já, stöðvun togaraflotans er eitthvert ljósasta dæmið um Bakkabræðrastjórn þá, sem ríkir í atvinnumálum Íslendinga. Það vill nú einmitt svo til, að togaraútgerðin var svo að segja eina grein útflutningsframleiðslunnar, sem líkur voru til, að hagnazt gæti á gengislækkuninni. Og nú hefur meiri hluti þessa flota verið stöðvaður svo að mánuðum skiptir. Á yfirborðinu er látið líta svo út sem hér sé eingöngu um að ræða kaup- og kjaradeilu og þá fyrst og fremst það, hvort sjómennirnir eiga að vinna 12 eða 16 tíma á sólarhring. Í því sambandi er vert að minnast þess, að á undanförnum þingum hafa sósíalistar flutt frv. um lögbindingu 12 stunda vinnudagsins. Hefði það fengizt samþykkt, hefði ekki þurft að koma til þessarar deilu út af því atriði. En hver maður, sem inn í þessi mál skyggnist og kann að leggja saman tvo og tvo, veit það, að hér liggur önnur ástæða einnig til grundvallar. Markaðurinn var hruninn, eins og ráðherrann lýsti.

Hvorki útgerðarmennirnir né ríkisstj. hafa kært sig um að leysa þessa deilu. Þeim er þægilegra að nota verkfallið sem átyllu til að láta togarana liggja en að leggja þeim án slíks og viðurkenna þannig hið algera skipbrot, sem hinar stórkostlegu viðreisnarráðstafanir þeirra hafa beðið. Það er þægilegra bæði fyrir togaraeigendur og ríkisstj. að kenna sjómannastéttinni um þessa stöðvun. Og það er Bakkabræðrastjórn Alþfl. á málefnum sjómannastéttarinnar, sem reynir að hjálpa til að losa ríkisstj. við ábyrgðina. Hins vegar hafa karfaveiðar Norðfjarðar- og Akureyrartogaranna sýnt, hve mikilla verðmæta hefði mátt afla, ef allur flotinn hefði stundað þær, þótt ósamið væri um kjörin á þorskveiðunum.

Þannig er ástandið, eftir nærri fjögurra ára stjórn hinna þriggja borgaralegu lýðræðisflokka, og þannig eru horfur með afkomu þeirrar útflutningsframleiðslu, sem á að standa undir 300 millj. kr. fjárlögum.