05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er einkum tvennt, sem rétt er í upphafi 2. umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1951 að þakka. Í fyrsta lagi það, að fjárlfrv. var lagt fram af hæstv. fjmrh. sem fyrsta mál hér á Alþ., og er það eins og vera ber og þess vegna ber þá að þakka það og einkum sökum þess, að mörg undanfarin ár hefur það verið svo, að hálfur mánuður og jafnvel þrjár vikur hafa liðið af tíma þingsins, án þess að fjárlfrv. hafi verið lagt fyrir, en samkv. stjskr. ber að leggja fjárlfrv. fram í upphafi þingsins. Því ólagi, sem á var komið, hefur verið kippt í lag, a.m.k. í bili, og í öðru lagi er útlit fyrir, — sem að vísu er afleiðing af þessu, — að takast megi að afgreiða fjárl. áður en það ár hefst, sem þau eiga að gilda fyrir, og eru þetta stórkostlegar framfarir frá því, sem verið hefur undanfarin ár, því að það hefur verið svo s.l. ár, að fjárl. hafa ekki verið afgr. fyrr en í maí- eða júnímánuði, þegar helmingurinn af fjárhagsárinu hefur verið liðinn. Þetta er líka skýlaust brot á stjskr., því að í henni segir ótvírætt, að engar greiðslur megi inna af höndum, nema heimild sé til þess í fjárl. En nú er svo komið, út af þessu ólagi, að mestallt fjárveitingarvald Alþ. er komið úr höndum þess, og má raunar segja, að þar sem fjmrh. hafa undanfarin ár stjórnað landinu fjárlagalaust fyrri helming ársins og síðan skákað í skjóli fjáraukal., þá sé ekki fjarri sanni, að þeir hafi haft þarna fjármálaeinræði. Í annan stað má auðvitað þakka það, að fjárl. verða afgr. fyrir 1. janúar, rösklegri verkstjórn form. fjvn., og á hann auðvitað þakkir skilið fyrir það. Það er ekki nema um það bil 11/2 mánuður síðan frv. var fengið fjvn., og hefur hún nú að þessum tíma liðnum skilað frv. til 2. umr. Það er alveg áreiðanlegt, að þetta hefði verið hægt fyrr og hefði átt að gera fyrr.

Það er að vísu svo, að þótt það sé gott, að fjárlfrv. komi fram á réttum tíma og sé afgr. í tæka tíð, þá skiptir þó annað enn þá meira máli, og það er það, að vel og röggsamlega sé snúizt við þeim vanda, sem leysa á með afgreiðslu fjárl. En um það atriði verð ég því miður að segja það, að á þessu fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, virðist nokkurn veginn hafa verið ýtt frá sér mesta vandanum, sem fyrir lá, úrlausninni skotið á frest og a.m.k. ekki enn þá séð, hvernig aðalvandamálin verði leyst. Það má vel vera, að hæstv. fjmrh. hafi gengið það til að koma frá sér fjárlfrv. að einhverju leyti vegna þess, að svona var snúizt við aðalvandamálunum. Það er náttúrlega ekki eins tímafrekt að ýta þeim til hliðar eins og að finna úrræði til að leysa þau. Aðstoð við atvinnulífið er ekki að finna í þessu frv., og er þó atvinnulífið víða um land því miður í nauðum statt.

Það hefur nokkuð verið talað um sparnað í sambandi við þetta fjárlfrv. Hæstv. ráðh. minntist á nokkur atriði í sparnaðarátt, þegar hann lagði frv. fram og hélt sína framsöguræðu, og síðan hefur í blöðunum oft verið minnzt á það, að nú gætti verulegs sparnaðaranda hjá hæstv. ríkisstj., og auðvitað segir slíkur andi til sín fyrst og fremst í afgreiðslu fjárl., annars væri þetta marklaust hjal. Það væri vissulega gleðilegt, ef nú væri brotið í blað um eyðslustefnu undanfarinna ára og nýir hættir teknir upp, þannig að sparnaður væri aðalsmerki þessa fjárlfrv. Það væri alls ekki ótímabært, eins og atvinnuástandið er núna í landinu. En því miður er sparnaðartalið eða sparnaðargalið meira í orði en á borði. Ég sé enga stefnubreytingu í þá átt í þessu fjárlfrv., þar er alls enginn niðurskurður á lítt þörfum eða óþörfum greiðslum. Allflestir liðir fjárlfrv. hækka, kannske að miklu leyti af eðlilegum ástæðum, þ.e. sem afleiðing af gengislækkuninni. Margir liðir fjárlfrv. hljóta að hækka beinlínis vegna þess, enda stendur á ekki mjög fáum stöðum í aths. hæstv. fjmrh. með fjárlfrv.: hækkar vegna gengislækkunarinnar — eða: hækkar sem nemur gengisbreytingunni. — Þessar hækkanir eru auðvitað ekkert nema eðlilegar afleiðingar af því, sem gert var, sem hlaut auðvitað að koma í ljós allvíða í þessu fjárlfrv. — Það eru þó óneitanlega nokkrir liðir í fjárlfrv., sem lækka. En það er það sorglega við það, að það eru einkum þeir liðir, sem lúta að atvinnumálum og verklegum framkvæmdum ríkisins. Þeir hafa lækkað verulega, jafnvel meira hlutfallslega en nokkrir aðrir liðir frv. Þeir hafa í bezta tilfelli staðið í stað, en í mörgum tilfellum lækkað um hundruð þúsunda og í sumum tilfellum um milljónir. Það er þetta, sem er aðalsmerki á þessu fjárlfrv. fyrir árið 1951, svo fagurt sem það er. Það er að vísu rétt, að það eru lögð niður nokkur embætti, nokkur alóþörf embætti. Það er t.d. lagt niður embætti loðdýraræktarráðunautar, sem auðvitað var eðlilegt, eftir að búið var að gera jafnharða hríð að loðdýrunum og gert hefur verið hér á Alþ. Auðvitað hlaut þá röðin að koma að loðdýraræktarráðunautinum sjálfum, en auðvitað kom röðin síðast að honum, og nú á að leggja þetta embætti niður, sem er rétt ráðstöfun hjá hæstv. fjmrh. — Það er líka réttmætt að leggja niður embætti veiðimálastjóra. Þetta embætti var stofnað fyrir nokkrum árum síðan. Það blómgaðist vel. Í fyrstu var nú auðvitað embættið í einni skrifstofu, síðan urðu þær tvær, starfsfólki var fjölgað og komið upp bókasafni um fiskirækt, þannig að kostnaður við embættið fór auðvitað sívaxandi. En svo gerðist það, að embættismaðurinn fékk arf, fyrst innanlands og svo í öðru landi, og fór svo fram á það við sína ástkæru ríkisstj., að hann mætti rækja embættið frá kóngsins Kaupmannahöfn, en fékk þó ekki leyfi landbrh. til þess. Þetta sætti harðri gagnrýni í sambandi við afgreiðslu fjárl. s.l. ár, og nú er það auðvitað gert, sem óumflýjanlegt er að gera, að leggja embættið niður, þegar svona var komið. Þetta var auðvitað hneykslismál, og hæstv. fjmrh. á þakkir skilið fyrir það að hafa bundið endi á þetta hneyksli.

Þá hefur hæstv. fjmrh. einnig boðað, að embætti skattdómara verði lagt niður. Þó þarf líklega lagabreytingu til þess, en frv. um það hef ég ekki séð enn þá. (Fjmrh.: Það liggur fyrir þinginu.) Það er alveg tvímælalaust, að viðkomandi embættismaður hefur verið ákaflega umsvifalítill í embættinu árum saman og lítið gert til þess að hafa hendur í hári skattsvikara, þrátt fyrir það að mikið hafi verið talað um, að mikil brögð væru að skattsvikum í þessu landi. Kröfur hafa því komið fram um það, að embætti skattdómara yrði lagt niður. Nú má vel vera, að þetta embætti sé lagt niður sökum þess, að reynslan hafi verið talin sanna, að það bæri lítinn árangur. En það hefur þó flogið fyrir, að það hafi fyrst fengið byr að leggja þetta embætti niður, þegar viðkomandi embættismaður var svolítið farinn að hreyfa sig í embættinu og farinn að rannsaka nokkur skattsvikamál og útlit var fyrir, að viss fyrirtæki, sem óneitanlega áttu skjólstæðinga innan hv. stjórnarflokka, hafi verið orðin viðriðin málið og fengið hugboð um, að skattsvikunum yrði komið hér upp. En ég skal ekkert fullyrða, að þetta hafi verið ástæðan, en ég hef alltaf haldið mig við þá hugmynd, að þetta embætti ætti að leggja niður, af því að það hefur reynzt gagnslaust. Ég hefði þó talið nær að kippa ólaginu í lag með því að breyta löggjöfinni um dómara í skattamálum á þann veg, að dómarinn gæti haft frumkvæðið í slíkum málum og skattstjóra væri skylt að hafa við hann samstarf, svo að hann gæti þannig sjálfur í raun og veru gripið í strenginn, þegar honum þætti við þurfa. En löggjöfin er þannig, eða svo er að minnsta kosti talið af fróðum mönnum í þeim sökum, að skattdómarinn hafi mjög slæma aðstöðu lagalega til að beita sér í embættinu til þess að koma í veg fyrir skattsvik í landinu. Skattdómarinn sjálfur hefur sagt í grein í Morgunblaðinu, að flestir reyni nú að svíkja undan skatti, og tilkynnt hæstv. Alþingi það. En á sama þinginu og hann segir þetta, er lagt til, að embættið sé lagt niður. Ég undirstrika þetta að minnsta kosti ekki sem sparnaðarráðstöfun hjá hæstv. ráðh., að þetta embætti verði lagt niður.

Þá mun eiga að fella niður einn bifreiðaeftirlitsmann, og er mér þó sagt, að það leiði ekki til sparnaðar, því að það komi bara út á annarri starfstilhögun, og munu aðrar ástæður valda því, að þessum manni er ýtt til hliðar.

Þá á líka að leggja niður flugmálastjóraembættið, sem vafalaust er 100% sparnaðarráðstöfun. Það mætti nú samt segja mér, að flugmálastjóraembætti skyti upp, þótt síðar yrði.

Það var um það talað, að ég held þegar fjárlfrv. var lagt fram, að námsstjórum mundi verða fækkað a.m.k. um einn. Ég sé líka, að það eru ætluð laun handa einum námsstjóra á gagnfræðastiginu, en þeir eru tveir, og ég veit ekki betur en að þeir verði tveir: — Fækkað hefur verið um einn byggingarmeistara á skrifstofu húsameistara ríkisins. Það var reyndar ekki ráðh., sem fækkaði um hann, því að það var drottinn, sem tók í taumana; maðurinn dó, en það sparar að sjálfsögðu líka fé. — Og um einn bor hefur verið fækkað hjá raforkumálastjóra. Já, það er ekki að neita því, að þarna vottar fyrir samdrætti í ríkisrekstrinum, fækkun opinberra starfsmanna. En þetta er bara ekki nettósparnaður. Þegar farið er yfir frv., kemur í ljós, að það er nokkuð, sem kemur á móti. Það örlar líka á fjölgun starfsmanna, og er vandi að gera upp við sig, hvort nokkuð komi út jákvætt eða enn sé aukning í starfsmannahaldi ríkisins.

Þá vil ég ræða nokkuð um þá nýja starfsmenn, sem ég hef komið auga á í frv., og þó má vel vera að mér hafi skotizt yfir mörg embætti. — Það er nýr fulltrúi í endurskoðunardeild fjmrn., sem að vísu var ráðinn, áður en núverandi ráðh. settist í stól sinn, en nýr maður samt. Það hefur verið bætt við einum manni hjá bæjarfógetanum á Akranesi, og er það samkvæmt beiðni hæstv. ríkisstj. og með samþykki meiri hl. fjvn. Það er nýr fulltrúi, sem fer með umferðarmál. Þá er bætt við 2 nýjum lögregluþjónum í Reykjavík, einum verkfræðingi í sambandi við vitamálin, og svo er auðvitað um mikla fjölgun að ræða í kennarastéttinni, og verður kannske ekki við það ráðið. Tveim nýjum dýralæknum er bætt við þá 7, sem fyrir eru, og ef mér hefur ekki skotizt yfir fleiri embætti, sem á að leggja niður, þá sýnast mér þau öllu fleiri, sem er bætt við, það er m.ö.o. verið að bæta við ríkisbáknið.

Ég hnýt líka um það, þegar ég hef í höndunum þetta sparnaðarfjárlfrv., hversu lítið skipulag virðist vera á starfseminni hjá ýmsum ríkisstofnunum. Ef ég t.d. staldra við rannsókna- og vísindastarfsemi á vegum ríkisins, virðast mér þau störf vera margflækt hvert inn á annars svið og margskipt milli ýmissa stofnana, þannig að sams konar rannsóknir fara fram á mörgum stöðum. Ýmiss konar rannsóknir og tilraunir í landbúnaði fara fram á vegum Búnaðarfélags Íslands, í tilraunaráði búfjárræktar og í landbúnaðardeild Atvinnudeildar háskólans. Þá fara fram fiskirannsóknir hjá Fiskifélagi Íslands, og starfa að minnsta kosti 3 menn við þær, síðan fara fram fiskirannsóknir í fiskideild Atvinnudeildar háskólans, og þar vinna a.m.k. 12 starfsmenn. Tveir menn vinna að vítamínrannsóknum, og auk þess starfa 13 starfsmenn við vítamínrannsóknir í iðnaðardeild Atvinnudeildar háskólans, og hjá þeirri deild hafa a.m.k. 2 menn verið á launum, sem fjvn. hefur upplýsingar um, að hafi ekki starfað þar s.l. ár. Finnst mér fara illa á þessu í sparnaðarfrv. Þessi tilraunastarfsemi fer fram hingað og þangað úti um land. Á Keldum fara fram ýmiss konar rannsóknir, ekki óskyldar þeim, sem fara fram á háskólalóðinni. Einn fastur starfsmaður á Keldum hefur á hendi rannsóknir fyrir sauðfjárveikivarnir og framkvæmir þær á rannsóknarstofunni á Keldum, en hefur fyrir það sérstök laun frá sauðfjárveikivörnunum. Vitanlega væri hugsanlegt, að þessar rannsóknir gætu farið fram fyrir embættislaun, sem þessi maður hefur á Keldum, en kostnaður af þeim þyrfti ekki að takast af þeim milljónum, sem nú er beðið um til sauðfjárveikivarnanna. Fé er veitt til rannsóknarstofnunar á Hafursá. Sú stofnun var fyrir nokkrum árum suður í Fossvogi, var síðan flutt með nokkrum tilkostnaði að Úlfarsá og hefur nú verið flutt að Hafursá. Ég veit ekki, hvort þetta skipulag er hagkvæmt fyrir samfellda vísinda- og rannsóknastarfsemi, að hafa hana svo dreifða, en einhvern veginn finnst mér að þetta geti ekki verið til sparnaðar og ekki hagkvæmt í sambandi við notagildi þeirra tækja og véla, sem notuð eru við þessa starfsemi. Þegar ég sé í fjárlfrv., hvaða fé á að verja til ýmiss konar merkilegra félagssamtaka, eins og Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands, dettur mér í hug, hvort ekki sé hugsanlegt að t.d. ráðunautakerfi Búnaðarfélagsins sé að einhverju leyti orðið úrelt. Það er nokkuð fjölmennt, og því var komið upp á sínum tíma við allt önnur skilyrði og vinnuaðstæður en nú eru. Með útvarpinu er án efa hægt að fræða hlustendur á einu kvöldi með sama notagildi og það kostaði Búnaðarfélagið að senda ráðunaut kringum land til þess að halda fyrirlestra í fámennum sveitum, og sýnist mér, að þessi gerbreyting gæti leitt til þess, að þessu kerfi væri að einhverju leyti breytt og ráðunautunum fækkað. Ég mun ekki fjölyrða um þetta atriði, en mér finnst það mjög athugunarvert. Ég get ekki komið auga á, að brýn nauðsyn sé á að hafa sérstakan embættismann sem hrossaræktarráðunaut, enda er búið að draga svo úr þjónustu íslenzka hestsins vegna véltækninnar, og Íslendingar leggja litla rækt við að nota hann sem dráttarafl, heldur er hann mest notaður til lystisemda. Ég gæti því vel hugsað mér, að forstöðumenn við bændaskólana eða einhverjir úr kennaraliði þeirra gætu hæglega gefið leiðbeiningar varðandi hrossaræktina, í stað þess að Búnaðarfélagið hefði sérstakt embætti á þessu sviði. Mér finnst það líka dálítið skrýtið, að sá maður, sem gegnir embætti hrossaræktarráðunauts, skuli jafnframt vera kennari við bændaskólann á Hvanneyri, einmitt þann búnaðarskólann, sem leggur enga sérstaka rækt við hesta, en við búnaðarskólann á Hólum er hins vegar rekið hrossaræktarbú.

Það er auðvitað margt þess eðlis, sem maður kemur auga á, að ekki er hægt að kippa því í lag í einu vetfangi, en í mörg horn er áreiðanlega að líta, ef ætti að framkvæma sparnað í ríkisrekstrinum að verulegu leyti, sem vissulega er mögulegur.

Ég sé t.d. á starfsmannaskrá ríkisins fyrir árið 1951, sem fylgir frv., meðal margs annars, sem mér verður starsýnt á, að prestar og prófastar landsins eru furðu tekjuháir embættismenn. Laun biskups eru 49335 kr., og eru þau sambærileg við önnur vegleg embætti. En ég sé, að einn prófastur hefur 59513 kr. laun, eða 10 þús. kr. hærri en biskups. Þetta stafar auðvitað af því, að hann er látinn gegna einhverju nágrannaprestakalli og fær fyrir það sérstök laun, en mér finnst þetta ekki sóma sér vel í sparnaðarfjárlfrv. frá hæstv. fjmrh. Annar prófastur er með 47610 kr. laun, eða tæplega hálf önnur laun, tveir hafa 41659 kr. laun, en yfirleitt munu prófastslaun vera 35708 kr. Þarna þarf áreiðanlega að skipuleggja og ef til vill að gera lagabreyt., en það er þá á valdi ríkisstj. á hverjum tíma að bera fram till. til breyt. á l., til þess að koma lagi á búskapinn, sem þeir eiga að stjórna. — Með prestana er þetta á líka lund. Þar eru 4 prestar með rúmlega 45 þús. kr. laun, einn með 43643 kr., 2 með 39278 kr., einn með 38 þús. kr., einn með 37 þús. kr. og einn með 36500 kr., en laun presta virðast yfirleitt vera 33300 kr., og eru 60 prestar með þá upphæð á launaskránni. Það eru þannig 9 prestar, sem hafa verulega hærri laun en venjuleg prestslaun eru, og virðast þeir hafa hálf embættislaun fyrir hvert umdæmi, sem þeir þjóna auk síns eigin prestakalls, og þrátt fyrir þetta virðast þeir ekki meira hlaðnir störfum en góðu hófi gegnir, vegna breyttra aðstæðna í landinu til að hreyfa sig úr stað og til að gegna þessari þjónustu.

Þá kem ég að utanríkismálunum. Mér virðist nú af þeim upphæðum, sem tilgreindar eru í sambandi við utanríkisþjónustuna, að það megi heita með ólíkindum, ef ekki væri hægt að spara þar neitt fé og þó gera sæmilega við þá, sem þar starfa. Hæstv. ríkisstj. leggur til, að sendiráðið í Moskva verði lagt niður og að spara megi með því nokkuð mörg hundruð þúsund krónur. Þá leggur hún einnig til, að sérstakur sendiherra verði skipaður í Stokkhólmi í stað sendifulltrúa, sem þar er. Af þessu leiðir vafalaust einhverja hækkun, en mismunur launa á þessum embættum er sá, að grunnlaun sendiherra eru 36000 kr., en sendifulltrúa 30200 kr. Því er haldið fram, að það sé hvorki til verulegs sparnaðar og illframkvæmanlegt að leggja niður sendiráðin í Osló og Stokkhólmi og að láta sér nægja eitt sendiráð á Norðurlöndum, t.d. í Kaupmannahöfn. Má vel vera, að við verðum að hafa sendiráð á öllum þessum stöðum, enda leggur hæstv. ríkisstj. til, að svo sé gert, en þrátt fyrir það að lagt verði niður eitt dýrasta sendiráðið, verður niðurstaðan á þessum lið sú, að upphæðin til utanríkisþjónustunnar er hærri á þessu fjárlfrv. en verið hefur nokkru sinni fyrr; hún fer hækkandi. Grunnlaun sendiherra eru — eins og ég sagði áðan — 36000 kr. og grunnlaun sendifulltrúa 30200 kr., en þetta er ekki það einasta, sem þeim er greitt. Hverjum einasta sendiherra, sendifulltrúa og starfsmanni í sendiráðunum eru greiddar allháar uppbætur. Þannig er t.d. staðaruppbótin, sem greidd er á laun sendiherrans í Kaupmannahöfn, 69000 kr. og heildarlaun hans því 105 þús. kr. Þessi upphæð var árið 1949 60082 kr. í heild. Staðaruppbótin, sem greidd er sendifulltrúanum í Stokkhólmi er 83800 kr. og heildarlaunin þar 114 þús. kr., en voru 65160 kr. árið 1949. Við sendiráðið í London er staðaruppbót til sendiherrans 137400 kr. og heildarlaunin þannig 173400 kr., en voru 86526 árið 1949. — Staðaruppbót til sendiherrans í Washington er 257800 kr., í viðbót við launin 36000 kr. og heildarlaunin þar 293800 kr., en voru 120202 kr. árið 1949. — Við sendiráðið í París er greidd staðaruppbót 218600 kr. og heildarlaunin þess vegna 254600, en þessar launagreiðslur voru kr. 126973.08 árið 4949. Kostnaður við sendiráðið í París hækkar um 199300 kr., sem stafar af því, að starfsmönnum þessa sendiráðs eru greidd laun í dollurum, en þegar síðasta fjárhagsáætlun fyrir sendiráðið var samin, hafði láðst að reikna með fyrri gengislækkun krónunnar gagnvart dollar. Viðvíkjandi sendiráðinu í París hnýt ég enn fremur um það í svona sparnaðarfrv., að aðstoðarmanni þar er greitt í laun 600 dollarar á mánuði, eða 9792 ísl. kr., eða 117500 kr. á ári. En ekki nóg með það. Hér við bætast húsaleigupeningar til þessa manns, sem mun þó ekki vera með stóra fjölskyldu — mér er tjáð, að hann sé einhleypingur —, að upphæð 2500 kr. á mánuði, eða 30000 kr. í húsaleigukostnað á ári. Það er dýrt húsnæðið í París! Laun og húsaleiga þessa aðstoðarmanns við sendiráðið í París eru því 147500 kr., og segi menn svo, að stjórnin kunni ekki að spara! Enda er hæstv. fjmrh. nú farinn úr stólnum sínum. — Staðaruppbót til sendiherrans í Osló er 66800 kr. og heildarlaunin 102800 kr. — Staðaruppbót til aðalræðismannskrifstofunnar í Hamborg er 78900 kr. og heildarlaunin 109500 kr., en voru kr. 62967.77 árið 1949.

Ég held því, að það sé hafið yfir allan vafa, að það sé hægt að spara í utanríkisþjónustunni, aðeins með því að greiða starfsmönnum hennar hæfileg laun, sem séu sambærileg við laun hliðstæðra starfsmanna í þeim löndum, sem þeir starfa í. Það dugir ekki að láta það viðgangast um sendiráðin, hvorki að gera þau að gamalmennahælum, því að það eru vissulega of dýr gamalmennahæli, né neinum öðrum flokkslegum framfærslustofnunum, þar sem greidd eru hærri laun en hjá öðrum stofnunum á vegum ríkisins.

Þegar vikið er að öðrum liðum fjárlfrv. en verklegum framkvæmdum, verður maður sem sé alls staðar fyrir þeim vonbrigðum, að tölurnar lækka ekki, heldur hækka. T.d. hækka allir liðir, sem fyrst og fremst snerta starfsmannahald og embættismannahald ríkisins, upp undir 30%, og þar er einungis að horfast í augu við þá staðreynd, að laun þessa starfsfólks hækkuðu í fyrsta lagi með launauppbótinni, sem Alþ. samþ. í fyrra, og síðan með 15 stiga vísitöluhækkuninni. En vissulega hefði þá verið eðlilegt, að framkvæmdaliðir frv., svo sem lagning og viðhald vega, bygging brúa og hafna og því um líkt, sem fyrst og fremst stuðlar að atvinnu og inntektum handa verkafólki, sem einmitt nú sér fram á litla vinnu og vaxandi atvinnuleysi, — að þeir liðir frv. hefðu einnig hækkað um 30% eins og þeir liðir, sem mótast af embættisbákni ríkisins. (Forseti: Ég leyfi mér að spyrja hv. þm., hvort hann sé í þann veginn að ljúka ræðu sinni.) Nei, því fer fjarri. Ég er um það bil hálfnaður með hana. — Það er höfuðeinkenni þessa fjárlfrv., að liðir til verklegra framkvæmda hækka ekki, heldur lækka í mörgum tilfellum um hundruð þús. kr. og jafnvel um millj. kr. — Nú mun eiga að fresta fundi, og get ég endað þennan hluta ræðu minnar með því að benda á hið sama og ég benti á í upphafi máls míns, þessa gífurlegu lækkun á verklegum framkvæmdum, og er það vissulega leiðinleg staðreynd. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Í fyrri hluta ræðu minnar í dag þakkaði ég hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann sýndi þá röggsemi í upphafi þings að leggja þá þegar fram frv. til fjárl. fyrir næsta ár og ætti hann þar með drjúgan þátt í, að fjárl. verða nú sennilega afgr. á réttum tíma. Ég taldi skylt að þakka einnig hv. form. fjvn. fyrir hans þátt í því, að þessu ófremdarástandi, að fjárl. séu upp undir ár á eftir tímanum, verði nú af létt, þar sem hann með röggsamlegri verkstjórn í fjvn. á verulegan þátt í að kippa þessu í lag.

Þá vék ég einnig að þeim sparnaði, sem mjög hefur verið gerður að umtalsefni í sambandi við þetta fjárlfrv., og fannst fátt til um hann. Ég sýndi fram á, að flestir liðir í frv. væru hækkaðir verulega nema liðir til verklegra framkvæmda og atvinnumála. Ég viðurkenndi fyllilega þá sparnaðarviðleitni hæstv. fjmrh., sem kom fram í niðurlagningu nokkurra embætta. Ég hygg, að ég hafi nefnt ein sjö embætti, sem kalla má víst, að nú verði lögð niður. Hins vegar gat ég sannleikans vegna ekki annað en minnt á það, að jafnframt bæri frv. með sér, að fjölgað væri a.m.k. um 10 embætti, svo að niðurstaða mín í sambandi við sparnaðinn var sú, að mér fyndist heldur fátt til um og niðurstaðan væri í rauninni neikvæð.

Þá fór ég nokkrum orðum um það skipulagsleysi, sem sérstaklega ríkir í sambandi við vísi til ýmiss konar rannsóknarstarfsemi, sem framkvæmd er á mörgum stöðum. Rannsókn, sem er sama eðlis, sé framkvæmd á 2–3 stöðum, og hlyti því að vera illa á fé haldið að þessu leyti og rétt að athuga, hvort ekki væri hægt að koma þar við meiri sparnaði.

Sérstaklega var ég fjölorður um eyðslu í utanríkisþjónustunni. Nefndi ég þar svimháar fjárhæðir. Sagðist ég ekki skilja, að ekki væri hægt að lækka þar verulega með einlægri sparnaðarviðleitni. Þegar ég ræddi um þetta, minntist ég á aðstoðarmann í utanríkisþjónustunni, sem ofan á geysihá laun fengi greiddar 30 þús. kr. í húsaleigupeninga og væri maður þessi einhleypingur.

Ég sé það á aths. hæstv. fjmrh. með fjárlagafrv., að hann viðurkennir, að enn þá er komið skammt í gagngerðum sparnaði, því að hann segir í aths. við fjárlfrv., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú í októbermánuði hefst sérstök sérfræðileg athugun á starfskerfi ríkisins og vinnuaðferðum með það fyrir augum að reyna að finna leiðir til þess að gera það óbrotnara og bæta vinnuaðferðir“.

Þegar hæstv. ráðh., sennilega í september, hefur verið að vinna að frv., hefur hann sem sé getið þess, að til staði að gera sérstaka rannsókn á því, hvernig mætti draga úr starfskerfi ríkisins og bæta vinnuaðferðir. Nú er október liðinn og nóvember líka. Ég harma, að það skuli vera svo hljótt um þessa sérfræðilegu rannsókn á starfskerfi ríkisins og ekkert enn vitað um niðurstöður þessarar rannsóknar. Mundu flestir fagna því, ef yrði jákvæður árangur af þessari sérfræðilegu rannsókn, helzt áður en fjárlfrv. er afgr. að fullu frá fjvn. eða Alþingi. Þá væri hugsanlegt, að rannsóknin bæri árangur á fjárhag ríkisins á árinu 1951.

Nú vil ég þessu næst staðnæmast við 13. gr., samgöngumál. Það er gr., sem fjallar um framlög ríkissjóðs til nýrra vega á árinu 1951, til viðhalds vega, brúargerða og hafnarmannvirkja. Í upphafi 43. gr. greinir frá því, hvað búizt sé við, að stjórn vegamálanna kosti. Og það er, eins og við mátti búast, gert ráð fyrir meiri kostnaði við stjórn vegamálanna 4951 en 1950, administrationin er alltaf að aukast, og er ástæðulaust að kippa sér upp við það. Mætti þó ætla, að sérstaklega væri reynt að draga úr kostnaðinum við stjórn vegamálanna, þegar verklegar framkvæmdir eiga að dragast saman. En það, sem er sérstaklega athugavert við þetta, er það, að nú er lagt til í fyrsta sinn, að færður verði 250 þús. kr. kostnaður við stjórn vegamálanna yfir á fjárveitingu til þeirra vega, sem ríkissjóður á að kosta á komandi ári. Og þegar svo er litið til fjárveitinganna til nýrra vega á árinu 1951, þá sést, að til þeirra eru ætlaðar 7 milljónir, en á yfirstandandi ári voru ætlaðar í sama skyni 7350 þús. kr., en þegar þessi 1/4. millj., sem nú hvílir á fé til nýbygginga vega samkvæmt frv., er dregin frá fjárveitingunni til vega árið 4951, sér hver maður, að ekki er ætlazt til, að nýir vegir verði byggðir fyrir meira en 6750 þús. kr., eða fullum 600 þús. kr. lægri upphæð en á yfirstandandi ári. Nú hefur meiri hl. fjvn. tekið fyrir þessa óhæfu og lagt til, að þessar 250 þús. kr. verði ekki teknar af fjárveitingu til vegamála, og er það vel. Ef fjárframlag til nýrra vega hefði hækkað hlutfallslega eins og allir liðir embættisbáknsins, þá hefði upphæðin til vegamála átt að vera 9,5 millj. kr., en ekki 6750 þús. kr., eins og hún er samkvæmt frv. raunverulega. Lækkunin er því réttar 2,8 millj. kr. Ég verð að segja, að þar sést fyrsta sparnaðarviðleitnin. Það þarf engin gleraugu eða stækkunargler til að sjá sparnaðinn þar. Þar nemur hann nærri 3 millj. kr. Við því væri ekkert að segja. ef atvinnuvegirnir í landinu stæðu með blóma, ef einkaatvinnureksturinn kallaði á hverja vinnandi hönd og byði upp á atvinnu. Þá gæti verið rétt og sjálfsögð stefna af ríkisstj. að kippa að sér hendinni um verklegar framkvæmdir og gefa einkaatvinnurekstrinum vinnuaflið eftir. En það er eitthvað annað en svo sé. Nú er einmitt atvinnuleysið að ganga í garð, og einkaframtakið býður ekki öllu vinnandi fólki atvinnu. Hundruð manna, kannske þúsundir, ganga meira og minna atvinnulausir og vantar atvinnu. Og þá er ríkisvaldinu skylt að auka opinberar verklegar framkvæmdir og draga úr atvinnuleysinu á þann veg. Það eru því slíkar aðgerðir, sem nú þyrfti að viðhafa, hækka framlög til verklegra framkvæmda hjá ríkinu, a.m.k. hlutfallslega eins mikið og kostnaður vex við starfskerfi ríkisins.

Næsti liður á 13. gr. er um viðhald vegakerfisins. Þar hefur vegamálastjóri látið í ljós, að hann teldi sig með engu móti geta komizt af með lægri upphæð en 431/2 millj. kr. til þess að geta haldið vegakerfi landsins sómasamlega við. Hann hefur bent á, að árum saman hafi viðhaldið kostað 43– 14 millj. kr. Nú er ætlað til viðhaldsins 12,8 millj. kr., sama upphæð í krónutölu og á fjárl. yfirstandandi árs. Með sams konar hækkun og orðið hefur á þessu frv. á kostnaði við starfskerfið hjá ríkinu, hefði þessi upphæð til þess að lækka ekki raunverulega, átt að vera 16,6 millj. kr. Ég tók eftir því, að hv. form. fjvn., frsm. meiri hl., gat þess í dag, að það væri vitað, að þessi upphæð væri of lág, en mundi verða athugað milli umr., hvort ekki væri hægt að fá hana hækkaða. Ég þykist vita, að svo framarlega sem ætlunin er að afgr. fjárlfrv. út frá raunhæfu sjónarmiði, hlýtur þessi upphæð að verða hækkuð.

Þá er það framkvæmd ríkisins við brúargerðir. Til þeirra hluta eru ætlaðar á gildandi fjárl. 3 millj. kr., en í fjárlagafrv. ekki nema 21/2 millj. kr. Þar er því lækkað um 500 þús. á þessum ekki mjög svo háa útgjaldalið. Það er því gefinn hlutur, að með þessu móti minnka framkvæmdir við brúargerðir stórkostlega, því að allt efni til brúa hefur hækkað gífurlega, fyrst og fremst vegna gengislækkunarinnar. Það má því búast við, að notagildi þess fjár, sem fara á til brúargerða 1951, verði ekki miklu meira en helmingur eða í mesta lagi 2/3 af því, sem var 4950. Ef þessi liður hefði hækkað hlutfallslega eins og liðir embættiskerfisins, þá hefði fjárveiting til brúa átt að verða 3,9 millj. kr. í staðinn fyrir 2,5 millj. Lækkunin er því raunverulega 1,4 millj. kr.

Þá eru það hafnarmannvirki og lendingarbætur. Á yfirstandandi árs fjárl. eru veittar 4,5 milljónir til hafnargerða og lendingarbóta, en í frv. fyrir árið 1951 3,7 millj. kr. Með hlutfallslegri hækkun við liði embættiskerfisins hefði þessi upphæð átt að vera 5,8 millj. kr. Er það nú hyggilegt að draga nú þegar úr byggingu hafnarmannvirkja og lendingarbóta? Það er vitað og viðurkennt, að það er kallað að úr öllum áttum einmitt til þess að geta stundað betur framleiðslustörf, og svo fast hefur verið knúið á um framkvæmdir, að ríkið stendur í milljóna vanskilaskuldum við mörg bæjarfélög, sem hafa ekki talið sig geta beðið með nauðsynlegustu byggingar á hafnarmannvirkjum. Bara til þess að standa í skilum við þessi bæjarfélög og byggðarlög hefði verið ástæða til að lækka ekki framlagið í krónutölu, heldur hækka það, ef þess hefði verið nokkur kostur, því að hér er um undirstöðu atvinnulífsins að ræða. Það má kalla víst, að hækkað framlag til hafnarmannvirkja hefði komið aftur margfaldlega í vaxandi gjaldeyristekjum og auknu atvinnulífi, sem leitt hefði af bættri aðstöðu. — Undir þessum lið er fjárveiting til hafnarbótasjóðs. Hún á samkvæmt l. að vera 1,5 millj. kr., en í frv. hefur hæstv. fjmrh. ekki séð sér fært að taka nema 1/3 þeirrar upphæðar, eða 500 þúsund kr. Fjvn. taldi ekki stætt á því að leggja ekki fram til sjóðsins allt hið lögboðna framlag, og er öll n. auðvitað sammála um að taka upp þessa leiðréttingu.

Þá er á þessa árs fjárl. ofurlítil upphæð, 150 þús. kr., til ferjuhafna. Þennan lið felldi hæstv. fjmrh. alveg niður. Hefur fjvn. ekki fallizt á þennan sparnað og tekur upp 125 þús. kr. til þessara mála.

Það er því sérstök sparnaðarviðleitni á framlögum ríkisins til nýrra vega, viðhalds vega, brúa, hafnargerða og lendingarbóta, og nemur sá sparnaður stórum fúlgum. Mér þykir leitt að sjá það, en hæstv. fjmrh. og sennilega allri hæstv. ríkisstj. virðist vera uppsigað við verklegar framkvæmdir. Það er ekki annað hægt að sjá en þeir vilji helzt stöðva nýbyggingu vega, brúargerð og hafnarbyggingar og að ekki yrðu gerðar allt of strangar kröfur um viðhald þeirra vega, sem í landinu eru. Með bezta vilja get ég ekki skilið þessar stórlækkanir til verklegra framkvæmda á annan veg en að afstaða hæstv. ríkisstj. sé sú, sem ég nú hef lýst, enda þótt atvinnuleysi blasi við.

Ég skal láta þetta nægja um 13. gr. og vil víkja að 16. gr., sem er um fjárveitingar til atvinnumála. — 1. kafli þeirrar greinar er um fjárveitingar til landbúnaðarins, og skal játað, að þar er nokkur hækkun. Upphæðin var í gildandi fjárlögum 23,8 millj. kr., en er nú í frv. 25,8 millj., svo að hækkunin nemur 2 millj. réttum, og er það ánægjulegt, að landbúnaðurinn skuli ekki vera olnbogabarn á sama hátt og vegir, brýr og hafnir. Ég tel, að hér sé um að ræða eðlilega hækkun, en ánægjulegra hefði verið, ef hækkunin hefði farið í eitthvað annað en mæðiveikina, en þangað fer hún aðallega, og er það raunar mikilvægt að sigra í því stríði, og sá herkostnaður allur er orðinn mikill, svo að ekki verður frá snúið fyrr en yfir lýkur. — Næsti kafli þessarar gr. er um fjárveitingar til sjávarútvegsins, en þar er ekki því að heilsa, að þær séu ríflegri nú á frv. en á gildandi fjárl. Þar hefur þótt ástæða til að beita hnífnum, niðurskurðarhnífnum, því að fjárveitingin er lækkuð úr rúmum 8 millj. kr. ofan í 3,7 millj. Þar er því lækkað að krónutölu um meira en 50%. Liðirnir, sem hverfa, eru einmitt þeir liðir, sem við afgreiðslu fjárlaga ársins 1950 þóttu sjálfsagðir til hjálpar sjávarútveginum, og eru nú niður felldir, rétt eins og einhver gullöld, einhver blómaöld væri runnin upp yfir sjávarútveginn, og ef svo væri, þá væri þetta réttmætt. En hvernig er umhorfs varðandi sjávarútveginn? Vélbátaflotinn hefur aldrei verið í annarri eins eymd. Aldrei hefur harm vantað aðra eins hjálp til að geta verið í gangi og einmitt nú. Ég held það sé einróma álit allra útvegsmanna, sem hvað eftir annað hafa verið að bera saman ráð sín í haust, að til þess að von sé til þess, að vélbátaflotinn sé rekinn hallalaust, þá þurfi fiskurinn að stíga úr 75 aurum í 1,25–1,30 kr. fyrir kg. Annars verður útgerðarmönnum ekki fært að halda vélbátunum úti á komandi vetri, og hvað á ríkið undir þeim atvinnuvegi? Það er almennt viðurkennt, að vélbátaflotinn framleiði 3/4 af sjávarafurðunum, sem eru undirstaðan undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Mér virðist því, að það hafi verið horft blindu auga á þörf sjávarútvegsins, þegar gengið var frá till. um atvinnumálin hér á fjárlagafrv. Ég fæ ekki séð, að það eigi neitt skylt við raunhæfa afgreiðslu fjárl., ef ekki eru teknar allverulegar upphæðir á frv. til þess að koma vélbátaflotanum í gang og þeim fiskiðjufyrirtækjum, sem nú eru allmörg stöðvuð. — 3. kafli 16. gr. er um framlög til iðnaðarmála. Sama er um þann lið að segja, að þar eru framlögin lækkuð, en þau voru í gildandi fjárl. 811 þús. kr., en eru nú áætluð 726 þús. kr. Lækkunin er að vísu ekki mikil, enda ekki úr háum söðli að detta hjá þessum þriðja aðalatvinnuvegi okkar hvað fjárveitingu snertir. Þó er vitað, að iðnaðurinn, eða a.m.k. margar greinar hans, standa höllum fæti, og er fullkomin þörf að greiða þar fyrir, þótt ekki væri til annars en heimila iðnaðinum hráefni til þýðingarmikilla atvinnufyrirtækja, svo að hægt sé að skapa atvinnu og framleiða verðmæti. Ég sé ekki annað en að landbúnaðinum einum undanskildum, þá séu atvinnumálin höfð út undan og að fjárveitingar til þeirra lækki ekki minna en útgjöld til ríkisbáknsins hækka. Ég álít þetta algerlega misheppnaða sparnaðarviðleitni, eins og nú árar, að næstum því allar lækkanir komi aðeins við verklegar framkvæmdir og atvinnumál.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. meiri hl. vék að 18. gr. undir lok ræðu sinnar og sagði réttilega, að flestir nm. væru mjög óánægðir með þá gr., þar væri ekki hægt að finna neina meginreglu, sem farið væri eftir, þar yrði því argasta handahóf, sem þyrfti að binda endi á. Hann lét í ljós, að það væri ekki á valdi fjvn., heldur þyrfti sérstaka nefnd til að kynna sér það mál, eða þá að hæstv. ríkisstj. tæki á sig rögg og kynnti sér sjálf, hvers konar fyrirbæri 18. gr. er orðin. Gr. fjallar um lögboðin og ólögboðin ellilaun, biðlaun og heiðurslaun. Fyrst er heildarfjárveiting til embættismanna og ekkna þeirra samkv. lögum, og víst er, að þar er margt sama fólkið og er í 2. kafla þessarar gr. með hæstu upphæðirnar. Einstaklingar fá samkv. 18. gr. allt frá 40320 kr. — vafalaust heiðurslaun — niður í 1121,50. Embættismennirnir. sem þarna fá ellilaun eða heiðurslaun, eru um 200 talsins, og virðist meginreglan vera sú, að þeir, sem hæst launaðir hafa verið alla ævi og fá þar af leiðandi hæst eftirlaun, séu hér með hæstu upphæðirnar, en að þeir, sem lægst launin hafa haft og erfiðast eiga, séu með lægstu upphæðirnar. Þá er og auðsætt, að menn eru hér með hinar hæstu upphæðir fyrir það að eiga að valdamikla stjórnmálamenn og áhrifamenn í þjóðfélaginu. Engin skýring finnst önnur en að þessir áhrifamenn hafi potað þeim inn á þessa gr. með tugþúsunda styrk á ári. Þeir, sem lægstan styrkinn fá, eru margir hverjir menn, sem vissulega hafa unnið til heiðurslauna, svo sem póstar, vitaverðir, ljósmæður, hjúkrunarkonur, barnakennarar o.s.frv. En þetta fólk fær 1121,50 kr., eða þar um bil. En óneitanlega getur barnakennari unnið eins þjóðnýtt starf og háskólakennari t.d., en á þessari gr. er enginn háskólakennari, að ég hygg, fyrir neðan 11 þúsund kr. Sérstakur kafli er á 18. gr. um fjárveitingar til ekkna, og eru þær alls 170 og virðist vera skipt í þrjá aðalflokka. Allfjölmennur flokkur er með frá 10 þús. kr. upp í rúm 20 þús. kr. á ári, og þar er alveg sama sagan, að sumar þeirra eru með háar upphæðir, vegna þess að þær hafa átt að valdamikla menn, sem hafa komið þeim inn á þessa gr. Það leynir sér ekki, að þær tilheyra hinu svo kallaða fína fólki. Nöfnin bera það með sér: Einarsson, Egilson, Briem, Hlíðdal, Johnson, Eggerz, Benediktsson o.s.frv. heita þær. Þetta eru ekki nöfn alþýðukvenna, en þessar konur hafa 10–20 þús. kr. á ári, og veitir kannske ekki af út af fyrir sig, en konur, sem bara eru dætur feðra sinna upp á íslenzku, þær fá 690 kr., 845,25 kr., 990 kr. og 1121,51 kr., og eru margar í þeim flokki, .og enn fremur eru nokkrar með 1690,50 á ári. Það er hverju orði sannara hjá hv. frsm. meiri hl., að þessi 18. gr. er forarpollur fjárl., sem þarf að þurrka upp á einhvern hátt. Á þessari gr. er einnig smáfjárveiting til 5 eða 6 barna, er misst hafa feður sína með voveiflegum hætti, af slysförum, — en eru ekki tugir og hundruð íslenzkra barna, sem misst hafa feður sína af slysförum, án þess að nokkur hv. þm. sjái ástæðu til að gera till. um styrk handa þeim7 Það ríkir því algert handahóf um það, hvaða börn fá þetta. Styrkurinn er að vísu lítill, en hann skapar misrétti, og þau börn, sem helzt þarf að styrkja, eru kannske alls ekki með. Ég verð því að álykta svo, að fyllsta ástæða sé til þess, að aldrei verði gengið frá 18. gr. í sömu mynd og nú. Eðlilegast væri, að eftirlaun allra, þegar vissum aldri er náð, væru þau sömu og eingöngu þau, sem alþýðutryggingarnar veita, en væru þá sómasamleg til að lifa af, hvort heldur væri fyrir uppgjafabónda, uppgjafaverkamann, uppgjafabarnakennara eða uppgjafaprófessor, uppgjafalækni eða uppgjafaalþingismann. Það, sem einum er boðlegt, ætti öðrum að vera boðlegt líka og ekki sízt þeim, sem setið hafa í vel launuðum embættum í áratugi.

Þá vil ég víkja fáum orðum að brtt. mínum á þskj. 266. Hv. meiri hl. hefur gert grein fyrir því, að hann telji ekki ástæðu til að taka 2. gr. til athugunar og afgreiðslu fyrr en við 3. umr. Ég taldi sjálfsagt að kynna mér eftir föngum, hvernig gengið væri frá tekjuhlið fjárl. og hvort líkindi væru til, að hægt væri að vænta þess, að tekjur ríkissjóðs árið 1951 mætti ef til vill áætla ríflegri en í frv. Það er alkunna, að fjmrh. gerir sína tekjuáætlun sem varlegasta, svo að ekki bregðist tekjur til að framkvæma það, sem fyrir hann er lagt, og margir telja það skynsamlega fjármálapólitík að tefla ekki á tæpasta vað. En það er jafnkunnugt, að ríkisstjórnir, og þá helzt íhaldssamar ríkisstj. — en frá því undanskil ég sízt núv. hæstv. ríkisstj. — hafa tilhneigingu til þess að áætla tekjur mjög knappt, og í hvaða tilgangi er það gert? Stundum er það gert í þeim tilgangi að ríkisstj. hafi rýmri hendur til að ráðstafa fé fyrir sig og sína og taka þannig nokkuð af fjárveitingavaldinu úr höndum Alþingis í eigin hendur. Stundum er tilgangurinn sá að draga úr verklegum framkvæmdum, koma í veg fyrir, að ráðizt sé í og veitt fé til nýrra mannvirkja og fyrirtækja, og er þá borið við tekjuskorti, að ekki séu frambærilegar kröfur um þessar og hinar framkvæmdir. Og í 3. lagi geta tekjurnar verið áætlaðar of lágt til þess að fela fyrir skattgreiðendum, hvaða skattar og tollar séu á þá lagðir. — Þegar ég athugaði tekjuáætlunina á þessu fjárlfrv., komst ég að þeirri niðurstöðu, að hún væri mjög varleg og sums staðar langt fyrir neðan það, sem veruleikinn bendir til. Sem heimildarrit studdist ég einkum við ríkisreikninginn fyrir 1949 og upplýsingar frá fjmrn. um innkomnar tekjur ríkissjóðs á þessu ári fram að 1. nóvember. Með samanburði við þetta tvennt komst ég að þeirri niðurstöðu, sem sjá má á brtt. mínum á þskj. 266. Hæstv. fjmrh. áætlar tekjuskatt, eignarskatt og tekjuskattsviðauka 35 millj. kr. Tekju- og eignarskattur, sem var innkominn 1. nóv., nam 19 millj. kr., en var á sama tíma í fyrra 21,5 millj. kr., eða 2,5 millj. kr. hærri. Árið 1949 varð hann þó 49,5 millj. kr., og á nú að áætla hann 14,5 millj. kr. lægri en hann varð 1949. Ég verð að segja, að mér finnst ólíklegt, að slíkur afturkippur sé orðinn í þjóðlífinu. Það mætti meira en lítið vera farið að halla undan fæti um eignir og tekjur þegnanna, ef þetta er réttmætt. Það vantar aðeins 2,5 millj. kr. 1. nóv. til þess, að jafnt sé og árið áður, og því ætti tekju- og eignarskatturinn í heild varla að verða meira en 5 millj. kr. lægri. Mætti áætla hann 44,5 millj. kr. En ég vil þó áætla hann 40 millj. Sú till. felur í sér 5 millj. kr. hækkun; í stað 35 millj. komi 40 millj. kr. Næst kemur svo verðtollurinn. Ráðherra áætlar hann 73 millj. Nú hafa verið innheimtar af honum 1. nóv. 46 millj. kr., en á sama tíma í fyrra aðeins 43 millj. kr., en 1949 varð hann 57 millj. kr., og hefur hann hækkað gífurlega vegna gengisbreytingarinnar. Ráðherra upplýsti, að gengisbreytingin hafi þau áhrif á þennan tekjustofn, að af sama innflutningsmagni 1949, sem gaf 57 millj. kr., eigi nú að gefa 90 millj. kr. í verðtolli.

Ég geri ráð fyrir minni verðtolli en 1949, en ég geri ekki ráð fyrir, að það sé ástæða til að áætla hann lægri en 78–80 millj. kr., og þá frekar lægri upphæðina. Það er sem sé 12 millj. kr. lægra en sama innflutningsmagn hefði gefið 1949, en það er 90 millj. kr. Það er eðlilegt, að á árinu 4950 verði verðtollurinn knappari en 1951 vegna gengislækkunarinnar.

Þriðja brtt. er um innflutningsgjald af benzíni. Ráðherra áætlaði það 91/2 millj. kr., og er það jafnhátt og á gildandi fjárlögum. Samkv. upplýsingum fjmrh. var innflutningsgjald af benzíni orðið 9,5 millj. kr. 1. nóv., og ætti að vera 1,8 millj. kr. eftir og því eðlilegt að áætla það 10 millj. kr. (Fjmrh.: Þetta er misskilningur, gjald til brúasjóðs er dregið frá.) Innflutningsgjald af benzíni er varla fært á skýrslur nema eins og á að skipta því skv. fjárlögum. Ég get varla ímyndað mér, að þetta sé óvarlega áætlað, því að á sáma tíma í fyrra voru komnar inn 1. nóv. 6 millj. kr. á móti 9 millj. kr. árið áður, og hefði í sambandi við þetta mátt áætla það hærra.

4. brtt. mín er um gjald af innfluttum tollvörutegundum. Ráðherra áætlaði það 6,5 millj. kr., en það reyndist 1949 8,4 millj. kr. Þetta er aðallega súkkulaði, gosdrykkir, og þá væntanlega Coca Cola líka, sem ekki hefur dregizt neitt saman, og er ekki óeðlilegt að áætla hann það sama og árið 1949, en ég ætla að fara varlega í þetta og áætla hann 900 þús. kr. lægri.

5. brtt. mín er um bifreiðaskatt. Hann var áætlaður hjá ráðherra 3 millj. kr. Till. mín er, að því verði breytt í 4 millj. Á síðustu fjárlögum er hann áætlaður 4,5 millj., og er þá ekki um að ræða nema 3/4 hluta þess árs. Það er ekki vitað til þess, að bifreiðum sé að fækka, heldur hefur þeim fjölgað, og engin lagabreyting er um það, að bifreiðaskattur lækki.

6. brtt. mín er um aukatekjur. Þær voru áætlaðar 2,3 millj. kr. Ráðherra segir í aths., að þessi liður hafi farið talsvert fram úr áætlun, og gerir sér vonir um, að hann bregðist ekki, en ég legg til, að í stað 2,3 millj. kr. komi 2,5 millj. kr.

7. brtt. er um veitingaskatt. Það er atvinnuvegur, sem virðist ekki hanga á neinni horrim. Till. ráðh. er um 2,5 millj., en ég hygg, að hann sé einn af hinum traustustu tekjustofnum, og legg því til, að hann verði 3,5 millj. kr.

8. brtt. mín er um söluskatt. Hann er ein af aðaltekjulindum ríkisins og hefur verið áætlaður 50 millj. kr. Núna 1. nóv. var innheimt af honum 30 millj., en á sama tíma í fyrra 21 millj., eða 9 millj. kr. betur nú, en samt gaf hann 40 millj. kr. Því ætti hann nú ekki að verða minni en 60 millj. kr. Hann innheimtist sýnilega eftir á, og hygg ég því, að hann sé ekki óvarlega áætlaður 55 millj. kr. Þessi skattur kemur á hærri upphæðir vegna gengisbreytingarinnar og er ein af hinum óbrigðulustu máttarstoðum í tekjulind ríkisins. Ráðherra getur þess, að hann ætli að gera breytingar á innheimtu þessa skatts, og ætti það þá að vera auðveldara að innheimta hann.

Þá geri ég tvær brtt. við 3. gr., um tekjur af brennivíni og tóbaki. Það mundi einhver segja, að það sé undarlegt að áætla þessa upphæð upp í topp. En ég sé ekki, að bindindissamtökunum sé nokkur greiði gerður með því að draga fjöður yfir svínaríið. Fyrst ríkissjóður á að nota þessa blóðpeninga, er bezt að hafa réttar tölur. Hagnaður af áfengi var 52,3 millj. 1949, en var nokkru minni nú en á sama tíma í fyrra, segir ráðherra. Skv. skýrslum ráðh. var hagnaðurinn orðinn 43 millj. 1. nóv., þ.e. ekki undir 4,3 millj. kr. á mánuði. Þarna eru því 8,6 millj. fyrir næstu tvo mánuði, og er því komið að því að áætla tekjurnar af brennivíni 52 millj. kr., og er till. mín um það. Þetta er aðeins lægra en tekjurnar 1949, eða sem nemur 300 þús. kr. — Sama er að segja um tóbakið. Ráðh. áætlaði tekjurnar 22 millj. Tóbakseinkasala ríkisins skilaði 26,9 millj. kr. hagnaði 1949. Um þann tekjustofn segir ráðh., að hann verði nokkru rýrari en í fyrra. En samt áætlar hann ekki tekjurnar nema 22 millj. kr. á móti 27 millj. kr. í fyrra. Nú er salan 24 millj. Virðist það vera 2,4 millj. á mánuði, og er ekki óvarlegt að áætla það 29 millj., enda geri ég það. Það mun áreiðanlega engin áfengisvarnarnefnd eyðileggja vonir ráðh. um hagnað af jólavindlunum.

Þetta eru þá till. mínar við tekjuhlið fjárlagafrv., og telst mér til, að þetta sé 32,5 millj. kr. hækkun, og er í engu farið lengra út í áætlanir en líkur benda til.

Þá eru nokkrar brtt. á sama þskj. um aukin útgjöld vegna ýmissa mála, fyrst og fremst til aðstoðar við atvinnulífið í landinu, og í öðru lagi till. til að bæta úr fjárþörf Tryggingastofnunar ríkisins, miðað við reynsluna í þessum efnum.

Fyrsta till. er um það að ætla Tryggingastofnun ríkisins 400 þús. kr. til bæjarfógeta fyrir þau störf, sem skrifstofur þeirra inna af hendi fyrir Tryggingastofnunina. Það var 300 þús. kr., en ráðherra ætlaði að tvöfalda þá upphæð.

12. brtt. mín er um það, að til drykkjumannahælisins á Úlfarsá séu veittar 100 þús. kr. Mér þykir ekki myndarlega að þessari stofnun búið. Hennar er full þörf, og ég vil ekki fella 70 þús. kr. fjárveitingu niður, eins og ráðherra lagði til. Ríkisstj. sópar tugum milljóna af böli drykkjumannanna, og mér finnst það minnsta, sem gert sé á móti, að 100 þús. kr. séu veittar til þess að hjálpa þessum vesalings mönnum.

13. brtt. mín er við 13. gr., og er hún á þá leið, að til nýrra akvega verði veittar 9,5 millj. í stað 7 millj. kr. á fjárlagafrv. Ætti þá fjvn. að endurskoða till. í vegamálum og afgr. þær á ný út frá hinum nýju viðhorfum.

Næsta till. er um það að hækka framlag til brúargerða úr 2,5 millj. í 3 millj. kr. Yrði það þó lægra fyrir þetta ár, af því að dýrtíð hefur aukizt.

Í 15. brtt. legg ég til, að fyrir 3750000 kr. til hafnargerða komi 5,5 millj. Það er tvennt, sem gera þarf við féð, í fyrsta lagi að borga niður skuldirnar og í öðru lagi að auka fjárveitingu til nýrra framkvæmda.

46. till. er um það, að til síldveiðideildar aflatryggingasjóðs verði varið 6 millj. kr. til að standast skuldbindingar samkv. nýsettri reglugerð. Ef hann á að geta staðið við skuldbindingar sínar, vantar hann að minnsta kosti þessa upphæð til að geta staðið í skilum við sjómenn og aðra, sem hann á að standa í skilum við.

Þá hef ég einnig lagt til, að varið verði 8 millj. til niðurgreiðslu á kostnaðarliðum bátaútvegsins. Nálega hver einasti útgjaldaliður útgerðarinnar hefur nærri tvöfaldazt vegna gengislækkunarinnar, en fiskverðið er hið sama. Það þyrfti að vera 1,30 í stað 70 aura. (Viðskmrh.: Hver á að borga?) Ég þori að fullyrða, að ríkisstjórn, sem ekki þorir að sveigja hár á höfði nokkurs manns, þorir ekki að ganga á neins manns hag, hefði ekki þorað að ráðast í það að láta fiskverðið lækka úr 70 aurum í 45 aura, ef gengislækkunin hefði ekki verið gerð. Vill ráðherra halda því fram, að ef gengislækkun hefði ekki verið gerð, þá hefði fiskverðið verið 70 aurar? Nei. Fjárins var aflað með tollum, en nú er það tekið bæði af þeim ríkustu og þeim fátækustu. Þetta er hin dýrlega hjálp, sem ríkisstj. hefur veitt útgerðinni. En þessar 8 millj. væru ekki mikið fé, ef með því tækist að koma vélbátaflotanum í fullan gang, og má þá segja, að því fé væri ekki illa varið.

Þá er till. um 1,5 millj. kr. aðstoð vegna langvarandi aflabrests og aflaleysis á Vestfjörðum og Norðurlandi. Hæstv. ríkisstj. hefur varið 4,5 millj. kr. vegna áfalls bænda á Austfjörðum, og er það vissulega réttmætt, en áreiðanlega er þar ekki alvarlegra ástand en á Vestfjörðum vegna langvarandi aflabrests og aflaleysis, og er þó ekki farið fram á nema þriðjung þeirrar upphæðar, sem varið var til aðstoðar bændum á s.l. sumri. Það var við umr. hér í dag skýrt frá því, að fyrir hendi hefðu legið skýr gögn og skýrslur um, hve brýn þörf hefði verið fyrir þessa aðstoð. Það vill nú svo vel til, að ég hef í höndunum gögn um ástandið í sjóþorpunum á Vestfjörðum, og þau sýna, að hér hefur ekki verið brugðizt við á jafnskjótan og skilningsgóðan hátt og s.l. sumar.

17. till. á þskj. 266 er um að veita til iðnlánasjóðs 500 þús. í stað 300 þús. kr. á fjárlfrv. Iðnaðurinn er þriðji stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Iðnaðarmenn hafa hug á að koma á fót sinni eigin lánastofnun og sendu erindi til fjvn. um 2,5 millj. kr. framlag til hennar. Það er efalaust rétt, að það er ekki auðvelt að verða við þessum bænum nú, en það er ekki ofvaxið að efla iðnlánasjóð með 200300 þús. kr. framlagi um nokkurra ára bil og sýna með því lit á, að ríkisvaldið kunni að meta þýðingu þessa atvinnuvegar.

Tvær næstu till. varða tryggingarnar. Frá forstjóra þeirra hafa legið tilmæli til fjvn. og ríkisstj., að til trygginganna verði veittar 20,7 millj. kr. og til sjúkrasamlaganna 5 millj. Ég tel, að þessar till. forstjóra trygginganna séu fullkomlega rökstuddar, og augljóst er, að ekki er hægt að ganga framhjá þeim nema skerða um leið starfsgetu trygginganna, sem mundi óhjákvæmilega koma mjög hart við fólkið í landinu. Á fjárlfrv. eru ætlaðar 17,3 millj. til almannatrygginganna og 4,5 millj. til sjúkrasamlaganna. En meiri hl. fjvn. hefur nú hækkað þetta framlag til sjúkrasamlaganna í 4,8 millj. og þar með viðurkennt, að þörf þeirra er óhjákvæmileg og fullkomlega rökstudd. Ég tel ekki ástæðu til að ræða þessar tvær till. frekar, en það þarf enginn maður að draga í efa, að ef fjárhagur trygginganna er skertur svo, eru þær þar með gerðar óstarfhæfar.

Í næstu till. er lagt til, að tekinn verði upp á fjárlfrv. nýr liður, að til vinnumiðlunar verði veittar 200 þús. kr. Í fjárlfrv. er lagt til, að þær 100 þús. kr., sem veittar hafa verið til vinnumiðlunar, verði lagðar niður. Þetta er einn sparnaður ríkisstj., að fella þessar 100 þús. kr. niður, og eiga vinnumiðlunarskrifstofur þá um leið að hætta starfi nema á þeim stöðum, þar sem þær verða reknar af viðkomandi bæjarfélögum. Ég verð að segja, að ef þörf hefur verið á vinnumiðlun á stríðsárunum, þegar eftirspurn eftir vinnu var hvað mest, þá er lítt skiljanlegt, að nú, þegar atvinnuleysið gerir vart við sig, skuli eiga að leggja niður þennan millilið, en það virðist vera einn af þeim útgjaldaliðum, sem hæstv. fjmrh. vill losa sig við. Ég tel miklu frekar ástæðu til að tvöfalda þennan lið og ætla nú til vinnumiðlunarskrifstofunnar 200 þús. kr. í stað 100 þús. áður, svo að vinnumiðlunarskrifstofan geti fengið þann styrk, sem hún þarf til nauðsynlegrar vinnumiðlunar, til þess að atvinnulífið geti orðið sem blómlegast.

Í fjárlfrv. er reiknað með vísitölunni 115. Það er vitað mál, að þetta er í mótsögn við ástandið í dýrtíðarmálunum í dag. Vísitalan mun nú vera komin upp í 122–123 stig, eða 7–8 stigum hærri en sú vísitala, sem kaupgjald er reiknað eftir. Samkvæmt lögum á breyting að verða um næstu áramót, ef vísitalan verður þá komin 5 stigum hærra en hún var 1. júlí s.l., svo að nú um næstu áramót mun kaupgjaldshækkun fara fram. Og það virðist auðsætt, að þennan mismun verður að bæta. Hvert vísitölustig kostar 700 þús. kr., og gera þá 8 stig milli 5 og 6 millj. kr. Er því lagt til, að á 19. gr. verði varið til vísitöluuppbótar 5600000 kr.

Þessar till. við fjárlfrv. nema 30,18 millj. kr. hækkaðar tekjur og hækkuð gjöld um 30,5 millj. kr., svo að fjárlögin yrðu eftir sem áður með rekstrarhagnaði og hagstæðum greiðslujöfnuði.

Nú á þessum fjárl. er niðurstaðan sú, að reiknað er með 35,6–35,7 kr. rekstrarhagnaði og nokkurra hundruð þúsund kr. greiðslujöfnuði, en enda þótt þessar till. mínar yrðu samþykktar, mundu fjárl. eftir sem áður verða afgreidd með rekstrarhagnaði og hagstæðum greiðslujöfnuði, enda sjálfsögð stefna, að fjárl. séu afgreidd með hagnaði.

Ég hef nú talið fram brtt. mínar við fjárlfrv. Ástæðan fyrir því, að ég klauf n., og megingagnrýni mín er, að sparnaður hennar skuli beinast að ytri verklegum framkvæmdum og eflingu atvinnulífsins. Einu liðirnir, sem hækkaðir eru, eru til kláðalækninga og tugthúsbygginga, sem eru hækkaðir um 40%, en þrátt fyrir þetta er um stórfelldan niðurskurð til verklegra framkvæmda að ræða, en það, sem ávallt hlýtur að vera megintakmark hverra fjárl., er efling atvinnulífsins og verklegra framkvæmda.