05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samvinnunefnd samgöngumála gerir grein fyrir starfi sínu og undirbúningi að till. um flóabátastyrki og flutningastyrki á þskj. 281, og hún hefur í samræmi við það álit flutt brtt. við 13. gr. fjárl. um ákveðna styrkhæð í þessu skyni. Ég vil leyfa mér fyrir hönd n., sem er óklofin, að minnast á það, að hér á Alþ. hafa árlega verið uppi raddir um það, að nauðsynlegt og eðlilegt væri að draga úr fjárframlögum til flóabáta. Þessar ábendingar hafa verið byggðar á því, að með auknum strandferðum mætti spara ríkissjóði útgjöld til bátaferða á fjörðum og flóum. Ég skal ekki ræða nánar um möguleika þessa, en n. hefur á undanförnum árum gert tilraun til að færa þennan rekstur saman og draga með því úr útgjöldum ríkissjóðs, en þessar tilraunir hafa strandað í fyrsta lagi á mótmælum héraða þeirra, sem orðið hefðu fyrir þessari samanfærslu, og í öðru lagi á því, að þm. hinna einstöku byggðarlaga, sem þetta hefði snert, hafa beitt sér gegn þessu. Nú varð samkomulag um það innan samvn. að leggja til, að hæstv. ríkisstj. láti fyrir næsta reglulegt Alþ. fara fram athugun á því, hvernig þessum málum verður haganlegast og ódýrast komið fyrir, og athugað verði, hvernig leyst verði flutningaþörf þeirra héraða, sem erfiðast eiga í þessum efnum og styrkt hafa verið af fjárveitingavaldinu. Ég held, að ég mæli fyrir n. alla, þegar ég segi, að þar ríki mikill áhugi á, að fram fari rannsókn á þessum málum, því að það er ekki æskilegt eða heppilegt, að hér sé rætt um það ár eftir ár, að þessir styrkir séu óþarfir. Það er nauðsynlegt að fá fram, hvar þörf sé að breyta og hvar hægt sé að spara og hvar ekki sé hægt að fella niður. Ég vænti þess því, að hæstv. ríkisstj. verði við óskum, sem fram koma í nál. samvn., og láti rannsaka, hvernig þessu verði fyrir komið á heppilegastan og ódýrastan hátt. Rekstur flóabáta á þessu ári en nokkuð misjafn. Reksturinn hefur á sumum stöðum verið svo erfiður og dýr, að styrkurinn hefur engan veginn nægt og verulegur halli orðið á útgerðinni. Rekstur annarra báta hefur aftur á móti gengið allsæmilega. Samt sem áður hefur n. ekki séð sér fært að leggja til stórfelldar hækkanir, og er aðeins um að ræða smábreytingar frá síðasta ári, og mun ég koma að því síðar, og eins hve háar þessar upphæðir eru í heild.

Ég mun nú víkja að rekstri einstakra flóabáta. Þá eru það fyrst Breiðafjarðarsamgöngur. Þar voru ekki gerðar aðrar breytingar en þær, að niður var felldur 10 þús. kr. vélastyrkur, sem vélbáturinn Konráð, sem annast ferðir um norðanverðan Breiðafjörð, hafði á fjárl. þessa árs. Lækkunin nemur því 10 þús. á þeim lið. — Ísafjarðarsamgöngur hafa gengið mjög svipað og undanfarið. Rekstrarhallinn hefur verið mjög mikill eins og á undanförnum árum, en hann var rúml. 50 þús. kr. 1949 þrátt fyrir ríkisstyrkinn og 55 þús. kr. 1948, og vitað er, að hann mun ekki verða minni á yfirstandandi ári. Stjórn Djúpbátsins, sem annast þessar ferðir, hefur farið fram á verulega hækkun á styrk til þessara ferða og telur, að ella hljóti þær að stöðvast héraðinu til óbætanlegs tjóns. Nefndin sá sér ekki fært að verða við þessum óskum, né heldur að greiða upp halla á þessum ferðum á undanförnum árum, en vildi þó freista þess að ganga nokkuð á móti þessum óskum félagsins, svo að þessar nauðsynlegu samgöngur féllu ekki niður. Nefndin leggur því til, að styrkurinn til Djúpbátsins verði hækkaður um 10 þús. kr., svo að hann nemi nú 240 þús. kr. — Norðurlandssamgöngur virðast hafa gengið sæmilega á árinu. Verkefni Húnaflóa- og Strandabátanna hefur að vísu verið lítið, af sömu ástæðum og undanfarin ár, aflabresti á síldveiðum og erfiðleikum í verksmiðjuþorpunum á Ströndum. Eina breytingin, sem n. leggur til að gerð verði á styrkveitingum til Norðurlandsbátanna, er sú, að lækkað verði um 9 þús. kr. framlag til Flateyjarbáts á Skjálfanda, en hann fékk þá upphæð á þessu ári til vélakaupa. — Þá eru Austfjarðasamgöngur. Þar eru þær breytingar einar gerðar, að niður fellur 4 þús. kr. vélastyrkur til Mjóafjarðarbáts, en lagt er til, að Loðmundarfjarðarbáti verði veittur 10 þús. kr. styrkur til vélakaupa á þessu ári. — Þá vil ég minnast á Suðurlandsskipið, sem raunar er ekkert fljótandi far, heldur hefur Alþ. um langt skeið veitt Vestur-Skaftafellssýslu nokkurn styrk til vöruflutninga á hinni löngu og erfiðu flutningaleið til þess héraðs. Styrkur þessi hefur verið 60 þús. kr. um nokkurt skeið, en nemur 80 þús. kr. á yfirstandandi ári. Nú lágu fyrir n. tilmæli frá sýslunefnd héraðsins og þm. að hækka þennan styrk verulega, eða í 150 þús. kr., þar sem flutningskostnaður hafi hækkað mjög mikið, og enn fremur voru ítrekuð þau upphaflegu rök fyrir þessu, að flest önnur héruð njóti strandferða og stuðnings ríkisins til þeirra, og á þessum forsendum taldi sýslunefnd og þm. kjördæmisins að hækka bæri þennan styrk allverulega. N. taldi sér þó ekki fært að mæla með svo mikilli hækkun, þó að hún hins vegar viðurkenni sérstöðu og erfiðleika V.-Skaftfellinga á þessu sviði, en hún vildi ganga nokkuð til móts við óskir þeirra og lagði því til, að styrkurinn til Suðurlandsskipsins skyldi hækka um 20 þús. kr., eða í 100 þús. kr. — Ég sé svo ekki ástæðu til að rekja nánar till. n. um styrki til einstakra báta. Till. eru að mestu óbreyttar frá síðustu fjárl., og áætlar n. styrkupphæð í þessu skyni nú 975 þús. kr., eða 17 þús. kr. hærri en var á síðustu fjárl., en þá námu styrkir þessir 958 þús. kr.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að síðastliðin ár hafa útgjöld ríkissjóðs vegna þessarar nauðsynlegu þjónustu, sem flóabátarnir veita fjölmörgum byggðarlögum víðs vegar um land, sáralítið hækkað. En á sama tíma hafa útgjöld ríkisins hækkað hröðum skrefum og fjárl. ríkisins hækkað um meira en 100 millj. kr. En þrátt fyrir þetta hefur verið reynt á ári hverju af samvn. samgm. og fjárveitingavaldinu að tryggja þennan nauðsynlega rekstur. Þó er því svo komið nú, að hæpið er, að einstakir bátar geti staðizt hinn aukna kostnað þrátt fyrir ríkissjóðsstyrkinn. Nefndin væntir þess þó, að reksturinn takist sæmilega á næsta ári og geti gegnt hlutverki sínu í þágu héraða, sem hafa við erfiðar samgöngur að búa.

Ég vil svo ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að n. er það mikið áhugamál, að rannsókn fari fram á þessum málum, svo að álitsgerð um framtíðarlausn þessara mála geti legið fyrir næsta reglulegu Alþ.

Þá vildi ég leyfa mér að fara örfáum orðum um brtt., sem ég hef flutt ásamt hv. 6. landsk. á þskj. 280; hún er við 13. gr. og á þá leið að upp verði tekinn nýr liður og veittar verði 300 þús. kr. til brúargerðar á Selá á Langadalsströnd. Hv. fjvn. hafði málið til meðferðar, og var það rætt þar. En þetta vatnsfall er eitt hið versta á Vestfjörðum, og svo hagar til, að við borð liggur, að myndarleg býli leggist í auðn, ef hún fæst ekki brúuð innan tíðar.

Þá er á sama þskj. önnur tillaga, sem við erum flm. að, og er hún nýr liður og fjallar um 20 þús. kr. styrk til bryggjugerðar á Sæbóli í Aðalvík. Sléttuhreppur hefur orðið hart úti á undanförnum árum, en þó standa vonir til, að byggðin haldist, ef aðstaðan fæst bætt fyrir þá smábátaútgerð, sem þar er stunduð. Og þess ber að geta, að til hafnargerðar á þessum stað hafa verið veittar 20 þús. kr., sem geymdar eru í sjóði.

Þá eru tvær brtt., VII. liður á sama þskj., sem við erum einnig flm. að. Er hin fyrri um heimild til ríkisstj. til að verja 100 þús. kr. til viðgerðar á brimbrjótnum í Bolungavík. En eins og menn muna, þá var hafizt handa um framlengingu á honum 1946, og þau ósköp skeðu þá síðla haustsins, að mjög mikill hluti þessa mannvirkis hrundi, af ástæðum, sem héraðsmönnum og þeim, sem fyrir verkinu stóðu, voru með öllu ósjálfráðar. Þetta sérstaka tjón er raunar viðurkennt að beri að bæta, og hefur nokkurt fé verið veitt til þess nú þegar, enda hefur fjárveitingavaldið talið sér skylt að hlaupa undir bagga, þar sem svipað hefur staðið á. Fátæk byggðarlög eru þess engan veginn megnug að standa undir slíku tjóni. Ég vil af þessum ástæðum leyfa mér að vænta þess, að till. verði samþ., og þótt fjvn. hafi ekki tekið þetta upp í brtt. sínar, þá veit ég að hún skilur, hver nauðsyn hér er á. — Þá er í b-lið brtt. lagt til, að hlutatryggingasjóði sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavík verði veittar 30 þús. kr. vegna starfsemi sjóðsins á árunum 1939–1944. Þessi sjóður hefur starfað allt frá árinu 1939 og til þessa dags, en lögin um hann falla nú úr gildi við gildistöku hinna almennu l. um hlutatryggingar. Fjárveitingavaldið hefur greitt framlag til sjóðsins á árunum 1944–50 samkvæmt heimildarlögunum um hlutatryggingarsjóði frá 1944, á móti framlögum sjómanna og útgerðarmanna á staðnum. En hér er farið fram á, að ríkissjóður greiði einnig framlag til sjóðsins fyrir tímabilið áður en l. tóku gildi 1945. Síðan sjóðurinn tók til starfa, hafa sjómenn og útgerðarmenn greitt af óskiptum afla 2% í þessu skyni, og á tímabilinu frá 1939–45 án mótframlags. Hér er því um mikið sanngirnismál að ræða. Bolvíkingar brutu hér ísinn í merkilegu máli og urðu áratug á undan öðrum að koma á hjá sér þessari skipan í tryggingamálum útvegsins. Þetta tiltölulega litla sjávarþorp ruddi þannig brautina og ætti að njóta þess, en ekki gjalda. Og fyrst Alþingi gekk inn á þá braut, sem sjálfsagt og eðlilegt var, að greiða mótframlag á fyrrnefndu tímabili, þá þykir sanngjarnt, að þessar 30 þús. kr. verði einnig greiddar. Ég treysti því, að Alþ. meti það merkilega starf, sem hér hefur verið unnið, og veiti till. okkar brautargengi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja mál mitt; ég hef gert grein fyrir mínum brtt., öðrum en þeirri, sem ég stend að og er V. liður á sama þskj., en þar eru margir flm. Þessi liður fjallar um fjárveitingu til sinfóníuhljómsveitar, og fyrir henni mun hv. 1. flm. gera grein.

Ég vil svo leyfa mér að þakka hv. fjvn. hennar góðu undirtektir við málefni míns héraðs, enda þótt margs sé að sakna í till. hennar og mörg séu verkefnin óleyst, sem maður vildi að komizt hefðu frá. En það er nú hlutskipti þm. yfirleitt, ekki sízt úr þeim kjördæmum, þar sem margt kallar að, að verða að horfa upp á það, að hlutirnir gangi seint og framkvæmdir svo að segja sniglist áfram. Þá miðar samt í rétta átt; og ég efast ekki um, að hv. fjvn. skilur, að það er rík nauðsyn, sem rekur á eftir um brtt. einstakra þm., enda þótt þær hafi ekki hlotið náð fyrir hennar augum.