05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

1. mál, fjárlög 1951

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær smávægilegar brtt. á þskj. 274. Hin fyrrí, sem er IV. liður á þessu þskj., er um að hækka framlagið til Skagastrandarhafnar úr 150 þús. kr. í 220 þús. kr., og er þá miðað við, að fjárveitingin sé hækkuð til samræmis við veitingar til hafna í sama flokki. Í raun og veru hefði þessi höfn þurft meira fé en þetta, einkum til að létta af áföllnum skuldum á þessu ári. Mér hefur skilizt af viðtölum við menn úr n., að þeir hafi fært framlag til hafnarinnar niður vegna þess, að hún hafi lent í greiðsluþrotum og ríkissjóður orðið að hlaupa þar undir bagga. En orsakirnar til þessa eru einkum tvær. önnur er sú, hin almenna, að framkvæmdir hafa orðið mjög óhagstæðar, þar sem unnið hefur verið með smáum fjárframlögum, smátt og smátt, og því ekki orðið neitt viðlíka tekjur af mannvirkinu eins og raun hefði orðið á, ef verkið hefði verið unnið í einni til tveimur lotum. Hin orsökin er svo sú, að allan tímann síðan síldarverksmiðjan var byggð á Skagaströnd, hefur verið aflabrestur; en það skilja allir, sem með slíku hafa fylgzt, hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir afkomu hafnarinnar. Ég leyfi mér því að vænta þess, þar sem hér er aðeins farið fram á smáa hækkun á fjárveitingu til mikils mannvirkis, að þessi till. megi ná fram að ganga.

Þá er hin brtt., sem er nr. VI á sama þskj. og fjallar um 30 þús. kr. styrk til fyrirhleðslu til verndar Saurbæ í Vatnsdal. Þessi jörð hefur lengi verið í eigu ríkisins, og fyrir ágang Vatnsdalsár er svo komið, að jörðin er orðin engjalaus og áin farin að brjóta af túninu. Er fyrirhleðsla því mjög aðkallandi. Áætlað er, að hún muni kosta 70–80 þús. kr. Nú er það svo, að þegar slíkar jarðir eru í eigu ríkisins, þá verður það annaðhvort að gera: að leggja fram fé til að bjarga því, sem bjargað verður, eða þá að selja jörðina fyrir það litla fé, sem unnt kynni að vera að fá fyrir hana. Hér er fram á það eitt farið, að bjargað verði verðmæti, sem ríkið á sjálft; en til slíkra framkvæmda hefur hinn tiltölulega fátæki bóndi, er jörðina situr, ekki það fjármagn, sem nauðsynlegt er.

Ég mun svo ekki lengja þetta mál mitt eða fara út í almennar umræður um fjármálaástandið að þessu sinni.