20.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

1. mál, fjárlög 1951

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér út í almennar umræður um fjárlögin, en ég hef leyft mér að flytja tvær brtt., á þskj. 280 og 291. Sú fyrri er þess efnis, að það er ungur námsmaður við dýralækninganám í Svíþjóð og er að ljúka námi, en er í mikilli fjárþröng. Á þessa árs fjárlögum voru honum veittar 5 þús. kr., og mælist hann til þess, að Alþ. geri það aftur nú. Ég ætlaði ekki að flytja fleiri brtt., en þegar átti að fara að seilast svo gott sem í minn eigin vasa, þá gat ég ekki látið þar við sitja. Ég vil byrja á því að upplýsa fyrir hv. þdm., hvað það er, sem kallað er Skógarstrandarvegur, því að ætla mætti, að hann næði aðeins yfir Skógarströndina í Snæfellsnessýslu. En hann nær meira en yfir Skógarströndina sjálfa, því að hann nær svo gott sem yfir 2 hreppa í Dalasýslu, Hörðudal og Miðdali, og í Snæfellsnessýslu áfram út Skógarströnd alla leið til Stykkishólms. Venjan hefur verið sú að veita í einu lagi ákveðna upphæð til Skógarstrandarvegar, en flest árin hefur féð verið notað í Snæfellsnessýslu og ekki nema lítill hluti þess eða enginn í Dalasýslu. En í fjárlögum í fyrra var þó fénu skipt og kveðið svo á, að 35 þús. kr. skyldu notaðar í Dalasýslu. En nú sýnist mér, að framlag í Snæfellsnessýslu sé aukið um 25 þús. kr., en það er víst ekki nóg, því að hv. þm. Snæf. vill nú einnig fá þessar 35 þús. kr., sem ætlaðar eru í Dalasýslu, í viðbót. Virðist till. þessi mjög einkennileg, þar sem fénu var skipt í fyrra einmitt til að fyrirbyggja það, að féð yrði notað allt í annarri sýslunni. Ef tekið er saman það, sem ætlað er til umbóta í þessum tveim sýslum nú, þá kemur í ljós, að 1 millj. og 265 þús. kr. fara í Snæfellsnessýslu, en ekki nema 1/3 af þeirri upphæð til Dalasýslu, eða rúm 400 þús. kr. Það sér því hver maður, hve það er óréttmætt að seilast í þessar 35 þús. kr. frá Dölum til viðbótar. Hv. þm. Snæf. kallaði þetta sanngjarna kröfu. Ég vil segja, að mér þykir sú sanngirni einkennileg, og ég vona, að þingheimur líti einnig svo á. Það hefur lengi verið áhugamál Dalamanna að fá veg yfir Heydal, lagðan úr Hnappadal og niður á Skógarströnd í Snæfellsnessýslu. En til þess, að þessi vegur geti komizt á, þá þarf að hraða veginum að fjallgarðinum, og hygg ég, að sá vegur verði ekki síður í þágu Snæfellsnesbúa, og því rétt að nota féð á innanverðri Skógarströnd. Og það má einnig geta þess, að Skógarströnd hefur farið svo varhluta í þessum efnum, að svo gott sem annar hver bær þar er nú kominn í eyði, og er þar þó blómlegt sauðfjárland. — Ég ætlaði ekki í fyrstu að flytja þessa brtt., en ber hana fram til þess að mótmæla brtt. hv. þm. Snæf. og sýna fram á, hve hann fer þar með ósanngjarnt mál. Og eitt er víst, að Skógstrendingar líta ekki eins á málið og hann, því að mikill hluti þeirra verzlar við Búðardal, og því mikill léttir fyrir þá, ef vegurinn á innanverðri ströndinni yrði bættur. Það er til að bæta úr fyrir Suður-Dalamönnum og Skógstrendingum, að ég ber þessa till. fram, þar sem ég fer fram á, að í Hörðudal og á innanverðri Skógarströnd verði unnið fyrir því, sem ætlað var á utanverða ströndina. Ég ræði þetta svo ekki meir, en vænti þess, að þm. sýni þessu máli skilning.