05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það væri freistandi að svara ýmsum fjarstæðum í ræðu hv. 6. landsk., en ég vil ekki þreyta hæstv. forseta á því. Þó get ég ekki látið hjá líða að mótmæla tveim atriðum, sem fram komu í ræðu hans Hv. þm. fullyrti í fyrsta lagi, að meiri hl. fjvn. og ég sem form. hennar hefði verið bundinn í báða skó og ekki getað borið fram sjálfstæðar brtt. við frv. Þetta er alrangt. Ég lagði fyrir hæstv. ríkisstj. mjög víðtækar brtt. til lækkunar á móti þeim till. okkar, sem til hækkunar horfðu, því að ég taldi það skyldu mína, ef ég vildi flytja till. til hækkunar, þá yrði ég annaðhvort að benda á nýjar tekjur eða gera till. um lækkun á móti, og hv. þm. veit, að gengið var inn á margar af mínum till., og fer hann því hér með eintómt fleipur. Þá fullyrti hv. 6. landsk. einnig, að ég hefði fengíð greidd fjórðungsaldarlaun verkamanns fyrir umsjón mína með togarakaupunum í Englandi. Þetta er herfileg firra. Þegar öllum starfsmönnum hefur verið greitt, eru það ekki einu sinni eins árs verkamannslaun, sem runnið hafa til mín. — Ég skal svo láta þetta nægja, en ég gat ekki látíð þessum staðlausu fullyrðingum ómótmælt.