11.10.1950
Sameinað þing: 1. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Varamenn taka þingsæti

Aldursforseti (JörB):

Forseta sameinaðs þings hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Brekku í Mjóafirði, 27. sept. 1950.

Vegna mjög erfiðra kringumstæðna heima fyrir vil ég hér með leyfa mér að tilkynna yður, hæstvirti forseti, forföll mín frá þingsetu um sem næst þriggja vikna skeið frá setningu Alþingis þann 10. október n.k.

Jafnframt tilkynnist yður, að ég hef beðið 2. varaalþingismann Framsóknarflokksins í Suðu-Múlasýslu, herra Björn Stefánsson kaupfélagsstjóra á Stöðvarfirði, að taka sæti mitt á meðan, þar sem fyrsti varamaður, herra Stefán Björnsson bóndi á Berunesi, hefur tjáð mér, að sér sé eigi mögulegt að gegna þingstörfum á umræddu tímabili.

Með fyllstu virðingu,

Vilhjálmur Hjálmarsson.

Til forseta sameinaðs Alþingis, Reykjavík.“

Þá hefur borizt hér annað bréf, svo hljóðandi:

„Reykjavík, 11. október 1950.

Lúðvík Jósefsson, 2. landsk. þm., hefur tjáð mér, að hann geti ekki sótt þingfundi næstu tvær vikur vegna óvenjulegra anna heima fyrir, og leyfi ég mér því samkv. beiðni hans, með skírskotun til 144. gr. kosningalaganna, að fara fram á, að varamaður hans, Magnús Kjartansson ritstjóri, taki sæti hans á þingi í fjarveru hans.

Einar Olgeirsson.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Enn hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 11. okt. 1950.

Hannibal Valdimarsson, 6. landsk. þingmaður, hefur í dag tilkynnt mér símleiðis, að hann geti ekki komið til þings næstu vikurnar, vegna þess að honum hafi ekki enn þá tekizt að fá mann fyrir sig til þess að gegna skólastjórastörfum. Óskar hann því, að varamaður taki sæti hans á Alþingi.

Ég leyfi mér því að óska, sem formaður Alþýðuflokksins, að Guðm. Í. Guðmundsson bæjarfógeti, sem er fyrsti landskjörinn varamaður flokksins, taki nú sæti á Alþingi í stað Hannibals Valdimarssonar.

Virðingarfyllst,

Stefán Jóh. Stefánsson.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Loks hefur borizt eftirfarandi bréf: „Reykjavík, 11. okt. 1950.

Vegna fjarveru viðskiptamálaráðherra, Björns Ólafsonar, 3. þm. Reykvíkinga, er þess hér með óskað, að 1. varaþm. Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hr. Ólafur Björnsson prófessor, taki fyrst um sinn sæti á Alþingi í hans stað.

Virðingarfyllst,

Ólafur Thors.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Kjörbréf Björns Stefánssonar, 2. (vara)þm. S-M., var samþ. hér á fundi í gær, en kjörbréf hinna varamannanna þriggja hafa verið rannsökuð áður og samþ. Taka þessir varamenn nú sæti á þingi um stundarsakir, eins og óskað er í bréfum þeim, sem ég hef lesið.