14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

1. mál, fjárlög 1951

Forseti (JPálm):

Áður en umræða hefst, þarf ég að fá afbrigði frá þingsköpum. Þannig er mál með vexti, að við framhald 1. umr. voru samþ. þau afbrigði frá þingsköpum að fresta eldhúsdagsumræðum til 3. umr. Nú hefur það orðið að samkomulagi milli mín og forstöðumanna þingflokkanna að fresta þessum eldhúsdagsumræðum fram yfir nýár, og það er gert á þeim grundvelli að ég sem forseti beri ábyrgð á, að þingi verði hvorki slitið né frestað fyrr en þær umræður hafa farið fram. Í öðru lagi, að þær umræður færu fram með þeim sama hætti, sem ákveðið er í þingsköpum, að svo miklu leyti sem ekki verður samkomulag um að stytta þann tíma, eins og oft hefur verið gert. Í þriðja lagi ber ekki að skoða þetta sem neitt fordæmi um nýjan sið á þessu sviði. Það eru allir sammála um, að þessi frestur komi því aðeins til greina, að það séu allir aðilar sammála eins og nú. En til að staðfesta þetta þarf að fá atkvæðagreiðslu um þessi afbrigði.