14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

1. mál, fjárlög 1951

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi gjarnan fá frekari upplýsingar frá hæstv. forseta, hvernig hugsað er að hafa þessar væntanlegu, almennu útvarpsumræður síðar á þinginu. Hæstv. forseti sagði, að þá yrði útvarpað í sambandi við fjárlögin. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því. Nú skilst mér, að meiningin sé að afgreiða fjárlögin til fulls frá þinginu næstu daga, og verður það þingmál þá vitanlega ekki tekið á dagskrá þingsins framar, því að það er þar með afgreitt sem lög. Hvernig þingmál verður þá þetta, sem útvarpað verður í umræðunum? Hvernig verður það? Hver flytur það inn í þingið? Hvaða form verður á því? Mér er ekki ljóst, hvernig þessu verður háttað.

Hitt er annað mál, að vitanlega bíða mörg mál óafgreidd í Sþ., sem flokkarnir geta komið sér saman um að fá útvarpsumræður um, t.d. endurskoðun áfengislöggjafarinnar. Mörg fleiri mál gætu líka komið þar til greina. Mér er hins vegar ekki ljóst, hvernig hægt er að tengja slíkar umræður fjárlögunum, sem búið verður að afgreiða. Ég er því mjög fylgjandi, að fjárlögin verði afgr. til fulls fyrir jól, en ég vildi fá nánari skýringu frá hæstv. forseta á þessu áður en lengra verður haldið.