14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

1. mál, fjárlög 1951

Forseti (JPálm):

Ég vil taka fram út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég gaf hér tvær yfirlýsingar, áður en þessar umr. hófust, sem eru í samræmi við það samkomulag, er um þetta var gert milli mín og formanna þingflokkanna og ég gerði ráð fyrir að mundi nægja í þessu efni. Önnur yfirlýsingin var sú, að ég beri ábyrgð á þessari breyt. sem forseti, og ég get bætt því við, að ef ég forfallast, skoða ég það skyldu þess, sem þá gegnir forsetastörfum, að sjá um, að þessar umr. fari fram, áður en þingi verður slitið til fulls, og í öðru lagi það, að það er ákveðin yfirlýsing og skoðun þm. og þingflokka, að sú breyt., sem hér er gerð, komi ekki til mála nema með samkomulagi milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstj. og hennar stuðningsmanna. Mér kom á óvart, að hér yrðu umr. um afbrigði, en get að öðru leyti vísað í aðalatriðum til ræðu hæstv. landbrh., sem skýrði vel, hvernig verið hefur um eldhúsdagsumr. að undanförnu, og það mun ekki breytast, þó að þeim verði frestað þar til fjárl. sjálf hafa verið afgr.