14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

1. mál, fjárlög 1951

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um formið á þessu, en ekki efni málsins að öðru leyti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta efni.

Ég skal aðeins segja það viðvíkjandi því, sem hæstv. forseti sagði, að fyrirmæli forseta ætti jafnt að gilda fyrir aðra forseta, að forseti hefur, hver sem hann er, fullt vald og óskorað, meðan hann gegnir því starfi, og ber honum beinlínis að gera það, sem hann álítur lögum samkvæmt og rétt.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um það, að stjórnarandstöðunni hafi einu sinni verið neitað um að útvarpa eldhúsdagsumr., þá minnir mig, að þar væri ekki um þingflokk að ræða, en þingsköp mæla svo fyrir, að þingflokkur eigi rétt til að krefjast útvarpsumr. um mál.

Ég efast ekki um það, sem hæstv. landbrh. sagði, að fullnægja verður lagaákvæðum um það, að þessum umr. skuli útvarpa, og það þannig, að fólkið hafi sem bezt tækifæri til að hlusta á umr., og að ekkert skorti á það af þingsins hálfu, að þær geti farið þannig fram. En það var ekki það, sem ég vildi fyrst og fremst minnast á, heldur aðeins formið, að því leyti sem það getur ekki fallið saman við ákvæði gildandi l. Það er aðeins það atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni, og ég vil benda á það, að mér finnst, þótt samkomulag verði um málið milli allra þingflokka, að við getum ekki gengið út fyrir þau takmörk, þegar þetta mál kemur til umr. eftir áramótin. Ég er sammála því, að fjárl. verði afgr. nú fyrir hátíðarnar, en þá er það mál afgr. að fullu frá Alþingi, og ekki er nokkur leið að gera það mál, sem afgr. er, formlega að umtalsefni á Alþingi. Það form held ég að maður geti ekki haft á þessu. Það yrði að vera í sambandi við eitthvert annað þingmál. Sú hefur a.m.k. verið venjan, og ég held, að hyggilegt sé og rétt að halda þeirri venju, og skilst mér, að það sé unnt að ná því með samþykki þingflokkanna, þó að það sé ekki kallað eldhúsdagsumr. Það er nægilegt, að yfirlýsing komi um það af hálfu þingflokkanna, að þetta skuli koma í stað eldhúsdagsumr. Þetta heiti í okkar löggjöf hefur sérstaka merkingu, og þingsköp mæla sérstaklega fyrir um það, hvernig þær skuli fara fram, og það er ekki hægt án breyt. á þeim l. að færa þær umr, yfir á annað mál og segja svo með einföldum afbrigðum frá þingsköpum, að þetta skuli gilda fyrir þetta mál og heita eldhúsdagsumr. Þó að við höfum sem bezt samkomulag um þetta og höfum það í huga að fara út yfir frekari takmörk í þetta sinn og höfum það jafnframt í huga, að við ætlumst ekki til, að það verði notað sem fordæmi, hvorki á þessu þingi né síðar, þá erum við ekki herrar yfir þessari stofnun nema á líðandi stund. Síðar koma aðrir, og hvað gera þeir? Þessi orð mín eiga þó á engan hátt að skiljast sem mótmæli gegn því, að þessar umr. fari nú fram eftir áramót, þó að búið sé að afgr. fjárl., heldur vil ég beina þeim eindregnu óskum til Alþingis, að það gæti þess, að með þessari framkvæmd sé ekki brotið í bága við skýlaus fyrirmæli þingskapa, málinu ekki skipað á þann hátt, sem ég veit ekki til að nokkurn tíma hafi verið gert fyrr. Það eru viss atriði í þingsköpum, sem bingið hefur aldrei leyft sér að fara út fyrir, svo sem umræðutími, umræðufjöldi og útvarp einstakra mála, hvernig mál eru lögð fyrir og afgr. Ég hygg, að þetta sé nokkurn veginn hrukkulaust og alltaf hafi verið reynt að halda sér við þessi grundvallaratriði þingskapanna. Ég tel ekki gætilegt af þinginu, ef það ætlar nú ekki að sýna fulla aðgæzlu í þessu efni.