14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

1. mál, fjárlög 1951

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Á þskj. 402, XX flyt ég ásamt þremur öðrum þm. till. um, að við 18. gr. bætist, að Bryndís Þórarinsdóttir, ekkja séra Árna Sigurðssonar, fái 6 þús. kr. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að séra Árni Sigurðsson var einn af mest þekktu mönnum kirkjunnar. Hann var prestur Fríkirkjunar um 30 ár og sem útvarpsprestur var hann klerkur allrar þjóðarinnar. Má segja, að menn virtu hann og dáðu. Fyrir þetta starf sitt tók hann aldrei nein laun frá ríkinu. Samtímis starfinu fyrir kirkjuna og kristna trú vann hann að félagsstörfum og mannúðarmálum o.fl. Eitt af áhugamálum hans var að færa fríkirkjuna og þjóðkirkjuna hvora nær annarri með samvinnu og hlýhug. Ber margt vitni um, að hann var mikils virtur af prestum, m.a. átti hann sæti í stjórn Prestafélagsins. Hann safnaði ekki auði, var fátækur allt sitt líf og skildi ekki eftir nein auðæfi, er hann lézt. Íslenzka þjóðin stendur öll í þakkarskuld við séra Árna sem ágætan kennimann og mann. Vænti ég þess, að Alþingi sýni þakklæti nú í verki og samþykki till.