14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

1. mál, fjárlög 1951

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er sökum þess, að mér var ekki unnt annað en að bera fram tvær brtt., að ég flyt þær og tek hér til máls. Ég ætla á engan hátt að gera fjárlfrv. að umræðuefni að öðru leyti en með þessum till. Ég var farinn að vona, að fjvn. fríaði mig við að bera fram nokkra brtt. Mér finnst, að mínum umbjóðendum sé sýnd lítil sanngirni og sízt réttlæti gert með brtt. eins og fjvn. hefur gengið frá þeim. En ég hygg, að þetta sé óviljaverk, sem stafar af ónógum upplýsingum um málið. Í 16. gr., 47. og 18. lið, er gert ráð fyrir 20 þús. kr. framlagi til framræslu á Eyrarbakka og Stokkseyri. Landbrn. hafði gert ráð fyrir 20 þús. kr. til Eyrarbakka, en þetta er aðeins greiðsla á skuld, sem loforð var fengið um áður, fyrir verk, sem þegar er búið að vinna. Stokkseyringar höfðu lagt erindi til rn. um að fá fé til framræslu. Landbrn. hefur lagt til, að þetta væri tekið inn á fjárlfrv., en af því hefur ekki orðið. Hv. fjvn. hefur gert það að till. sinni að skipta þessu framlagi í tvennt og láta helming skuldarinnar bíða, en láta Stokkseyringa fá 10 þús. kr. til framræslu. Þetta er alveg nýr háttur, að fjvn. taki af þeim skuldum, sem ríkissjóður ætlar að borga, og ráðstafi þeim á annan hátt. Ríkið keypti Háeyrartorfu og Stokkseyrartorfu, en Landsbankinn átti þær jarðir áður. Hann samdi við þá, sem nytjuðu jarðirnar, að þeir skyldu ræsa fram og þurrka landið með það fyrir augum að efla túnræktina. Hét hann ábúendunum greiðslu fyrir þær framkvæmdir. Síðan ríkið eignaðist þessar jarðir hefur dregið mjög úr framkvæmdum þar, og þó einkum í seinni tíð. Framlagið hefur gengið til stærsta skurðarins. Hvað viðvíkur framræslu í gegnum malarkambinn, var framræslan ætluð sem rennsli frá húsum jafnframt hinu.

Ég þekki fólkið vel í báðum kauptúnunum og veit, að það vinnur vel sitt verk, enda geta útvegsmenn, sem hafa ráðið menn þaðan til vinnu, borið það. Og ég hef aldrei heyrt, að því væri brugðið um, að það gengi ekki vel til verks, eins og hv. form. fjvn. vildi vera láta. Hvað viðvíkur minni skurðinum, þá fá þeir, sem nytja löndin, jarðræktarstyrk, en verða að leggja fé á móti úr sínum eigin vasa. Ég kann ekki við, að annar háttur sé hafður við greiðslu til þessa fólks heldur en um greiðslur til annarra landsmanna. En þessar 20 þús. kr. eru aðeins greiðsla á gamalli skuld fyrir áður unnið verk. Á Stokkseyri stendur öðruvísi á en á Eyrarbakka. Sú framræsla verður að fara í gegnum malarkambinn. Til þessa verks hefur ekki fengizt annar styrkur en sem Alþingi hefur veitt svona. Þegar miklir vatnavextir eru, flæðir yfir tún og engi og veldur stórskemmdum; og þetta ræsi flytur ekki nema lítinn hluta þess vatnsmagns, sem það þyrfti að gera. Þá flæðir inn í íbúðarhús og veldur stórtjóni á húsnæði og innanstokksmunum. Í gegnum malarkambinn þarf um 200 m langt steypt rör. Ég hef rætt um þetta við oddvita hreppsins, en við munum ekki, hver áætlunin var. En okkur minnir báða, að áætlað hafi verið, að verkið kostaði 130 þús. kr., en þess ber að gæta, að það er miðað við það verðlag, sem var þegar áætlunin var gerð. En nú geta ýmis atriði gripið inn í til að auka kostnaðinn; t.d. er klappir verða fyrir, eykur það að sjálfsögðu kostnaðinn, en hve mikið er manni ekki kunnugt um á þessu stigi málsins.

Nú flyt ég þá brtt., að Eyrarbakki fái greiðslu á skuld sinni, en Stokkseyri fái 20 þús. kr. framlag. Íbúarnir í þessum kauptúnum verða að lifa mestmegnis á landbúnaði, og er þessi framræsla því lífsnauðsyn. Hún kemur í veg fyrir spjöll á húsakynnum og ræktuðu landi, auk þess sem hún er óhjákvæmileg fyrir frekari ræktun og framkvæmdir. Ég vona, að hv. þm. sjái, að hér er ekki verið með óþarft erindi eða að freklega sé farið í sakirnar. Von mín er, að hv. þm. snúist vel við nauðsynjakröfum þessara manna. Og ef það er haft í huga, að þetta er brýnt nauðsynjamál, með tilliti til þess, að fólkið getur ekki búið lengi þarna undir þeirri hættu, sem stafar af sífelldum vatnavöxtum, er þetta ein leið til að halda fólkinu úti á landinu. Það er æskilegt, að þetta sé meira en í orði, þegar sýnt er, að hugur fylgir máli. Íbúar þessara þorpa eiga afkomu sína fyrst og fremst undir landbúnaðinum. Sjávarútvegur er þar aðeins í ígripum vegna hafnleysis og brima. Og mörg er sú vertíðin, sem aðeins hefur verið hægt að róa fáa daga, og gefur það að sjálfsögðu lítið í aðra hönd. Þar eð ríkið á nú þessa eign, vona ég, að hv. Alþ. og fjvn. vilji sýna lit á því að koma til móts við þetta fólk með fyrirgreiðslu.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég vildi bara, að hv. fjvn. fengi réttar upplýsingar í þessu máli. En hún leit á þessa framkvæmd að öllu leyti frá sjónarmiði jarðræktarlaganna. Ég held, að form. fjvn. sé á annarri skoðun en ég í þessu máli, og er það byggt á misskilningi, og vona ég, að hv. fjvn. taki upp þetta framlag. Ég, vænti þess, að þetta verði leyst á sem hagkvæmastan hátt og þetta fólk, sem hér um ræðir, fái úrlausn á málum sínum.