14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

1. mál, fjárlög 1951

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi byrja á því, að leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefur tekið upp í brtt. sínar till., sem ég flutti ásamt hv. 6. landsk. við 2. umr. fjárlfrv., um það, að ríkisstj. verði heimilað að greiða hlutatryggingasjóði sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavík 30 þús. kr. Hún er flutt sem brtt. við 16. gr. Við flm. erum n. þakklátir fyrir þann skilning, sem kemur fram hjá henni á því merka brautryðjandastarfi, sem sjómenn og útgerðarmenn í Bolungavík hafa unnið.

Við þessa umr. flyt ég ásamt hv. 6. landsk. einungis tvær brtt., sem varða mitt kjördæmi. Vildi ég leyfa mér að ræða fyrst þá, sem er á þskj. 412, rómv. 7, um heimild fyrir ríkisstj. til að verja í samráði við vitamálastjóra fé til viðgerðar á brimbrjótnum í Bolungavík vegna skemmda, er urðu á mannvirkjum þar 10 des. s.l. Svo er mál með vexti, að okkur flm. þessarar till. hafa í dag borizt þau hörmulegu tíðindi í símskeyti frá hreppsnefnd Hólshrepps, að hinn 10. des. s.l. hafi í ofviðrinu, sem þá geisaði, orðið mjög verulegar skemmdir á hafnarmannvirkjum þeirra Bolvíkinga, brimbrjótnum. Þá gerðist það og, að steypuker fremst á hafnargarðinum snaraðist og snerist út á við og platan ofan á hafnarmannvirkjunum sprakk á 10 metra svæði fremst, og 400–500 rúmmetrar af grjótfyllingu skoluðust burt. Ekki er enn þá unnt að meta tjónið af þessum skemmdum. En eftir því sem okkur er tjáð, er ólíklegt, að það verði undir 300 þús. kr. Hreppsnefndin hefur nú snúið sér til okkar og óskað þess, að fjárveitingavaldið hlaupi undir bagga með hreppsfélaginu til þess að bæta þetta mjög svo örlagaríka tjón á hafnarmannvirkjum staðarins. Það liggur í augum uppi, að þegar sjávarþorp, sem byggir alla sína afkomu á útgerð og sjósókn, verður fyrir því áfalli, að hafnarmannvirki spillast eða skemmast stórlega, þá verður skjótt að bregða við um viðgerð. Nú er það að vísu svo, að í hávetrar skammdegi er ekki unnt að hefjast handa um viðgerð á slíku mannvirki. En þrátt fyrir það verður að sjálfsögðu að freista þess að fá atbeina fjárveitingavaldsins til þess, að úr verði bætt, þegar föng verða á. Alþ. hefur sýnt, að það lítur á nauðsyn staða, sem fyrir slíkum óhöppum verða. Það kom fyrir haustið 1946, þegar í eitt sumar hafði verið starfað að framlengingu brimbrjótsins, sem þá hafði um alllangt skeið ekki verið unnið við. Í þann mund, sem framkvæmdum var að ljúka, og voru það töluverð lendingar- og hafnarmannvirki, gerði stórbrim, sem ollu stórfelldu tjóni. Ég vil upplýsa, að síðan 1946 hefur verið unnið við hafnarmannvirkin þar í Bolungavík, brimbrjótinn, fyrir 2,5 millj. kr. Af þessari upphæð er talið, samkv. upplýsingum vitamálaskrifstofunnar, að tæpar 900 þús. kr. séu bein afleiðing af tjóninu af skemmdum, sem urðu 1946. Auk þess eru aðrar skemmdir, sem urðu sama ár, þannig að um mun vera að ræða hartnær 1,2 millj. kr. í þessari heildarupphæð, sem ég nefndi, sem tilheyra þessum skemmdum. Það ræður af líkum, að litlu hreppsfélagi er algerlega ofviða að standa undir slíku áfalli. Þetta hefur Alþ. líka viðurkennt með því að leggja þessum stað sérstakt framlag til hafnarmannvirkja sinna, án mótframlags: Í fyrsta lagi 255 þús. kr. á fjárl. 1947, síðar var ríkisstj. heimilað á fjárl. að lána Hólshreppi allt að 355 þús. kr. vegna þessara skemmda, sem ég nefndi, alls 610 þús. kr. vegna skemmda á mannvirkjum 4946. Þetta hefur verið gert á fleiri stöðum. Það hefur verið litið á þörf margra smástaða úti um land, sem hafa orðið fyrir því óláni, að hafnarmannvirki þeirra hafa skemmzt eða hrunið. Alþ. hefur komið til móts við þá. Hér er því ekkert einsdæmi. Hins vegar er það, að brimbrjóturinn í Bolungavík mun vera langelzta hafnarmannvirkið af því tagi á öllu Íslandi. Oft hefur verið leitað til Alþ. um fjárveitingu til þess, því að ekki hefur alltaf verið unnið í stórum áföngum. Þess vegna kann að líta svo út í augum þm að hér sé um eina samfellda ólánssögu að ræða. Ýmis óhöpp og slys hafa komið fyrir, það er rétt. En á það er einnig að líta, að hafnargerðir voru gersamlega á bernskustigi, þegar hafizt var handa um hafnargerð á þessum stað. Ýmis óhjákvæmileg mistök hlutu að spretta af reynsluleysi, bæði þeirra, sem forustuna höfðu um verkið, og manna heima fyrir. Það var þó fyrst og fremst eða eingöngu af því, að of lengi var haldið til við verkið. Það var komið fram í okt.; þegar þetta mikla slys varð, og nokkur hluti hafnarmannvirkisins var opinn og ekki búið að steypa ofan á uppfyllinguna, svo að þegar stórbrim kom, skófst uppfyllingin upp úr og sprengdi frá steinkantana, sem héldu uppfyllingunni. Uppfyllingin skolaðist síðan upp fyrir hafnarmannvirkið, svo að um tveggja ára skeið nálgaðist það kraftaverk, að sjómenn og útgerðarmenn í Bolungavik hafa getað róið. Á þeim tíma, síðan ráðizt var í þessar hafnarframkvæmdir, hefur þorpið vaxið og margháttaðar umbætur orðið á kjörum almennings, og ég hygg, að ekki sé of mikið sagt, að trú fólksins í þessu byggðarlagi hafi aldrei verið meiri á framtíðina en nú og framtíð byggðarlagsins; það sýnir vöxt þess og viðgang. — Ég tel nú ekki þörf að fara frekari orðum um þetta mál, þessar skemmdir á brimbrjótnum og þörfina á því, að viðgerð fari fram. Sem betur fer virðist þetta tjón, sem orðið hefur, ekki vera óbætanlegt. Þó að ég hafi ekki nefnt neina upphæð, ætti að vera auðvelt að bæta úr því. Það er fyrst og fremst eitt steinker, sem hefur snarazt, og nokkuð af uppfyllingunni skolazt burt. Ég hygg, að öllum hv. þm. sé ljóst, að sú till., sem við hv. 6. landsk. flytjum á þskj. 412, er borin fram af knýjandi nauðsyn. Við höfum ekki tekið í hana ákveðna upphæð, — ég vildi sjá og kynnast til hlítar, hversu mikið þetta tjón er, og í till. er lagt til, að þetta verði gert í samráði við vitamálastjóra. Ég treysti hæstv. ríkisstj. og Alþ. til að skilja þessa þörf, eins og það hefur áður gert, og hef ég þess vegna ekki fleiri orð um brtt. önnur brtt., sem ég flyt, er á þskj. 402, og flyt ég hana ásamt hv. 2. þm. S–M., og er hún við 22. gr. frv., um að heimila ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að nokkrir hinna nýju togara, sem nú eru í smíðum, verði staðsettir á útgerðarstöðum, sem við erfitt atvinnuástand búa. — Eins og kunnugt er, eru nú í smíðum 10 nýir togarar á vegum íslenzku ríkisstj. í Bretlandi. Þessi skip eru nú sum að vei$a fullgerð, og öll munu þau verða það á næsta ári. Um smíði þessara skipa hefur verið sett sérstök löggjöf, og er í henni gert ráð fyrir allverulegri aðstoð við kaupendur skipanna hér heima, þannig að þeim eru tryggð allhagstæð lán og lánskjör, þó að þau séu að vísu ekki eins hagstæð og þegar hinir fyrri nýsköpunartogarar voru keyptir. Það þykir liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, að þessi skip verða svo dýr, að mjög fáir staðir úti um land muni hafa fjárhagslegt bolmagn til að eignast þau. Það er hins vegar kunnara en frá þurfi að segja, hvílík atvinnubót og öryggisaukning það er fyrir atvinnulíf einstakra staða, þegar jafnstórvirk framleiðslutæki og þessir togarar eru þar til heimilis og gerðir þaðan út. Við hv. 2. þm. S–M. höfum viljað freista þess, að unnið yrði að því af ríkisstj., að gerðar yrðu ráðstafanir til þess, að nokkur þessara skipa yrðu staðsett úti á landi, og þá fyrst og fremst á útgerðarstaði, þar sem skilyrði eru fyrir útgerð og atvinnuástandið er erfitt. Ég hygg, að það hljóti að vera öllum hv. þm. ljóst, og það er margyfirlýst úr öllum áttum, að til þess beri brýna nauðsyn að skapa aukið jafnvægi í atvinnulífi okkar Íslendinga, þannig að atvinnulífið í hinum ýmsu framleiðslustöðum úti um land verði eflt, svo að hinn stöðugi fólksstraumur frá þeim til Reykjavíkur stöðvist. Þetta verður ekki gert nema á einn veg, nefnilega þann, að fólkinu á þessum stöðum verði tryggð lífvænleg atvinnuskilyrði til jafns við fólkið í Rvík.

Þetta er svo augljós staðreynd, að ég vil ekki eyða tíma þingsins til að ræða hana frekar. Þetta verður að gera, — þetta eitt getur skapað jafnvægi, að skapa bætt atvinnuskilyrði og afkomumöguleika fyrir almenning á þeim stöðum úti um land, sem góða aðstöðu hafa til framleiðslu og að öðru leyti eru lífvænlegir fyrir fólkið. Ég vænti þess vegna, að þessi brtt. verði samþ., og ég veit reyndar, að hæstv. ríkisstj. hefur haft hug á að stuðla að því á einhvern hátt, að einhver þessara skipa skiptust þannig milli landshluta, að sem mest og almennust not yrðu að þeim og að líkindi væru til, að með komu þeirra gæti skapazt sem mest jafnvægi og atvinnuöryggi fyrir sem flesta menn á landinu.

Ég skal svo láta útrætt um þessa brtt. Ég hirði ekki um að mæla fyrir þeim brtt., sem ég er meðflutningsmaður að, það mun verða gert af öðrum. En ég vænti þess, að þau rök, sem ég hef fært hér fram með þessum tveim brtt., nægi til þess að skapa almennan skilning á nauðsyn þeirra og tryggja samþykkt þeirra hér á hv. Alþingi.