14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

1. mál, fjárlög 1951

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég á hér örfáar og örsmáar brtt. Það er fyrst brtt. VII á þskj. 402, til Skallgrímsgarðs í Borgarnesi kr. 1000. Þessi fjárveiting hefur verið á fjárlögum á annan tug ára og hefur fallið út af fjárlögum fyrir einhvern misgáning. Ég athugaði ekki fyrr en í dag, að hún hefði fallið niður, og vil því gera þessa leiðréttingu. Þessi garður er á þeim stað í Borgarnesi, sem fornar sagnir telja, að Skallagrímur hafi verið heygður, og haugur hans er í garðinum, og er talið víst, að það sé rétti staðurinn. Fyrir þennan styrk hefur m.a. verið unnið ötullega að því að koma þarna upp fögrum skrúðgarði, sem er þegar orðinn mjög fallegur að sumarlagi, og út frá því hefur færzt almenn skógrækt út um kauptúnið kringum hús manna, og er Borgarnes m.a. af þeim sökum orðið eitt hið fegursta smáþorp hérlendis, þó að það væri byggt mest á grjóti og sandi. Þessi upphæð er ekki stór. Fyrir 10–12 árum megnaði hún nokkuð og kom fótum undir það stórvirki, sem þarna hefur verið unnið, en þó að hún sé ekki mikil, hjálpar hún til að halda þessu starfi við, og vona ég, að Alþingi sýni þá ræktarsemi nú sem fyrr við þennan sögustað að veita þessa litlu fjárhæð til garðsins.

Svo er það brtt. XII á sama þskj., 4500 kr. til Leikfélags Borgarness, gegn að minnsta kosti jafnmiklu framlagi annars staðar að. Það eru nú mörg leikfélög annars staðar á landinu, sem njóta svipaðs styrks á fjárlögum, þ. á m. þorp á stærð við Borgarnes. Þessi grein listarinnar hefur verið iðkuð í Borgarnesi um mörg undanfarin ár af miklum dugnaði. Þar hafa verið tekin fyrir stór og mikil leikrit, og flutningur þeirra hefur verið með slíkri prýði, að um hefur verið skrifað af mörgum listdómurum hér í höfuðstaðnum. Tveir af hinum efnilegustu yngri leikurum okkar hafa byrjað leiklistarstarfsemi sína í leikfélagi Borgarness. Vænti ég, að Borgarnes verði látið njóta jafnréttis við önnur kauptún, sem komin eru á undan á fjárlögin með svipaða styrki.

3. brtt. er nr. XIV á sama þskj., um að veita 5 þús. kr. til að reisa myndastyttu á Borg á Mýrum af Agli Skallagrímssyni, 1. greiðsla, gegn a.m.k. jafnmiklu framlagi annars staðar að. Það er óþarft að flytja fyrirlestur um Egill Skallagrímsson, einn frægasta Íslendinginn að fornu og nýju og sérstæða persónu að andlegu og líkamlegu atgervi, og nægir í því sambandi að minnast Sonatorreks, sem er eitt fegursta kvæði, sem ort hefur verið á íslenzka tungu og allir, sem þeim fræðum unna, eru hrifnir af. Skallagrímur var að vísu Mýramaður, og mun félag Mýramanna og Borgfirðinga leggja fram krafta sína til að koma þessu minnismerki upp, en þessi maður er fyrir löngu orðinn eign allrar þjóðarinnar, eins og allir eru afkomendur hans. Þykir mér því vel fara á, að ríkið heiðri minningu hans með því að leggja nokkurt fé fram til að reisa honum styttu og að framlag ríkisins verði um helmingur þess, sem styttan kostar. Það hefur verið nokkur hreyfing innan héraðsins og Borgfirðingafélagsins um að safna fé til þessarar styttu. Er hugmyndin að fá íslenzka listamenn til að keppa að hugmyndinni um hana og velja svo einhvern þeirra til að koma henni upp. Þessi stytta kostar eðlilega allmikið fé. Hér er farið smátt af stað og hugsað að láta tímann vinna með sér að því; að þetta geti orðið fullkomið listaverk í sama stíl og það listaverk, sem búið er að koma upp af Snorra Sturlusyni fyrir aðstoð frænda okkar í Noregi.

Þá eru ekki fleiri till. hér, sem ég er 1. flm. að. Að einni er ég flm. með hv. 1. þm. N-M., og hefur hann gert grein fyrir henni, og er hún eingöngu leiðrétting á villum, sem eru í frv.