14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

1. mál, fjárlög 1951

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég er ekki með margar brtt., en vil í stuttu máli lýsa ástæðunum fyrir þeim till., sem ég hef leyft mér að flytja.

Það er fyrst brtt. VI á þskj. 442. Þar fer ég fram á, að fjárframlag til hafnarbóta í Vestmannaeyjum, sem fjvn. hefur úrskurðað 170 þús. kr., verði hækkað upp í 200 þús. kr., eða um 30 þús. Ég held, að þetta sé ákaflega hógvær bón, einkum þegar þess er gætt, að till. vitamálastjóra varðandi þessa höfn var einmitt sú, að framlagið yrði 200 þús. kr. Ég hef að vísu fengið að vita í samtali við hv. form. n., að hún eftir sínum kokkabókum hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta framlag eigi ekki að vera nema 170 þús. kr., en ég ætla, að engir, sem til þekkja, geti láð mér, þótt ég uni því ekki, að svo mikið framleiðslupláss sé með svo vesældarlegt framlag. Og þótt úrbótin, sem ég fer fram á, sé ekki mikil og minni en þyrfti, þá hef ég þá afsökun, að þetta er till. vitamálastjóra. Annars er náttúrlega hafnarféð í það heila naumlega skorið og einkennilega úti látið. Ég veit til dæmis ekki, hvaða vit er í því að leggja fram stórfé til að hyggja nýja landshöfn á Rifi, löngu áður en landshöfnin í Keflavík og Njarðvíkum er svo langt á veg komin, að hennar séu nokkur not. Það er eins gott að láta Rif bíða, þar til höfnin þarna suður frá er svo úr garði gerð, að draga megi úr framlagi til hennar, og ég mótmæli því algerlega, að þetta eigi að bitna á höfuðframleiðslustöðunum á landinu, sem leggja ríkissjóði stórtekjur í alls konar afgjöldum og afla þjóðarbúinu 10–12% af öllum gjaldeyri, eins og mitt kjördæmi gerir. Mér er ekki ljóst, hvað hv. fjvn. meinar, þegar hún fer fram á það, að þm. flytji henni óskir sínar, þegar hún svo virðir þessar óskir að vettugi, þegar þær koma fram, jafnvel þótt þær séu mjög hógværar. Þetta má gera hverjum þm. einu sinni, en það er ekki hægt að gera það mörgum sinnum, eins og hv. n. hefur gert, án þess að ónot hljótist af, en ég tel, að með því að áætla Vestmannaeyjum þessa aumlegu upphæð, þá sé mér sem þm. misboðið og fólkinu í plássinu, ef borið er saman við aðra staði.

Ég hef svo hlustað hér á mjög fallega fluttar ræður um marga hluti, þ. á m. um leiklist, og það er ekki lítið eða hitt þó heldur, sem fjvn. hefur við þá fögru list, þegar um landsins hring er að ræða og Reykjavík er undanskilin. Á 15. gr. er ætlað til leiklistarstarfsemi í öllum kaupstöðum landsins utan Reykjavíkur og nokkrum kauptúnum 30 –40 þús. kr., á sama tíma og allir landsmenn eru stórum skattskyldir til þjóðleikhússins og a.m.k. einn hv. þm. vill fá 30 þús. kr. til aukaleikhúss í Reykjavík. Ég hef því ásamt nokkrum öðrum hv. þm. leyft mér að flytja mjög hógværa brtt. til þess lítillega að bæta þetta misrétti, sem landsmenn utan Reykjavíkur eiga við að búa. Þessi till. er á þskj. 412,III, og er þar gert ráð fyrir, að lögfestur verði 30 þús. kr. aukastyrkur til að örva leiklistarstarfsemi í kaupstöðum og kauptúnum, eða á þeim sömu stöðum og um ræðir í 15. gr., 17. lið, þ.e. til 10 staða á landinu, og tilgangur okkar er sá, eins og áður segir, að örva leiklistarstarfsemi úti á landi. Full þörf er á því að auka sýningar sjónleikja, og víða er nú miklu betri aðbúnaður í þeim hlutum en áður var. Ég man þá tíð, og tók raunar þátt í því, að reynt var að bjargast við pakkhús og alla vega slæm húsakynni til að sýna sjónleiki. Nú eru húsakynni að vísu betri og skemmtanalífið fjölbreyttara, en það mun þó almennt viðurkennt, að tæplega séu til hollari og betri skemmtanir en góðir sjónleikir. Við viljum því stuðla að því, að menn séu hvattir til að halda uppi leiksýningum, með því að veita þeim fyrir það einhverja viðurkenningu. Því skal aukastyrknum úthlutað af menntmrh. á staðina eftir tölu leiksýninga á árinu. Þetta er örvun fyrir þá, sem leggja á sig það starf, sem áreiðanlega er engum manni féþúfa. Þetta er örvun fyrir þá til þess að halda uppi leiksýningum, og sé það nauðsynlegt að verja fé til leikstarfsemi í Reykjavík fyrir utan þjóðleikhúsið, þá er ekki síður þörf á þessari litlu fjárhæð til að örva leiklistarlíf á öðrum stöðum. Ég vænti því, að hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. sjái og fallist á þá sanngirni, sem liggur að baki þessari till. Ég vil ekki þreyta hv. þm. á langri ræðu um þetta, en skemmtanalíf landsmanna hefur nú tekið ískyggilega stefnu, og það er ekki smekklegt, þegar útvarpið, sem kostað er af opinberu fé, ver löngum tíma til þess að hrópa út yfir landið: Dansleikur í Hveragerði, dansleikur í Félagsgarði, dansleikur í Sandgerði o.s.frv., þar sem hvergi heyrist slíkt nema hér á landi. Það er því full ástæða til að ýta undir annað skemmtanalíf og þá fyrst og fremst leiklistarstarfsemi, sem farin er að taka allmiklum þroska utan Reykjavíkur. Það er ekki aðeins í Reykjavík, að sjónleikir hafa verið vel sýndir. Við höfum heyrt um leiksýningar víða úti á landi, og hefur oft þótt vel takast, þótt menn hefðu færzt í fang erfið viðfangsefni. Og hér er ekki ætlazt til að veita þessu fé út í bláinn, heldur á menntmrh. að meta það, sem gert er, og gjalda styrkinn að loknu verki og verðlauna það, sem vel er unnið.

Þá hef ég leyft mér að bera fram brtt. við 22. gr., heimildagreinina, út af skipasmíðum, sem áttu sér stað á nýsköpunarárunum, en þá voru smíðaðir bátar fyrir hönd ríkisstj. á ýmsum stöðum, svo sem Reykjavík, Akranesi, Akureyri, Neskaupstað, Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði, Vestmannaeyjum, og jafnvel víðar. Þessi bátasmíði var mikið þarfaverk, og hefur það sýnt sig bezt síðar, að rétt var stefnt, þegar efnt var til þessara framkvæmda í svo stórum stíl. En svo illa hefur til tekizt, að þeir, sem smíðuðu bátana, hafa flestir orðið fyrir talsverðu tapi. Samningar voru gerðir hér í Reykjavík við hvern og einn, og var mikið til þeirra vandað, en hér fór eins og um svo margt fleira, að fyrirtækin reyndust dýrari en ætlað var í fyrstu, og hér lenti þetta á þeim, sem tóku að sér smíði bátanna, og olli þetta þeim allmiklu fjártjóni. Ég ímynda mér, að allir séu sammála um það, að það hafi ekki verið tilgangur ríkisstj., að nein skipasmíðastöð yrði fyrir tjóni af verkinu, og til þess mun ekki ætlazt enn, og ég leyfi mér að lýsa yfir því, að alls staðar tókust smíðarnar sæmilega og sums staðar mjög vel, og ætla ég, að tæplega hafi verið smíðaðar hér fleytur af þessari 'stærð, að öllu betri væru en þessir bátar. Þeir eru nú allir komnir í hendur útgerðarmanna og sjómanna og hafa nú þegar fært þjóðinni björg í bú, allir nokkra og margir mikla, en smiðjurnar bera nú skuldabagga vegna þess, að bátarnir voru dýrari en ætlað var í fyrstu. — Þegar ég síðar samdi fjárlagafrv. fyrir 1949, þá setti ég inn á heimildagr. frv. upphæð í þessu skyni, enda var mjög leitað á ríkisstj. af hálfu smiðjanna um uppbætur. Vildi ég og gjarnan verða við þeim óskum, en til þess var engin heimild án þess að leita til Alþingis. Því var svo frá gengið í síðasta fjárlagafrv., er ég samdi, að heimild væri fyrir ráðh. að greiða þessar uppbætur, en Alþingi felldi þá heimild niður. Nú vil ég taka þessa málaleitun upp aftur, að ráðh. hafi þessa heimild, og fyrir því flyt ég brtt. á þskj. 412,V, um að ráðh. hafi heimild til að greiða skipasmíðastöðvum þeim, sem hafa smíðað báta fyrir ríkissjóð, uppbætur vegna taps á smíðinni, er nemi allt að 25 þús. kr. á minni tegund bátanna, en allt að 30 þús. kr. á þá stærri. Ég veit, að þessar upphæðir eru lægri en það, sem farið var fram á, en það er þó nokkur bót í máli, ef farinn verður þessi millivegur til þess að bæta þetta tjón. Ég get ímyndað mér, að hv. þm. viðurkenni þessa þörf og samþ. heimildina, og ef hún verður notuð, þá er hér farið bil beggja, að ríkissjóður taki á sig hluta af tjóninu, og er það skárra en láta smíðastöðvarnar bera það allt. Það er náttúrlega hægt að segja sem svo: Mennirnir sömdu um þetta, og það var þeirra að sjá um sig. — En allir vita, að á breytilegum tímum, eins og við höfum lifað undanfarið, þá hækkar oft ýmislegt efni í verði meðan á smíði stendur, sem ekki verður vitað fyrir fram. Ég held því, að það sé mikið sanngirnismál, að hið opinbera taki nokkurn þátt í því tjóni, sem skipasmíðastöðvarnar urðu fyrir. Hér hafa verið framleidd ágæt framleiðslutæki fyrir sjómenn og útvegsmenn landsins, tæki, sem hafa sýnt það tvær til þrjár undanfarnar vertíðir, að þau standa fullkomlega á sporði sams konar tækjum erlendum, og allt mælir með því, að þingið létti þann skaða, er þeir urðu fyrir, sem stóðu að þessum smíðum. Ég ætla, að segja megi með sanni, að ekki sé vel farið, ef bátasmíðar innanlands leggjast niður. Margir hafa sett sig í mikinn stofnkostnað til þess að afla tækja, sem ekki verður brúk fyrir, ef smíðarnar falla niður. En það er vissulega full nauðsyn, að þau tæki séu ekki ónotuð, því að það er ótrúlegt, hve mikið gengur árlega úr sér af vélbátum, og svo er hitt, að upp vaxa ungir menn, sem vilja reyna sig á sjónum og þurfa einhverja fleytu, en nú er svo komið, að mjög erfitt er að fá góðan, nýjan innlendan mótorbát. Því er sýnt, að hér er ekki um neina óþarfa starfsemi að ræða, heldur verk, sem er vissulega góðra gjalda vert, og ætti því að taka tillit til þess, sem farið er fram á með þessari brtt.