14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

1. mál, fjárlög 1951

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 6 öðrum hv. þm. að flytja brtt. á þskj. 402 um 150 þús. kr. styrk til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hv. 7. þm. Reykv. (GTh), sem er 1. flm., er lasinn og gat því ekki mætt á þessum fundi, og þess vegna vil ég leyfa mér að segja örfá orð um þessa till.

Við höfðum flutt till. við 2. umr. um 200 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni, enda næðist samkomulag um framlag frá bæjarstjórn Reykjavíkur, ríkisútvarpinu og þjóðleikhúsinu. Um það hefur enginn ágreiningur verið í umr., sem fram hafa farið, að störf þessarar sinfóníuhljómsveitar séu hinn mesti menningarauki. Það mun heldur ekki vera dregið í efa, að menningarlíf þjóðarinnar getur ekki talizt með fullum blóma, nema með þjóðinni starfi fullkomin sinfóníuhljómsveit, sem sé fær um að flytja hlustendum hin sígildu verk meistaranna á sviði hljómlistar, og útvarpið getur í rauninni ekki talizt hafa fullt menningargildi, nema því aðeins að það geti flutt hlustendum slíka lifandi sinfóníutónlist, en þurfi ekki að vera háð hljómplötum einvörðungu. Um þetta meginhlutverk hljómsveitarinnar hefur enginn ágreiningur verið, en hins vegar hefur verið ágreiningur um það, hversu mikið fé væri unnt að veita til slíkrar starfsemi. Hv. Alþ. vildi ekki fallast á að veita 200 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni, og höfum við því lækkað hana niður í 150 þús. kr. og leyfum okkur að vænta þess, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. hana, en ef till. verður felld, verður tvímælalaust að leggja hljómsveitina niður. Sé augum rennt yfir fjárlfrv., eins og það er eftir 2. umr., verður hvorki séð, að það geti haft neina úrslitaþýðingu fyrir fjárhag ríkissjóðs, né heldur að það geti talizt óeðlilegt með tilliti til annarra fjárveitinga, þótt slík fjárveiting sem hér um ræðir verði samþ. Þar sem líf hljómsveitarinnar er algerlega undir því komið, hvort þessi fjárveiting fæst eða ekki, vil ég fyrir hönd okkar flm. eindregið leyfa mér að vænta þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. till.