14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

1. mál, fjárlög 1951

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að minnast á tvær brtt. Önnur er frá hv. þm. Siglf. á þskj. 402, þess efnis, að veita heimild til þess að veita Siglufirði 900 þús. kr. lán til kaupa á atvinnutækjum til bæjarins. Það er nú í athugun hjá ríkisstj., hvað sé hægt að gera til eflingar atvinnulífi á þeim stöðum, sem sérstaklega eiga erfitt uppdráttar. Ég hefði því ráðlagt hv. þm. að taka þessa till. til baka og sjá til, hvað gerðist í þessum málum. — Hin till., sem ég ætlaði að minnast á, er frá hv. 4. þm. Reykv., um að lækka fjárhæð þá, sem Tryggingastofnunin leggur til upp í innheimtukostnað sýslumanna, úr 600 þús. í 390 þús. Þessi upphæð, 600 þús., var sett í frv. áður en nokkur fullnægjandi rannsókn hafði farið fram á þessu máli. Ég hef heitið því að leggja til starfsmenn úr fjmrn. til þess að athuga réttmæti þessarar upphæðar. Ég mæli því ekki með, að till. þessi sé samþ., en ég stend við það að sjá til, að þessi athugun fari fram og verði til lykta leidd. Ef árangurinn yrði sá, að það kæmi í ljós, að ósanngjarnt væri að krefjast allrar þessarar upphæðar, þá mundi ég eiga hlut að því, að það yrði leiðrétt.