14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef veitt því athygli, að síðan ég talaði hér áðan og spurðist fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj. í tilefni af þessari till. fjvn. um 125 þús. kr. framlag til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju, hvort það ætti að vera fyrir vissan hluta landsins sérstaklega, hve það ætti að rúma marga vistmenn og hvenær það tekur til starfa, — síðan hafa tveir hæstv. ráðh. talað og ekki gefið neinar upplýsingar um þetta. Og það gerir málið dularfyllra og grunsamlegra en það var áður. Ég læt mér ekki detta í hug, að hæstv. fjmrh. viti ekki um þetta, og vil enn ítreka mínar spurningar til hans um það, hverju hann geti svarað til þessum spurningum, viðvíkjandi þessum væntanlega letigarði, sem okkur er sagt að eigi að verða til vestur í Grundarfirði og á að fá 125 þús. kr. til rekstrar árið 1951. — Ég vil biðja hæstv. forseta að grennslast um, hvort hæstv. fjmrh. heyrir mál mitt og vill gefa upplýsingar um þennan væntanlega letigarð þarna vestur frá.