15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka n. fyrir skjóta afgreiðslu þessa máls. Ég ætla að segja fáein orð út af spurningu hv. frsm. meiri hl. n., hvort ég hefði í hyggju að breyta framkvæmd varðandi meðferð á kærum á söluskatti og beinum sköttum, að þeir, sem kæra, gætu gætt betur hagsmuna sinna en nú er. Ég hef athugað, hvort hægt sé að koma einhverjum breytingum við, en get ekki rætt þetta í einstökum atriðum, því að ég hef engar niðurstöður um málið. Ég vil taka fram út af innheimtu dráttarvaxta, að um dráttarvexti af skatti, sem er of á lagður, mælir engin sanngirni með að endurgreiða dráttarvexti, sem hafa verið innheimtir. Og hvernig er hægt að finna nokkrar aðrar reglur heldur en nú gilda í þeim efnum?

Ég vil benda á, að það er misskilningur, sem minni hl. byggir afstöðu sína á, í fyrsta lagi, að það sé óþarft að leggja skattinn á. Því miður er það misskilningur. Eins og margsinnis hefur verið tekið fram, virðast tekjur ríkissjóðs ekki ætla að gera betur en rétt að hanga í áætlun, og við annað er ekki hægt áð miða, eins og hv. 6. landsk. þm. hefur margsinnis lagt áherzlu á. Við verðum að byggja á þeirri reynslu, sem fyrir er. Þetta sýnir, að við getum ekki áætlað þeim tekjustofnum að gera betur en að standa undir þeim útgjöldum, sem komin voru við 2. umr., þá er eftir fyrir því, sem bætt var við við 3. umr. Það er því miður þannig, að þessi skattur er ekki óþarfur. Ef ekki hefðu orðið sérstök áföll á árinu, sem er að líða, hefði ekki komið til mála að auka skatta og tolla, og mér er nær að halda, að ef við hefðum losnað við eitthvert eitt af þessum áföllum, þá hefði það ekki komið til. Við þekkjum allir, hver þessi áföll voru, það var síldveiðibrestur, langvarandi verkfall á togurunum og hrun á ísfisksmarkaðinum. Þetta er nóg til að benda á, að þó að við hefðum ekki losnað við nema eitt af þessum áföllum, þá hefði ekki komið til mála, að þurft hefði að auka skattana eða tollana. Hv. þm. hafa stundum minnzt á, að skattar og tollar hafi verið auknir í sambandi við gengislækkunina. Nú er það komið á daginn, að tekjur af tollum virðast ætla að verða nákvæmlega jafnháar fyrir árið 1950 eins og fyrir árið 1949, svo að þær álögur í heild hafa ekki aukizt. Þetta er tilsvarandi við, að eitthvert bæjarfélag hefði sömu útsvör árin 1949 og 1950. Þetta er mjög eftirtektarvert atriði, og þegar þessa er gætt, þá er það kannske ekki svo undarlegt, þó að við höfum neyðzt til að bæta um 3% við heildarfjárhæðina, eins og hún er. Það er kannske ekki heldur óeðlilegt með tilliti til þess, að laun opinberra starfsmanna hafa verið hækkuð um 40% nú um áramót frá því sem þ$u voru 1949, fyrst 15% og síðan 22% ofan á það, sem komið var. Það er ekki furða, þó að það þurfi nokkurt fé til að standa undir þessari gífurlegu hækkun, sem nemur 20 til 30 millj. frá því árið 1949. Þetta vildi ég aðeins taka fram út af þessu atriði.

Það er kannske með öllu óviðeigandi að fara að tala um brtt., sem flm. er ekki búinn að mæla fyrir, en ég held, að ég verði að gera það nú og biðja afsökunar, ef það er dónaskapur. Það er á þskj. 405. Síðast þegar þetta mál var hér á ferðinni, held ég, að það hafi verið flutt sams konar till. Ég get ekki mælt með, að þessi till. verði samþ. Ég ætla að segja það sama um þetta mál nú og ég sagði þá. Þessi till. hefur það til síns máls, að þetta innflutningsgjald bifreiða er of hátt fyrir atvinnubílstjóra, ef þeir hafa tök á að flytja inn bifreiðar. Hins vegar er það svo, að þessir menn hafa ekki fengið að flytja inn neinar bifreiðar. En ef það yrði ofan á, að það yrði hægt að veita þessum mönnum innflutningsleyfi fyrir bifreiðum, þá mundi ég beita mér fyrir því, að þeir þyrftu ekki að koma undir þessi ákvæði, en ég vil ekki breyta þessu ákvæði, ef bifreiðar yrðu fluttar inn til annarra en atvinnubifreiðarstjóra, svo að ekki verði farið í kringum þetta. Ef til þess kæmi; að hægt væri að leysa þörf atvinnubifreiðarstjóra, finnst mér rétt, að tiltekinn fjöldi bifreiða yrði þeim ætlaður, sem undanþeginn yrði þessu gjaldi, og ætti að athuga, hvort þetta getur ekki komið til greina.