15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðh. um, að það sé alveg rétt að setja þetta ákvæði í sambandi við innheimtu skattsins, vegna þess að þetta eru ekki álögur á fyrirtækin, heldur er þetta innheimta. En ég vil benda hæstv. ráðh. á, að það er annar skattur í landinu, sem heitir veitingaskattur og er sama eðlis, því að þau fyrirtæki leggja skattinn á viðskiptavinina, en sum af þessum fyrirtækjum hafa ekki greitt skattinn í 4 ár. Það er ákaflega hart í þjóðfélaginu, ef stöðva á fyrirtæki fyrir vangreiðslur á skatti í einn mánuð, þegar fyrirtækjum, sem eru sams konar eðlis, helzt uppi að skjóta sér undan skatti árum saman. (Fjmrh.: Þetta er alveg rétt, og höfum við þetta til athugunar í ráðun.)