15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

66. mál, skemmtanaskattur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég get sagt hv. þm. það, að ef kvikmyndahúsin úti á landi eru rekin með tapi, þá eru kvikmyndahúsin hér í Reykjavík líka rekin með tapi. Ástæðan fyrir þessu er líklega hin sama hjá báðum aðilum, þ.e. að þessi fyrirtæki hafa ekki fengið gjaldeyrisleyfi til þess að kaupa myndir. Kvikmyndahúsin hér í Reykjavík áttu fyrir hálfum mánuði síðan eina mynd, sem ekki hafði verið sýnd áður, hvert hús. Þessi kvikmyndahús hafa verið að bjarga sér með því undanfarið að grafa upp gamlar myndir í fórum sínum, sem sýndar hafa verið fyrir mörgum árum, og sýna þær aftur. Árangurinn af þessu er sá, sem engum dylst, sem kemur í kvikmyndahús, að aðsókn að kvikmyndahúsum hér í bænum hefur stórkostlega minnkað, og hún hefur minnkað af þessum ástæðum, að kvikmyndahúsin hafa ekki nýjar myndir til að sýna. Það er því ekkert meiri ástæða til þess að leggja þennan skatt á kvikmyndahúsin hér í Reykjavík heldur en úti á landi. Um kostnað kvikmyndahúsa úti á landi, þá hygg ég, að þau séu flest rekin þannig, að þeir, sem að þeim vinna, hafi þetta í hjáverkum aðallega, og þess vegna er sjálfsagt greitt minna í kaupgjald við rekstur þeirra en gert er hér við kvikmyndahús í Reykjavík, þar sem fastir menn eru við rekstur húsanna. Þessi ástæða hv. þm. hefur þess vegna ekki við nein rök að styðjast, og það er ekki nokkur sanngirni í því að kippa burt þessu álagi af kvikmyndahúsum úti á landi, án þess að það sé einnig gert í Reykjavík.