18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

72. mál, stjórn flugmála

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Það er glettilegt mál, sem nú er verið að ræða um, mál, sem látið hefur hátt í ekki síður en flugvélum, en ég býst við, að það láti nú ekki eins hátt í mér eða hraði minn verði neinn flugvélarhraði, nú þegar ég segi hér nokkur orð um það.

Þetta frv. ber með sér, hvert stefnt er með því. Aðalatriðið virðist vera að gera tvö embætti að einu, leggja niður embætti flugmálastjóra, sem svo hefur verið nefnt. Ég sé ekki önnur merkari sjónarmið í þessu máli en að aðalatriðið sé, að hér sé sparnaðaratriðið, að leggja niður eitt embætti. Ég þykist vita, að það séu fleiri atriði, eins og fram hefur komið í pexinu, sem hafa verið látin koma til athugunar líka, en ég sé ekki annað en þetta sé aðalatriðið, að spara, láta einn nægja í staðinn fyrir tvo.

Í nál., sem hér liggur fyrir, hefur meiri hl. komið fram með sína umsögn, og hún er þrjár línur þessi umsögn. Það er um flugmál og aðstöðu Íslands á alþjóðavettvangi, þetta er dregið þar saman í örstutt form, og ég býst ekki við, þótt við hefðum látið prenta margra blaðsíðna nál., þá hefði niðurstaðan orðið önnur, og létum við því nægja fá orð.

N. hefur ekki komizt að samfelldri niðurstöðu, þar sem einn samgmnm. hefur skorizt úr leik, skilað séráliti og sett sig móti frv., en þrír eru sammála um að mæla með því, að frv. nái fram að ganga, og leggja til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm. var fjarverandi og hefur ekki skrifað undir, en gefur sig til kynna í nál., hvaða afstöðu hann hefur til málsins.

Þannig er það í aðalatriðunum. Þrír leggja til, að frv. verði samþ. án breyt., en sá fjórði, sem er í minni hl., leggur til, að það verði fellt. Ég sé í rauninni ekki annað réttara en að leggja fyrir þingið till. þá, sem hér liggur fyrir frá meiri hl., að frv. verði samþ., og ég sé ekki annað réttara en að samþ. það án fleiri orða. Það er ekki vænlegt til langra umr. að láta mig vera hér frsm. eða að ætla að láta mig ræða málið fram og aftur. Ég hef ekki þekkingu til þess. Aðrir geta haldið hér uppi málþófi, ef þeir vilja, þó að það sé oft svo með þá, sem það gera, að þá vanti til þess alla þekkingu. Þeir ættu að stilla orðum sínum meira í hóf og setja skoðun sína fram í góðum orðum. Það er það, sem þarf að vita, hvernig á að stýra samgöngum til lofts og lagar. Það er mikilsvert mál, og það er þjóðmál, sem getur verið vandi að stýra, svo að rétt sé. Ég treysti mér ekki til þess. Það getur verið deilumál, og þó að þeir, sem um það fjalla, sjái ekki annað líklegra en að haga því svo, þá geta atvikin leitt þá á svo marga óvísa sjói. Þess vegna vil ég nú láta máli mínu lokið. Hinir taka við, sem margt vita og margt hafa að segja, en ég geld frv. jákvæði og læt máli mínu þar með lokið.