13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

21. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get að mestu skírskotað til nál. um frv. þetta á þskj. 414. Þar er drepið á öll helztu atriði þessa máls og viðhorf nefndarinnar. Það, að málið er svo síðbúið af hálfu n., stafar af því, að umsóknir hafa verið að berast n. fram til síðustu mánaðamóta frá rn. og jafnvel enn síðar. N. hafði því hlutverki að gegna að athuga þessar umsóknir, en fyrir lágu eldri umsóknir, sem n. sá enga ástæðu til að taka tillit til sérstaklega, þar sem þær höfðu ekki verið endurnýjaðar.

Hvað útlendinga áhrærir, þá hefur n. lagt til grundvallar, að þeir hafi eigi búið hér skemur óslitið en 10 ár. Hins vegar munu í frv. ríkisstj. vera tveir menn, nr. 1 og 7 í frv., sem dvalizt hafa hér skemur. Ég ætla, að þeir hafi báðir komið til landsins 1946, og mun þá nokkuð vanta upp á þessi 10 ár. En í till. n. hafa verið teknir þeir, sem dvalizt hafa hér tilskilinn tíma, sem er 10 ár samkv. l. um ríkisborgararétt, eða þeir, sem teknir hafa verið vegna eindreginna tilmæla ríkisstjórnarinnar.

Um skjöl þau, er þessum umsóknum hafa fylgt, er það að segja, að n. hefur athugað þau vandlega, og eru það meðmæli frá ýmsum mætum mönnum og vitnisburðir um hegðun þessa fólks. Aftur á móti hefur erlend hegningarvottorð vantað. Þau hafa verið áskilin, en nú í seinni tíð hefur ekki verið hægt að fá þau og ekki verið um það sakazt, því að þau hefur ekki verið hægt að fá síðan fyrir stríð.

Einn nm. áskildi sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við málið.

Það er ofur eðlilegt, að fólk, sem hefur tekið sér hér bólfestu, ætlar að starfa hér og dvelja og hefur tekið tryggð við þetta land, og fjölskyldumenn, sem giftir eru íslenzkum konum og eiga hér börn á ýmsum aldri, sem alast upp sem íslenzk, óski eftir því að öðlast hér þegnrétt. Börn þessa fólks alast hér upp sem íslenzkir þegnar, og þau hafa tekið tryggð við þetta land. Það er því engin ástæða til annars en að leyfa þeim að gerast íslenzkir þegnar. Það má kannske segja það, að þessir útlendingar hafi ekki endilega þurft að vera búsettír hér í 10 ár, til þess að veita megi þeim íslenzkan þegnrétt, en það er nú misjafn sauður í mörgu fé, og verður því að setja hér takmörk. Það hefur því frekar orðið hlutskipti n. að vera íhaldssöm um þessi mál.

Fólk þetta, sem sækir hér um ríkisborgararétt, er flest frá Norðurlöndum. Það hefur alltaf verið svo, að Íslendingar hafa frekar veitt Norðurlandabúum ríkisborgararétt. Þó að Norðurlandabúar séu að sjálfsögðu misjafnir eins og aðrir menn, þá held ég þó, að þeir hafi ekki brugðizt okkar trausti hvað þetta snertir, því að fólk þetta hefur yfirleitt reynzt vel og orðið góðir þegnar. — Skal ég svo ekki fjölyrða þetta frekar.