18.12.1951
Neðri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

21. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir seinni till., sem allshn. flytur á þskj. 467, og vænti þess, að þingið stöðvi nú í eitt skipti fyrir öll þann ósóma, eins og ég vildi kalla það, að veita útlendingum ríkisborgararétt, án þess að sett séu skilyrði um nöfn þeirra. Í l. um mannanöfn segir meðal annars, að ekki megi menn bera önnur nöfn en þau, sem eru rétt að lögum íslenzkrar tungu. Ef farið hefði verið eftir þessum lagabókstaf, væru náttúrlega nöfn fjöldamargra manna, sem ríkisborgararétt hafa hlotið, stríðandi á móti þessari lagagrein. Það er óþarfi að endurtaka það, hversu afskræmislega ýmis nöfn, sem hér eru á þessum lista, mundu koma fram í íslenzku máli. Það skýrir sig sjálft. Ég skil þannig till. hv. n., að þeir, sem fá væntanlega ríkisborgararétt með þessu frv., ef að lögum verður, verði að taka sér íslenzk nöfn samkv. þeirri heimild, sem er nú í l. um mannanöfn, — að það sé skilyrði fyrir því, að þeir geti fengið ríkisborgararétt, að íslenzk nöfn séu upp tekin. Ég fagna þessu mjög, og ef ég verð eitthvað áfram í þessu embætti, eftir að þessi till. yrði samþ., mun ég reyna að láta sjá um, að þessu verði nákvæmlega framfylgt. — Einnig vil ég taka undir það, sem hv. frsm. sagði, að það er full ástæða til þess að gefa betri gaum, hvernig framfylgt er l. um mannanöfn. Ég geri ráð fyrir, að sú framkvæmd heyri undir menntmrn., og hef hugsað mér að gera þær ráðstafanir, sem l. gera ráð fyrir að framkvæmdar séu í þessu efni, en það er meðal annars það, að háskólinn geri skrá yfir þau nöfn, sem hann telur, að ekki eigi að vera helmild fyrir að menn nefnist, og sé lagt bann við slíkum nöfnum í íslenzku máli.