18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

21. mál, ríkisborgararéttur

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. frsm. allshn., að það er vægast sagt óheppileg aðferð, sem hefur verið höfð við afgreiðslu þessa máls.

Ég var ekki á fundi n., þegar málið var afgreitt þar. Hafði ég ekki fengið boð um fundinn, hvort sem það hefur stafað af mistökum eða símabilunum.

Eins og nú er lagt til að málið verði afgreitt, fæ ég ekki komið auga á, að nein regla gildi við afgreiðslu þess. Hefur meiri hl. n. tekið upp menn, sem n. í Nd. tók út úr frv. Meira að segja er ekki farið eftir reglunni um 10 ára húsetuskyldu. Verður því ekki hægt að segja, að farið sé eftir öðru en persónulegri afstöðu þeirra manna, sem með þetta fara. En n. er sjálf ekki sammála um, hvaða reglum eigi að fara eftir, og deildirnar geta heldur ekki komið sér saman um fastar reglur. Ég verð að segja, að ég get ekki tekið þátt í afgreiðslu máls, sem er svona persónulegt, nema fyrir fram séu settar reglur um afgreiðslu þess. Ég get ekki tekið afstöðu til manna, sem ég þekki yfirleitt alls ekki, aðeins eftir því sem einstakir menn á þingi segja um þá. Það getur verið, að persónuleg afstaða eins manns geti ráðið því, hverjir fá ríkisborgararétt og hverjir ekki. Ég held, að mönnum sé ljóst, að þetta eru vinnubrögð, sem eru þm. til lítils sóma, og má ekki við svo búið standa. Þyrfti að endurskoða lögin um ríkisborgararétt, bæði með tilliti til þess, hverjir fái ríkisborgararétt og hverjir væru sviptir ríkisborgararétti. Við setningu laganna um veitingu ríkisborgararéttar mætti taka tillit til þeirra nýju reglna, sem ýmsar þjóðir hafa tekið upp, t.d. með tilliti til þess, hvernig konur fá ríkisborgararétt við giftingu. En sérstaklega þyrfti að endurskoða reglurnar um það, hvernig menn fái ríkisborgararétt, hverjum sé falið að veita hann og hverjum hann sé veittur. Gæti komið til mála, að sérstakt próf færi fram á þessum mönnum undir umsjá óhlutdrægra aðila, áður en málið kæmi á þing, þótt Alþingi hefði svo endanlegt vald til að skera úr því, hverjir fái ríkisborgararétt. Einnig þyrfti að setja reglur um sviptingu ríkisborgararéttar. Ættu að vera til reglur um það, að menn, sem hafa fengið ríkisborgararétt, geti verið sviptir honum, ef þeir uppfylla ekki þau skilyrði, sem þeim væru sett. Þekki ég slík tilfelli hér, þótt ég muni ekki fara lengra út í þetta nú, en það þarf að setja ákvæði um þetta.

Ég átti ekki hlut að brtt. allshn., en þær eru ekki í samræmi við reglur þær, sem giltu í fyrra, ekki í samræmi við reglur Nd. og ekki í samræmi við lög um ríkisborgararétt.

Það má vel vera, að full ástæða sé til að veita þessum mönnum ríkisborgararétt, en eftír þeim upplýsingum, sem ég fékk á fyrsta fundi n., þá get ég ekki greitt atkv. með sumum þeim mönnum, sem eru í brtt. Ég á erfitt með að taka þátt í afgreiðslu slíks máls sem þessa.