18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

21. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort hæstv. dómsmrh. er viðstaddur. (Forseti: Hann mun vera í húsinn.) — Ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að minna á atvik, sem kom hér fyrir í þinginu fyrir nokkrum árum og varð ekki til þess að auka á virðingu Alþingis. Það var þegar rætt var um frv. til l. um að veita ákveðnum mönnum ríkisborgararétt, og var það mál afgreitt við sex umr. á einni nóttu. Ég benti á það í sambandi við það mál, hvað óviðurkvæmilegt það væri að brjóta þingreglurnar og sjálf lögin til þess að koma þessu máli í gegn. Og það var ekki að tilefnislausu, að ég gerði það, því að það hefur nú upplýstst, að enginn af þessum sjö eða átta mönnum hefur nokkru sinni stigið fæti sínum á íslenzka grund og þetta var aðeins gert í því skyni að veita þessum mönnum, sem ætluðu að flytjast til Suður- Ameríku, tækifæri til að komast þangað á okkar nafni, hún var þeim lokað land, nema við hefðum veitt þeim rétt til þess með því að veita þeim ríkisborgararétt. Ég hélt, að þetta atvik ætti að vera nóg til þess að minna allshn. á að hika við að afgr. þetta mál, eins og það er undirbúið.

Það hefur verið minnzt á það af hv. 1. landsk. þm., hvað óviðurkvæmilegt það er að afgr. þetta mál á þennan hátt og það yrði að setja fastar reglur um þetta atriði. Það eru til í lögum nr. 64 frá 1935 ákveðnar reglur um veitingu ríkisborgararéttar, en hér eru þær þverbrotnar án þess svo mikið sem að gera breytingu á þeim sömu lögum um leið. Það eru í þeim lögum ákveðnar reglur um það, að viðkomandi menn hafi orðið að vera hér a.m.k. 10 ár, en hins vegar er það látið óátalið, þó að mönnum sé veittur ríkisborgararéttur, sem aldrei hafa komið til landsins. Þetta mál er því vandasamara, sem við verðum að gæta þess fremur en aðrar þjóðir, að hingað fái ekki að flytjast aðrir menn en þeir, sem uppfylla þessi skilyrði að öllu leyti. Það er ekki lítil hætta, sem í því er fólgin að taka upp hina og þessa menn, sem hljóta þennan rétt aðeins fyrir áróður einstakra manna, en geta á engan hátt uppfyllt þau skilyrði, sem við hingað til höfum fylgt í þessu efni.

Ég get því á engan hátt fylgt þessu frv. og mun bera fram rökstudda dagskrá um það efni, að þessu máli verði vísað frá og ríkisstj. láti fara fram athugun á þessum lögum um ríkisborgararétt, hvernig menn fá hann og missa, og að það mál þurfi ekki eftir það að koma fyrir Alþingi. Það er einungis stjórnaratriði að veita ríkisborgararétt, og það á að gera eftir ákveðnum reglum.

Ég get fallizt á. að það þurfi að athuga aftur reglurnar frá 1935. Ég get t.d. fallizt á það, að ekki sé nauðsynlegt, að mennirnir hafi verið 10 ár í landinu. Ég tel, að það gæti verið réttlætanlegt að veita þeim mönnum, sem framið hafa einhverja sérstaka dáð, ríkisborgararétt fyrr en öðrum, og gæti þar alveg nægt eitt ár. Það má í því sambandi minna á, að brezka ríkið veitir mönnum, sem hafa unnið einhverja sérstaka dáð, ríkisborgararétt fyrr en öðrum mönnum. Þeir telja, að ef maðurinn hefur gert eitthvað það, sem sé svo mikilsvert fyrir þjóðina, að til sérstakra dáða megi teljast, þá sé það vel þess virði að veita honum þar fyrir ríkisborgararétt og landinu reyndar sæmd að því. En meginreglan hlýtur að vera sú, að maðurinn skuli hafa verið langan tíma í landinu, og sú regla verður að setjast þannig, að ríkisstj. geti veitt þennan rétt, en það þurfi ekki að vera að bera það undir þingið hverju sinni, hverjir skuli fá ríkisborgararétt og hverjir ekki. Ég held, að það sé fyllilega tími til kominn að breyta þessu máli í þetta horf. Það er ekkert aðkallandi að veita ríkisborgararétt á þessu ári og hægt að koma málinu í það horf, sem við erum hér að ræða um, áður en þing kemur aftur saman næsta haust. Það er ekkert, sem tapast við það, þó að beðið sé með að afgreiða þetta mál þangað til búið er að ganga úr skugga um það, hvaða reglur menn vilji að ráði í þessu efni og hvaða menn eiga réttinn samkvæmt þeim reglum. Allt annað er vansæmd fyrir þingið, vansæmd á sama hátt og það var stórlega vitavert að veita þremur eða fjórum fjölskyldum, sem aldrei komu til landsins, ríkisborgararétt.