18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

21. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Það er út af ummælum hv. 1. landsk. þm., sem ég vildi segja fáein orð. Hann gat þess sérstaklega í sambandi við afgreiðslu málsins í fyrra, að það hefði verið afgr. með hliðsjón af afgreiðslu þess á síðasta þingi á undan og að ekki hefði með því átt að fara að innleiða neina reglu um veitingu ríkisborgararéttar. Þessi afstaða n. í fyrra var algerlega bundin við það mál, sem þá var til afgreiðslu, en n. lýsti því sérstaklega yfir, að hún væri ekki með þeirri afgreiðslu að skapa neina reglu um veitingu þessa réttar.

En eins og þetta mál lá nú fyrir, þá átti allshn. um það að velja að láta málið vera óafgreitt, og það vildi hún ekki láta viðgangast, eða á hinn bóginn að halda sig við einhverjar reglur um þetta efni. Hún hefði getað haldið við þær reglur, sem hún fór eftir í fyrra, eða þær reglur, sem hv. Nd. fór eftir nú. Og þar sem segja má, að nokkuð mikið beri á milli hjá deildunum í þessu máli, þá þótti okkur, sem að afgreiðslu málsins stóðum nú, réttast að fara milliveginn og láta nokkuð af þeim kröfum, sem við annars hefðum viljað fara eftir, og þó að við værum á engan hátt ánægð með þær reglur, sem hv. Nd. hafði farið eftir. Ég held ég megi segja, að Nd. hafi t.d. bundið sig við 10 ára takmarkið. (BrB: Nei.) Jú, það má ég fullyrða. (BrB: Nei, þetta er rangt.) Ja, ég hef ekki skoðað plögg þessa fólks, en ég tók trúanlegt það, sem þeir sögðu mér, sem að afgreiðslu málsins stóðu í Nd., og þeir sögðu, að þeir hefðu bundið sig við það aldurstakmark. Og ég sé ekki, að við séum á neinn hátt nær því takmarki að fara á sanngjarnan hátt með veitingu þessa réttar, þó að deildirnar fari að slást um það, hverjum á að veita þennan rétt og hverjum ekki.

En nú er málinu háttað þannig, að Nd. afgr. þetta mál í fyrra á allmikið annan hátt en hún hefði kosið og lét þá nokkuð að óskum okkar. Mér finnst því skynsamlegast, þar sem svo langt er liðið á þing, — og ef þetta mál fær ekki framgang nú strax, þá eru líkur fyrir, að það verði alls ekki afgreitt, — að við slökum nokkuð til í því til samræmis við óskir Nd.

Það er engan veginn svo erfitt að hugsa sér, ef sú leið hefði ekki verið farin, að þessar tvær nefndir hefðu farið í hár saman út af þessu máli.

Nú var okkur öllum það fullljóst, að það voru vandræði að afgreiða málið eins og það lá fyrir. En þá kom það til athugunar, að með því að samþ. það í Nd., þá var búið að vekja vonir í brjósti ýmissa af þessu fólki og það hlaut að verða fyrir vonbrigðum, ef þetta mál hefði verið fellt hér eða einstakir menn teknir þaðan út.

Hv. þm. Barð. var að tala um það, að reglur hefðu verið brotnar. Á það við afgreiðslu þessa máls eins og það er í dag? (GJ: Almennt.) Það er tekið fram, að allir þessir menn hafa dvalizt hér a.m.k. í 10 ár nema þrír, og það stendur í ákvæðum um þetta 10 ára takmark, að þeir menn, sem séu af íslenzku foreldri, skuli vera undanþegnir því ákvæði. Og þessir menn, sem ekki hafa dvalizt hér tilskilinn tíma, voru teknir upp í frv. að tilhlutun ríkisstj. Og ég sé ekki ástæðu til að fara að rökræða það, hver skaði kann að vera af því, að þeir hafa verið teknir upp.

Ég mun að sjálfsögðu greiða þessu máli mitt atkvæði og tel, að þeir menn, sem upp hafa verið teknir, hafi verið teknir á öruggum grundvelli.