18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

21. mál, ríkisborgararéttur

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég get ekki neitað því, að það er alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að með lögunum frá 1935 voru ekki sett lög, sem banna það, að Alþ. geti veitt ríkisborgararétt hverjum og hvenær sem það vill. En ástæðan til þess, að þessi lög voru sett 1935, var sú, að þá var hin mesta óregla á þeim hlutum, hvaða skilyrði umsækjendur um ríkisborgararétt þyrftu að uppfylla til þess að fá réttinn, og þessi óregla gekk svo langt, að mönnum var jafnvel veittur ríkisborgararéttur hér, þótt þeir hefðu ekki dvalizt hér nema um örskamman tíma. Menn voru svo ósparir á veitingu þessa réttar hér í þinginu, að það þótti ástæða til að setja einhver lög, sem takmörkuðu þetta. En hæstv. dómsmrh. hafði rétt fyrir sér að miklu leyti, þótt hann hafi kannske ekki haft það að öllu leyti, ef orð hans eru skilin út í yztu æsar, því að þingið getur að sjálfsögðu sett lög um það, eftir hvaða reglum ríkisborgararéttur skuli veittur. Þannig eru þessi 1. frá 1935 þýðingarlítil á vissan hátt, vegna þess að Alþ. getur breytt þeim hvenær sem því þóknast. Þó hafa þessi lög dugað nokkuð, því að eftir þeim reglum, sem þingið setti sér þannig, hefur verið farið í aðalatriðum við veitingu ríkisborgararéttar síðan. Þau hafa dugað eins og eins konar krítarstrik, sem ekki hefur verið farið yfir, og hafa því dregið úr því gáleysi, sem ríkti áður í þessum efnum. Hvort þingið vill nú fara að setja slíkar reglur með nýjum lögum eða þá með endurskoðun á l. frá 1935, er að sjálfsögðu undir vilja þess komið, en það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að þau standa ekki í veginum fyrir því, að þingið getur veitt ríkisborgararétt eftir öðrum reglum og þarf ekki að taka tillit til þeirra. En ég get sagt það eins og það er, að mér þótti ástæða til að setja þessi lög, þótt ég vissi, hve lítið lagalegt gildi þau hefðu, vegna þess að íslenzkur ríkisborgararéttur er svo mikils virði og eftirsóttur. Við erum ein af þeim fáu þjóðum, sem ekki nota sinn kvóta til innflutnings í þau lönd, sem mikil eftirsókn er eftir að komast til. Og það hefur víða vakið mikla eftirtekt, og má kannske segja, að það sé dálítið undarlegt, að í þessu kalda landi hefur kvótinn til innflutnings í hin eftirsóttu lönd ekki verið notaður. Þess vegna hafa margir erlendir menn sótzt eftir að fá ísl. ríkisborgararétt til þess að komast inn í þau lönd, sem útilokað er að þeir kæmust til frá sínum eigin löndum. Og er ég komst að því, að svona stóð á, að það átti að nota ísl. ríkisborgararétt til þessa, þá var tekið fyrir það af ráðuneytinn á þann hátt, að ráðuneytið mælti ekki með því, að þeir fengju ríkisborgararéttinn. Ég man sérstaklega eftir tveimur dæmum, þar sem svona stóð á og umsækjendurnir uppfylltu öll þau skilyrði, sem krafizt var í þessu efni, en fengu þó ekki réttinn, vegna þess að við komumst að því, að þeir ætluðu að nota ísl. ríkisborgararétt til þess að komast til annarra landa, þar sem þeir víssu, hve okkar innflutningskvóti var lítið notaður. En það er mjög illa séð hjá öðrum þjóðum, sem eðlilegt er, ef við látum slíkt liðast. En þannig hefur sem sagt ísl. ríkisborgararéttur verið mjög eftirsóttur. — Eins og menn geta séð, er raunar enginn ágreiningur um þetta atriði á milli mín og hæstv. dómsmrh., en ég vildi bara, að hv. þm. tækju eftir því, að lögin frá 1935 hafa þannig gert geysilegt gagn. Þau hafa komið í veg fyrir, að ísl. ríkisborgararéttur hafi verið veittur með jafnmikilli ógætni og áður.