21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

21. mál, ríkisborgararéttur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að bæta hér nokkru við það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði. Hann gerði grein fyrir afstöðu n. í heild, en eins og menn rekur minni til, þá lá fyrir við 3. umr. hér í d. till. um annan þessara manna, sem nú er tekin upp í þessa brtt., flutt af okkur hv. 3. landsk. Ég gerði þá grein fyrir afstöðu minni. Þessi maður er Dagfinn Eilertsen, sem sennilega yrði Dagfinnur Erlendsson, ef till. um íslenzk nöfn kemur til framkvæmda. Ég vil aðeins bæta því við, að við meðferð málsins í Ed. voru tveir menn teknir upp í frv., sem komu til landsins 1946. Við þetta höfum við ekki gert neina athugasemd, er við athuguðum málið á ný í n. En þessi Norðmaður kom hingað til lands 1941 og giftist íslenzkri konu. Hann var búsettur á Seyðisfirði og giftist þar, en fluttist siðan hingað suður og átti þá tvö börn. Hann ætlaði að ílengjast hér á landi, en skrapp út. Þau hjónin eiga nú 6 börn, og hann gegnir hér sjómennsku. Hann fór, eins og ég sagði áðan, út í millitíðinni með herdeildinni til að hitta foreldra og vini og leysa sig úr herþjónustu. Að öllu þessu athuguðu, af því að hann hefur góð meðmæli og fluttist hingað 1941 og er giftur íslenzkri konu, þá sé ég ekki ástæðu til að mæla á móti honum, þar sem Ed. hefur ekki tekið strangt á l. um búsetu.

Svipað mun standa á með hinn Norðmanninn. Hann mun hafa komið hingað 1941 og kvæntist íslenzkri konu 1944 og á með henni börn. Það gegnir öðru máli en ella, þegar um er að ræða svo skyldar þjóðir sem Norðurlandaþjóðirnar eru, sem hafa haft hér nokkur forréttindi fram yfir aðrar þjóðir. Ég sé því ekki ástæðu til að neita mönnum um þennan rétt, sem hafa öll skilríki í lagi og hafa komið sér vel og vilja ílengjast hér, þar sem þeir eru kvæntir íslenzkum konum. Ég vil því leyfa mér að vænta þess með hliðsjón af því, hve mjótt er á mununum um afgreiðslu málsins, að hv. þm. hafi ekki skap í sér til þess að láta þessa tvo Norðmenn verða eftir, þegar 35 mönnum er veittur þessi réttur. Ég hygg, að menn geti með góðri samvizku greitt atkvæði með því, að þessir tveir menn fái íslenzkan ríkisborgararétt. Ég vildi aðeins bæta því við, ef einhver kynni að álíta, að málinu væri stefnt í hættu með brtt. nú, að ég hef átt tal við meiri hl. allshn. Ed., og þeir munu ekki setja fótinn fyrir þetta, og ætti þetta því ekki að hafa nein áhrif á framgang málsins. — Ég vildi bara láta þetta koma fram.