11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

38. mál, hámark húsaleigu o. fl.

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta er komið til þessarar d. frá hv. Nd., þar sem það var borið fram, en á því voru gerðar þar nokkrar orðalagsbreyt., en að efni til kom það óbreytt frá d. Þegar allshn. hafði málið til umræðu, þótti henni eðlilegt að athuga, hvort ekki væri rétt að tengja þetta frv. við frv. um húsaleigu, sem nú liggur fyrir Nd. Í þessu sambandi ræddi n. við borgarstjórann í Reykjavík um það, hvort ekki mundi vera rétt að framlengja bindingarákvæði húsaleigul. frá 1949, og tjáði borgarstjóri n. það álit sitt, að þess mundi ekki þörf sökum þess, hve mörg ný hús væru nú að rísa upp, og mundi því fljótlega rakna úr þeim húsnæðisskorti, sem menn hafa átt við að búa. Hins vegar taldi þó meiri hl. n., að rétt væri að framlengja þessi ákvæði, bæði með tilliti til ýmissa upplýsinga um húsnæðisskort, sem nm. hafa borizt, og enn fremur með tilliti til þess, að ef þessi ákvæði yrðu felld úr gildi núna og engin ný húsaleigulög samþ. á þessu þingi, þá yrði búið að kippa burt öllum þeim leifum, sem eftir eru af almennum húsaleigul.

N. leggur því sem sagt til, að l. frá 1949 um húsaleigu skuli framlengd um eitt ár, eða til 14. maí 1953. Að öðru leyti leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. En eins og segir í nál. voru aðeins fjórir nm. viðstaddir, er málið var afgr., en sá 5., hv. þm. Seyðf., var ekki mættur á fundinum, og mun hann því gera grein fyrir sinni afstöðu í málinu, ef hann sér ástæðu til þess og hefur aðra afstöðu en meiri hl. — Ég vænti þess svo að lokum, að brtt. á þskj. 388 verði samþ.