22.01.1952
Neðri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

38. mál, hámark húsaleigu o. fl.

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þessu máli var vísað aftur til allshn. eftir breyt., sem á því var gerð í hv. Ed. Er það smábreyt. sú, sem nú er í 3. gr., að fresta um eitt ár að fella úr gildi bindingarákvæði l. um húsnæði í húsum, sem húseigandi býr ekki í sjálfur.

Mér þykir rétt að rekja nokkuð gang þessa máls. Eins og hv. form. allshn. gat um, varð ekki samkomulag í n. um að leggja til breyt. á frv. frá því, sem það er nú, en á síðasta þingi stóðu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn að þeirri breyt. á húsaleigul., þ.e. l. nr. 56, sem þetta frv. er breyt. á. En þá var í raun og veru bundinn endir á margra ára deilu hér á þingi um það, hvort niður skyldi fella úr l. þau ákvæði, sem tekin voru upp í húsaleigul. á sínum tíma, að húseigendum væri óheimilt að segja upp leigjendum í húsum þeirra. Þetta ákvæði var varið með þeim rökum, að um sérstakt neyðarástand væri að ræða á stríðstímanum. En þegar stríðinu lauk og aðstæður breyttust og niður féllu margar hömlur, sem rétt þótti að hafa á stríðsárunum, voru samt þessar hömlur látnar haldast. Þótti húseigendum hart að búa áfram við svo takmarkaðan ráðstöfunarrétt á eignum sínum, ekki sízt vegna þess, að á þeim tíma, sem þessi lögbinding hafði gilt, hafði skapazt í mörgum tilfellum óþolandi ástand í sambýli húseigenda og leigjenda. Um þetta var svo mikill ágreiningur manna á meðal og hér á þingi ár eftir ár. Var því sérstaklega haldið fram af þeim, sem vildu halda lögþvinguninni áfram, að það mundi leiða til öngþveitis í húsnæðismálunum, ef lögþvingunin yrði niður lögð. Hinir héldu fram, að slíkt afnám leiddi á engan hátt til meiri vandræða í húsnæðismálum en var. Þvert á móti mætti vænta þess, að í ýmsum tilfellum rýmkaðist húsnæðisástandið, — að það yrðu lausar til leigu íbúðir, sem menn hefðu ekki þorað að festa, þegar þeir hefðu í huga þau ströngu ákvæði, sem þeir yrðu að búa við, ef þeir einu sinni hleyptu leigjanda inn. — Ég fer fljótt yfir sögu og skal ekki rekja gang þessa máls lengra. En ég sagði áðan, að á s.l. þingi hefði verið bundinn endir á þessa deilu með sameiginlegum þingmeirihluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Var slegið föstu, að lagt skyldi á vald bæjarstj., hvort lögþvingunin héldi áfram. Hún skyldi falla niður gagnvart leiguhúsnæði, þar sem húseigandi bjó, árið 1951, nema bæjarstjórn óski þess og geri ákvörðun um, að hún skuli halda áfram. Þessi lögþvingun skyldi falla niður gagnvart húsnæði í leiguhúsi, þar sem húseigandi er ekki sjálfur, vorið 1952, nema bæjarstj. óski eftir, að lengur haldist. Nú hygg ég, að eingöngu í Reykjavík hafi komið verulega til álita um þetta mál af hálfu bæjarstjórnar. Um atvinnuhúsnæði og einmenningsherbergi var orðin frjáls ráðstöfun á árinu 1950. En þegar leið á árið 1951, kom að því hér í Reykjavík, hvort bæjarstj. óskaði eftir lögþvinguninni áfram. Þetta mál var rætt nokkrum sinnum á bæjarstjórnarfundum fyrir áramótin 1950–51 og í byrjun ársins, og það kom fram sá sami kvíði hjá mörgum bæjarfulltrúum eins og komið hefur fram í þinginu, að við mundum lenda í óviðráðanlegum vandkvæðum í húsnæðismálunum í höfuðstaðnum, ef bæjarstjórnin óskaði ekki að halda lögþvinguninni áfram. Af hálfu meiri hl. bæjarstj. var litið þannig á þetta mál, að úr því fengist naumast skorið, hvaða afstöðu bæjarstj. gæti tekið, nema fyrir lægi vitneskja um það, í hve ríkum mæli húsnæði mundi verða sagt upp, þegar frjálst yrði að segja því upp, þ.e. með 3 mánaða fyrirvara, fyrir 15. maí 1951. Því var það að tilhlutun horgarstjóra, að húsaleigun. stofnaði til rannsóknar eða skráningar um miðjan febr. s.l., hversu mörgum leigjendum hefði verið sagt upp húsnæði þar, sem húseigandi bjó sjálfur, því að þeir, sem ekki hafði verið sagt upp húsnæði fyrir 15. febrúar, gátu setið áfram til 15. maí. Þessi rannsókn stóð yfir nokkurn tíma og var, eftir því sem verða mátti, vel undirbúin af hálfu húsaleigun. Þegar skýrslur lágu fyrir bæjarstj., tók meiri hl. hennar þá afstöðu að lýsa yfir, að bæjarstj. óskaði ekki eftir, að áður nefnd lögþvingun gilti áfram, og rökstuddi það með tilvísun til skýrslunnar, sem fyrir lá. Meginatriði þeirrar skýrslu skal ég nefna og fara fljótt yfir sögu. Af 3500–4000 íbúðum, sem í bænum voru þannig leigðar, hafði verið sagt upp 272 leigutökum. Engir voru meðal þeirra, sem höfðu stórar fjölskyldur á framfæri sínu. Skýrslan var rækilega sundurliðuð. Á grundvelli hennar tók bæjarstjórnin þá ákvörðun, sem ég vitnaði til. Síðan þetta gerðist, liggur fyrir nokkur reynsla. Fer svo fjarri því, að hún staðfesti ótta þeirra, sem héldu, að af þessu lögþvingunarákvæði stöfuðu meiri vandræði. Þvert á móti má segja, að vandræðin séu minni en áður. En ljóst er, að langt frá því vandkvæðalaust var að láta lögþvingunina falla niður. Hafa af því stafað viss vandkvæði, sem bæjarstj. hefur gert sitt til að greiða fram úr, og fasteignaeigendafélagið hefur haft fullan skilning á því að draga sem mest úr vandkvæðunum. En um leið og viðurkennd eru viss vandkvæði, verða menn að muna hin sífelldu og stöðugu vandkvæði áður, meðan lögþvingunarákvæðið var í gildi. Og þeir menn, sem hafa nánust kynni af þessu máli og starfa á skrifstofu framfærslumála í Reykjavík, telja vandkvæðin sízt hafa aukizt, en kannske minnkað, eftir að lögþvingunin var felld niður. Ég tel rétt, að hv. þm. verði kunnug skýrsla sú, sem skrifstofa framfærslumála í Reykjavík hefur gefið mér um þetta atriði. Ég óskaði eftir henni, til þess að hún yrði rædd í n. Og ef náðst hefði meirihlutasamkomulag í n. um að breyta aftur því, sem hv. Ed. hefur breytt í frv., þá hefði meiri hl. gefið út sérstakt nál. og látið þessa skýrslu fylgja og aðrar, sem safnað hefur verið í málinu. En þar sem ekki náðist meirihlutasamkomulag á þessum grundvelli, hef ég ekki að svo komnu máli hirt um að gefa út sérstakt minnihlutaálit.

Ég les þá upp þessa skýrslu, og er hún á þessa leið.

„Þegar lög nr. 56 25. maí 1950 voru sett, var mjög um það óttazt af ýmsum, að uppsagnir á leiguíbúðum hér í bænum yrðu svo margar, að ógerningur mundi reynast að ráðstafa því fólki, sem missti íbúðir sínar, ef hömlur húsaleigul. á uppsagnarrétti húseigenda yrðu látnar niður falla.

Leiguíbúðir í Reykjavík eru alls 63G0, og var jafnvel gert ráð fyrir, að sagt yrði upp leigu á allt að þriðjungi þeirra.“ Eða m.ö.o., það var gert ráð fyrir því fyrir fram af starfsmönnum Reykjavíkurbæjar, og þeir eru þessum málum bezt kunnugir, að sagt yrði upp um 2000 íbúðum. — Svo heldur skýrslan áfram:

„Vegna þessa lét borgarstjórinn fram fara opinbera skráningu á vegum húsaleigun., þar sem ætlazt var til, að allir leigutakar, sem sagt hefði verið upp leiguíbúðum, gæfu sig fram, greindu frá uppsagnarástæðum og skýrðu frá þeim úrræðum, er þeir hefðu um að útvega sér annað húsnæði eða semja um framhaldsleigu við leigusalana. Skráning þessi fór fram eftir 14. febr. 1951, en þá hlutu að vera komnar fram allar uppsagnir, er miðast áttu við 14. maí s. á. Var skráningin auglýst mjög rækilega í öllum dagblöðum og útvarpi og skrifstofa húsaleigun. höfð opin til kl. 7 e. h. skráningardagana, svo og einn sunnudag.“ Ég vil vekja sérstaklega athygli á því, að hér er annars vegar miðað við 14. maí og hins vegar 1. okt., en um það leyti eru útburðarbeiðnirnar venjulega flestar.

„Til skráningar komu alls 272 leigutakar, aðrir en einhleypingar, sem fengið höfðu uppsagnir, og var það miklum mun færra en flestir höfðu ætlað.

Meiri hluti þessara leigutaka réð fram úr húsnæðisvandræðum sínum af eigin rammleik án nokkurra opinberra afskipta, og nokkrir fengu íbúðir með tilstyrk eða fyrir milligöngu bæjarfélagsins, og aðeins einn útburður fór fram. Svipað er að segja um leigufardagann 1. okt. s.l., nema að þá voru uppsagnir og útburðarbeiðnir talsvert færri.

Í grg. með frv. til húsaleigul., þskj. 268, bls. 15, er yfirlit um þær útburðarbeiðnir, sem borizt hafa borgarfógetaembættinu í Reykjavík á árunum 1941–1951. Þar kemur í ljós, að á árinu 1951, fram til 25. okt., hefur borizt alls 121 útburðarbeiðni, og eru þá meðtaldar allar þær beiðnir, sem stafa af breytingum á uppsagnarákvæðum húsaleigul. á því ári. En á næstu 10 árum á undan, 1941—1950, bárust að meðaltali rúmlega 147 útburðarbeiðnir á ári, fyrir utan allan þann fjölda ágreiningsmála, sem húsaleigunefndin lagði úrskurð á á þessum árum og aldrei komu til fógetaréttarins. Á þessu tímabili gilti þó húsaleigulöggjöf með mjög þröngum uppsagnarákvæðum.

Af framanrituðu verður séð, að brottfall þeirra takmarkana, sem giltu um uppsagnarrétt á leiguíbúðum í húsum, er eigandi býr sjálfur í, hefur engan veginn valdið þeim vandræðum, sem margir óttuðust, og að uppsagnir á leigurétti urðu mun færri en búizt var við.

Eins og áður segir, eru leiguíbúðir í Reykjavík alls 6360. Þar af eru 2000–2500 í húsum, sem eigendur búa ekki sjálfir í, og gilda um þær óbreyttar sömu takmarkanir á uppsagnarrétti og verið hafa undanfarin ár, fram til 14. maí þessa árs a.m.k.“ Þessu ákvæði hefur Ed. breytt þannig, að þetta ákvæði skuli gilda einu ári lengur. „Verði þær takmarkanir látnar niður falla, er að sjálfsögðu mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hver áhrif það mundi hafa, og þýðingarlaust að byrja á rannsókn fyrr en eftir 14. febr. n.k., þegar uppsagnarfrestur er liðinn.

Til skrifstofu borgarstjóra hafa þegar leitað 24 leigutakar, sem búa í slíkum íbúðum, og óskað eftir aðstoð um útvegun húsnæðis 14. maí n.k. Þar af hafa 8 fengið skriflegar uppsagnir frá húseigendum, en hinir allir töldu víst, að uppsagnir kæmu innan lögboðins tíma, og engum þeirra virtist hafa komið til hugar, að takmarkanirnar á uppsagnarrétti yrðu látnar gilda framvegis.

Um þessa leigutaka má yfirleitt segja, að þeir búa í stærri og betri íbúðum en þeir, sem misstu íbúðir sínar 14. maí og 1. okt. s.l., og eru mun betur stæðir fjárhagslega. Þeir ættu því að hafa meiri möguleika til að ráða fram úr húsnæðismálum sínum af eigin rammleik, en hins vegar hætt við, að þeir eigi erfiðara með að sætta sig við umskipti til hins lakara.

Margar uppsagnir og útburðarbeiðnir 14. maí og 1. okt. s.l. stöfuðu eingöngu af ósamkomulagi eða illri sambúð leigutakans og húseigandans, sem oft hafði staðið árum saman og var orðið óþolandi fyrir báða. Ætla má, að slík tilfelli séu tiltölulega miklu færri í þeim húsum, sem eigendur búa ekki sjálfir í, a.m.k. getur ekki verið um illa sambúð að ræða.“

Þegar Alþ. hafði mál þessi til meðferðar, var ákveðið að leita álits borgarstjórans í Reykjavík, og hann mælti móti því, að þessi breyt. yrði gerð, sem Ed. hefur nú gert. Samt sem áður gerði meiri hl. d. þessa breyt. En mér er ekki kunnugt um það, hvaða aðilar það voru, sem fyrir þessu stóðu aðallega í allshn. Ed. Þeir hv. þm., sem beitt hafa sér fyrir samþykkt frv., virðast ekki hafa kynnt sér, hvaða áhrif húsaleigul. hafa haft, eða gert sér grein fyrir því, hvaða áhrif þau muni hafa á komandi ári. Og það sýnist harla einkennilegt af þeim mönnum, sem stóðu fyrir þessari breyt. fyrir ári síðan, í maí 1950, að vilja nú í miðjum janúarmánuði telja þm. bæra um að kveða upp úr með það, hvort lög þessi muni leiða til ófarnaðar, án þess að afla skýrslna um málið og átta sig á hinu raunhæfa ástandi í því.

Þegar bæjarstjórn Reykjavíkur aflaði sér upplýsinga, voru það aðeins 272 leigutakar, sem fengið höfðu uppsögn af 2000–2500 leigutökum alls. Enn er ekki hægt að segja um það, hve mörgum verður sagt upp 14. maí í vor, en um það getur bæjarstjórn Reykjavíkur aflað sér upplýsinga strax eftir 14. febr. Hvað það er, sem rekur þm. til þess að taka þessa afstöðu eftir þennan dóm þeirra manna, sem bezt þekkja til þessara mála, get ég ekki skilið, því að síðan hafa ekki skapazt nein vandræði, og þar sem bæjarstjórnin hefur aðstöðu til þess að fylgjast með því, hve mörgum er sagt upp sínu leiguhúsnæði. Mér finnst, að Alþ. eigi ekki að hrapa svona að máli eins og þessu. Bæjarstjórnin hefur látið þessa lögbindingu niður falla og komizt að þeirri niðurstöðu, að við það hafi ekki skapazt meiri vandræði í húsnæðismálunum en áður voru. Og nú eftir nokkra mánuði yrði enn séð aftur, hver árangurinn yrði. En ef þessi ákvæði eru svo nauðsynleg, hvers vegna eru þau þá ekki framlengd til 1955 eða 1956? Ef bæjarstjórn Reykjavíkur mátti ráða þessu 1951, hvað er þá því til fyrirstöðu, að hún megi líka ráða þessu 1953?

Fram hjá hinn verður ekki gengið, að Ed. hefur tekið hér á dagskrá deilur um eitthvert viðkvæmasta vandamál þjóðfélagsins, sem við höfum hér við að glíma, og vandinn hvílir fyrst og fremst á herðum þeirra manna, sem styðja málið, og á flm. þess, hv. 8. þm. Reykv. (RÞ), og þykir mér merkilegt, að hún skuli geta fengið hv. þm. Ed. til þess að sinna þessu máli.

Okkur, sem sæti áttum í bæjarstjórn Reykjavíkur, var það ljóst, að þegar þessi breyt. var gerð á l. 1950, þá tók bæjarstjórnin á sig ýmsa erfiðleika, sem skapast mundu í sambandi við þetta. Og nú koma fram menn, sem leggja til, að l. verði aftur breytt í sama horf og þau voru í fyrir þann tíma, án þess að rökstyðja það nánar. En hvernig stendur á því, að gera á þessa ráðstöfun hér í Reykjavík án þess að athuga og rannsaka málið? Það mætti, ef bæjarstjórnin sérstaklega óskaði eftir því, eftir að málin hefðu verið enn betur athuguð, setja þau ákvæði, sem mörkuð voru með húsaleigul. Hvers vegna ekki að heimila bæjarstjórninni að ráða þessu sjálf? Ég mun fylgja þeirri brtt., sem hér hefur nú komið fram um að taka aftur 3. gr. eins og hún nú er, þ.e. breyt., sem kom inn í frv. í Ed., og jafnvel fylgja öðrum brtt., sem fram kunna að koma. Mér er það ljóst, að hér er fjallað um viðkvæmt mál. En bæjarstjórn Reykjavíkur hefur reynt að greiða úr þessu máli fyrir sitt leyti, og hún hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki muni skapast meiri húsnæðisvandræði, þótt lögþvingun húsaleigu falli niður. Það er hægt að skilja aðstöðu leigjenda í þessu máli, en þeim, sem fasteignirnar eiga, finnst það allhart að hafa ekki umráðarétt sinna eigna, þar sem þjóðfélagið þó viðurkennir umráðarétt þeirra á eignum sínum. Og ef tekinn er af mönnum réttur þeirra til þess að ráðstafa eigin húsum og sett lög um húsaleiguna, er víst, að margir húseigendur geta ekki haldið eignum sínum við, svo dýrt er nú orðið allt viðhald húsanna.

Nú liggur fyrir þinginu frv. um það að fimmfalda fasteignamatið. Ef það verður samþ., þá hækka stórlega gjöld af húseignum, og ég fæ ekki séð, hvernig eigendur þeirra fá staðið undir þessum gjöldum, ef húsaleigan er lögþvinguð. Ég tel óeðlilegt að taka upp þá löggjöf um leiguhúsnæði, sem í gildi var eftir hið bindandi ástand stríðsáranna.