22.01.1952
Neðri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

38. mál, hámark húsaleigu o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í nál. allshn. Ed. er mín getið að nokkru og skýrt frá ummælum mínum á fundi þeirrar n. Þar sem ég á ekki sæti í þeirri n., sem málið fór til í þessari d., hef ég ekki aðstöðu til þess að koma þar að aths. varðandi þskj. 388, en þar eru orð mín nokkuð rangfærð.

N. óskaði eftir umsögn minni um það, hvort ég teldi eðlilegt, að bindingarákvæði húsaleigul. yrði framlengt eða gert ráð fyrir því, að það félli úr gildi eftir 14. maí 1952. Ég lét orð falla á þá leið, að þar sem Alþ. hefði afgreitt þetta mál 1950 með miklum meiri hl. þm. að baki, þá væri ekki rétt, að Alþ. breytti nú um stefnu. Að öðru leyti gat ég þess, að minni ástæða væri til þess að halda bindingarákvæðinu, þar sem nú hefði verið gefið frjálst að byggja smáíbúðir og nokkurt starf hafið í því sambandi.

Þetta vildi ég láta koma hér fram. — Ég skal svo ekki fara mörgum orðum um þetta frv., en aðeins taka fram nokkur atriði.

Þetta frv. er þannig til komið, að á síðasta ári samþ. bæjarstjórn Reykjavíkur að skora á félmrh. að gefa út brbl. um tvö atriði: að setja ákvæði um hámark húsaleigu, en þau ákvæði hafa fallið niður, og í öðru lagi að setja ákvæði til þess að tryggja forgangsrétt bæjarmanna til húsnæðis í bænum, en þau ákvæði hafa einnig niður fallið. Hæstv. ráðh. varð við þessu og gaf út brbl. í samræmi við þetta. Nú vill svo til, þegar málið kom til meðferðar í Ed., að þá er sett inn það ákvæði, sem nú er 3. gr. frv., að fyrir orðin „14. maí 1952“ skuli koma „14. maí 1953“, og húsaleigul. þannig framlengd um eitt ár. Ég endurtek, að hér er um afvik að ræða frá því, sem þá var um samið, og tel það illa farið vegna þess, að vorið 1950 var gert ráð fyrir af meiri hl. þm., að þessar hvimleiðu deilur væru úr sögunni og stefnan mörkuð, og þetta er ekki aðeins mitt álit, heldur fjölmargra annarra, sem fengizt hafa við húsnæðismál hér. — Í frv. til laga um húsaleigu, sem lagt er fyrir Alþ. sem 125. mál, segir m.a. í sérgrg. Ólafs Sveinbjörnssonar, en hann er sá maður, sem kunnugastur er þessum málum hér í Reykjavík, hann ræðir sérstaklega hættuna af óvíssunni, hvort megi segja upp eða ekki, og segir: „Það er einmitt þessi óvissa um framhaldslöggjöf í húsnæðismálum, sem nú veldur því, að nokkurt húsnæði stendur autt í Reykjavík og víðar.“ Þó mætti deila um samkomulagið, sem hér náðist 1950. Var því þó þar með slegið föstu, að ákveðin, tímabundin ákvæði skyldu niður falla, nema sveitarstjórnir á hverjum stað sæju ástæðu til að framlengja þau.

Hv. 5. þm. Reykv. gerði ýtarlega grein fyrir því, hvernig þessi mál hefðu horft á s.l. vori og hvers vegna meiri hluti bæjarstjórnar taldi ekki heppilegt að framlengja bindingarákvæðin. Nú eiga hins vegar þær breyt., sem Ed. gerði, að gerbreyta þessu og skapa að nýju þessa óvissu um, hvort uppsagnir séu heimilar. Vil ég taka undir þau ummæli Ólafs Sveinbjörnssonar, að þessi óvissa skapar vandræði og er ein af mörgum ástæðum húsnæðisvandræðanna. Ég tel rétt, að þetta komi hér fram á þessu stigi, því að ég tel, að með þessari breyt., sem hv.

Ed. gerði á frv., sé verið að fara inn á óheppilega braut með því að skapa að nýju þessa óvissu. Annars vekur þessi afstaða Framsfl. furðu, því að í frv. um breyt. á húsaleigul. 1949–50 var í málflutningi þeirra lögð megináherzla á það, að Alþ. eigi ekki að ákveða um þetta, heldur eigi það að vera í höndum bæjar- og sveitarstjórna, og í grg. með þessu frv., sem var samin af hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. A-Sk., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þessu frv. er að því stefnt, að húseigendur fái full og óskoruð ráð yfir húseignum sínum, áður en mjög langur tími líður. En hve það dregst lengi, fer eftir afstöðu hvers bæjarfélags um sig. Samkv. frv. á að veita bæjarstj. heimild til að kveða á um, hvenær hætt verði að framkvæma húsaleigul. á hverjum stað. Bæjarstjórnir eiga að hafa mesta kunnugleika á þessu máli í hverju bæjarfélagi um sig.“

Og í nál. síðar um sama mál, sem samið er af hv. 1. þm. Árn., sem var frsm., er lögð áherzla á þetta sama, að bæjarstjórnir hljóti vegna kunnugleika þeirra að vera bezt dómbærar á, hvað henti í þessum efnum. En nú er alveg söðlað um, og nú virðast þessir hv. þm. fylgja breyt. þvert ofan í þá skoðun, er þeir héldu fram um heimild bæjarfélaganna til að ráðstafa þessum málum. Ástæðan til, að þetta kemur hér fram, má vera sú, að þessi flokkur hafi gert samkomulag við stjórnarandstæðinga um að breyta þessum l., og verður þá ekki við það ráðið, en ég tel misráðið, að horfið er frá þessari stefnu og með nýjum l. gerbreytt þessum brbl. og þannig tekið fram fyrir hendur bæjarstjórnanna af þm., sem sögðu sjálfir, að bæjarstjórnirnar væru bezt dómbærar um þessi mál.